2000-05-10 15:37:09# 125. lþ. 114.21 fundur 605. mál: #A norræna rannsóknarsamstarfsverkefnið "Byggð og tímatal í Norður-Atlantshafi"# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SighB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. samgrh. og starfandi menntmrh. fyrir þá lipurmennsku hans að sjá til að þessari fyrirspurn yrði svarað þó að ráðherrann sem henni var beint til sé erlendis og geti ekki verið viðstaddur.

Markmið verkefnisins sem hér um ræðir er að kanna upphaf byggðar á Íslandi og raunar í Færeyjum einnig á grunni rannsókna. Niðurstöður þeirra rannsókna gætu breytt hefðbundinni söguskoðun og tímasetningu landnáms á Íslandi sem grundvallast hefur á túlkun sagnaarfsins í íslenskum ritum frá miðöldum. Ýmsir aðilar hafa veitt styrk til verkefnisins og margir vísindamenn tekið þátt í því en verkefnisstjóri hefur verið dr. Margrét Hermanns Auðardóttir. Niðurstöðurnar sem þegar hafa fengist benda til þess að landnám á eyjunum í Norður-Atlantshafi hafi hafist mun fyrr en menn áður töldu. M.a. eru líkur taldar á því að heiðnir menn og kristnir hafi búið saman í landinu á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Ýmsar aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið síðar og nýlega hafa farið fram renna enn frekari stoðum undir þessa tilgátu.

Á Íslandi er nú efnt til mikilla viðburða, bæði vegna árþúsundamótanna og til að minnast þess að þúsund ár eru liðin frá kristnitöku á Þingvöllum. Tilvalið er því að ljúka því ári endanlega og með því athyglisverða verkefni sem felst í Íslandsþætti hins samnorræna verkefnis um byggð og tímatal í Norður-Atlantshafi, ekki síst vegna þess að þar kann að verða rennt sannfærandi vísindalegum stoðum undir breytingar á viðtekinni söguskoðun um búsetu manna á Íslandi og upphaf Íslandsbyggðar. Þess var farið á leit við menntmrh. að hann svaraði eftirfarandi fsp. sem nú hafa verið lagðar fram:

1. Hvernig áformar ráðherra að tryggja að lokið verði við Íslandsþáttinn í norræna rannsóknarverkefninu Byggð og tímatal í Norður-Atlantshafi?

2. Er ráðherra reiðubúinn til að beita sér fyrir því að úrvinnslu rannsókna á Íslandsþætti verkefnisins geti lokið á árinu 2000?