Skipulagsbreytingar hjá Íslandspósti hf.

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:25:24 (7460)

2000-05-10 15:25:24# 125. lþ. 114.17 fundur 613. mál: #A skipulagsbreytingar hjá Íslandspósti hf.# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:25]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir þessa fsp. því að það er vissulega ástæða til að koma á framfæri skýringum sem mér gefst færi á að gefa hér.

Áður en ég svara fsp. er nauðsynlegt fyrir okkur, bæði mig og hv. fyrirspyrjanda, að setja okkur í þær stellingar að muna að þetta er ekki lengur stofnun heldur hlutafélag sem við erum að tala um, Íslandspóstur hf. Stundum gleymir maður því vissulega að svo er. En fsp. hv. þm. er svohljóðandi:

,,Hvaða áhrif hafa skipulagsbreytingar hjá Íslandspósti hf. haft á starfsmannahald og starfsmannastefnu á landsbyggðinni frá því að stofnunin var gerð að hlutafélagi?``

Almenn starfsmannastefna Íslandspósts er og hefur verið frá stofnun félagsins eftirfarandi og engar breytingar eru fyrirhugaðar á henni:

Íslandspóstur leggur áherslu á að bjóða starfsmönnum sínum áhugaverð störf, aðlaðandi vinnustaði og kjör og frama sem tengjast árangri. Fyrirtækið beitir sér fyrir því að menntunarstig og félagslegur aðbúnaður starfsmanna, svo sem starfsmannafélag og samstarf við stéttarfélög, þróist í takt við þjóðfélagsaðstæður almennt.

Íslandspóstur hefur margþætta starfsemi á landsbyggðinni. Dreifing bréfa og böggla er eðli málsins samkvæmt meginþjónustan og sú mikilvægasta en auk hennar starfrækir Íslandspóstur afgreiðslustaði sem sinna móttöku og að einhverju marki afhendingu póstsendinga. Afgreiðslustaðir Íslandspósts hafa einnig sinnt þjónustu vegna greiðslumiðlunar og þjónustu við óskylda aðila svo sem Landssíma Íslands hf. og Happdrætti háskólans.

Frá stofnun félagsins 1. janúar 1998 hafa áherslur í rekstri fyrirtækisins breyst nokkuð á þann veg að dreifingarþátturinn hefur fengið aukið vægi. Breytt samsetning pósts hefur aukið umfang bréfadreifingar og áætlanir um fimm daga þjónustu landpósta eykur verulega dreifingarstarfið meðan verkefni í afgreiðsluþættinum hafa dregist saman.

Þjónusta fyrir Landssíma Íslands hefur minnkað verulega og fjöldi greiddra gíró- og greiðsluseðla hefur dregist saman um nálægt 10% á ári hverju. Til að mæta þessari breyttu stöðu hefur Íslandspóstur tekið upp samstarf við aðra aðila eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, aðallega banka og sparisjóði, um sameiginlegan rekstur á afgreiðslustöðum. Það hefur gefist vel. Þegar tekið er upp samstarf við aðra aðila er lögð áhersla á að þjónusta póstsins skerðist ekki og það tel ég að hljóti að vera allra mikilvægasta viðfangsefnið.

Fjöldi starfsmanna á landsbyggðinni að meðtöldum landpóstum hefur frá stofnun félagsins þróast á eftirfarandi hátt: Á Vesturlandi voru starfandi árið 1998 86 starfsmenn en nú árið 2000 eru þeir 89 og hefur fjölgað um þrjá á Vesturlandi. Á Vestfjörðum voru þeir 91 1998 en hefur fækkað um tvo og eru nú 89. Á Norðurlandi vestra hefur fjölgað um tvo starfsmenn úr 63 í 65. Á Norðurlandi eystra hefur hins vegar fjölgunin orðið nokkur þar sem 1998 voru 129 starfsmenn en þeim hefur fjölgað um 15 eða í 144. Á Austurlandi hefur starfsmannafjöldinn staðið í stað frá 1998, þar eru 105 starfsmenn. Á Suðurlandi hefur fjölgað um fimm, úr 111 í 116. Á Suðurnesjum hefur þeim einnig fjölgað um fimm, úr 69 í 74. Á landsbyggðinni voru því samtals 654 starfsmenn árið 1998 og eru 28 starfsmönnum fleiri á þessu ári eða 682. Þetta er nauðsynlegt að draga fram.

Í ljósi fyrrnefndra breytinga á verkefnum Íslandspósts og þróun í nágrannaríkjum okkar, þar sem póstfyrirtæki reka sjálf á bilinu 30--45% af afgreiðslustöðum sínum, auk ágætrar reynslu af samstarfi við aðra aðila um sameiginlegan rekstur afgreiðslustaða má búast við að á næstu tveimur til þremur árum muni Íslandspóstur fjölga stöðum þar sem póstafgreiðslur eru reknar í samstarfi við aðra aðila.