Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 20:12:27 (7472)

2000-05-10 20:12:27# 125. lþ. 115.1 fundur 511#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumnræður)#, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 125. lþ.

[20:12]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Það er komið að lokum eftirminnilegs þinghalds og mörg mál hafa hlotið afgreiðslu á síðustu dögum. Núverandi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fékk ótvírætt umboð í síðustu kosningum til að halda starfi sínu áfram og við höfum unnið markvisst á þessum þingvetri í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Engum blöðum er um það að fletta að við höfum náð miklum árangri. Ég rakst á nokkurra daga gamla frétt í dönsku blaði þar sem fram kemur að kaupmáttur á Íslandi sé hinn fimmti mesti í heimi, aðeins Bandaríkin, Kanada, Noregur og Sviss standi okkur framar að því leyti. Í nýlegri umfjöllun breska stórblaðsins Financial Times er farið afar lofsamlegum orðum um stöðu mála hér á landi. Óháð stofnun í Sviss gerði könnun á samkeppnishæfi þjóða og hækkaði Ísland um sjö sæti frá því í fyrra. Við lentum þar í tíunda sæti en í því fjórða að því er varðar styrkleika hagkerfisins og í fyrsta sæti hvað varðar mannauð. Erlend fyrirtæki sem meta lánshæfi ríkja fá sömu niðurstöðu.

Og hvað sagði gestur Samfylkingarinnar um síðustu helgi, breski sósíalistinn Glenda Jackson? Sagði hún ekki einmitt í fréttum um helgina að Ísland væri álitið öðrum ríkjum til sérstakrar fyrirmyndar?

Auðvitað ber okkur að ganga hægt um gleðinnar dyr. Það er skylda okkar að varðveita þann árangur sem náðst hefur og halda áfram að betrumbæta þjóðfélagið, gera enn betur en til þessa. Þess vegna ber okkur að sjálfsögðu að bregðast við öllum váboðum sem ógnað geta efnahagslegum stöðugleika og grafið undan velferð almennings í landinu. En það getur líka verið hættulegt í sjálfu sér að mikla fyrir sér vandann, tala í óábyrgum fyrirsagnastíl og missa sjónar á aðalatriðunum.

Hv. síðasti ræðumaður brá ekki vana sínum og talaði í stóryrðum um efnahagsmálin og sakaði síðan aðra um flím og köpuryrði. En hvað var þingmaðurinn að segja hér? Hann var í raun og veru að halda því fram að hér væri allt í kaldakoli í efnahagsmálum og sakaði ríkisstjórnina um óstjórn og aðhaldsleysi. Það var kjarninn í ræðu formanns Samfylkingarinnar að því er varðar efnahagsmálin.

En hvað er hæft í þessu? Kjarni málsins er vitanlega sá að staða efnahagsmála hér á landi hefur verið mjög traust undanfarin ár og er enn. Íslenskt efnahagslíf hefur tekið miklum stakkaskiptum frá því í upphafi þessa áratugar. Hagvöxtur hefur verið mikill ár eftir ár. Kaupmáttur heimilanna hefur aukist verulega og reyndar aldrei verið meiri en nú. Afkoma fyrirtækja hefur almennt stórbatnað. Atvinnuleysið er horfið og tekist hefur að snúa við skuldasöfnun ríkisins, sem var viðvarandi til margra ára, þannig að skuldir ríkissjóðs fara nú hraðminnkandi. Jafnframt hafa aðilar á vinnumarkaði í góðu samstarfi við ríkisvaldið gert kjarasamninga til þriggja til fjögurra ára sem skapa munu meiri stöðugleika á vinnumarkaði og stuðla að traustara umhverfi fyrir atvinnulíf og launafólk. Nú er mikilvægast af öllu að treysta þann árangur í sessi.

[20:15]

Aukin verðbólga og verri viðskiptajöfnuður hafa gjarnan verið fylgifiskar uppsveiflu í efnahagslífinu, ekki bara hér á Íslandi heldur í mörgum öðrum löndum. En samkvæmt nýjustu spá Seðlabanka sem hér var vitnað til áðan er verðbólga nú á niðurleið aftur. Gagnstætt því sem ýmsir hafa haldið fram þá hefur viðskiptahallinn ekki aukist að neinu marki frá árinu 1998, mælt sem hlutfall af landsframleiðslu, þrátt fyrir verulega kaupmáttaraukningu á þessu tímabili. Sú minni háttar aukning sem verður á þessu ári stafar nær alfarið af sérstökum fjárfestingarvörum, einkum skipainnflutningi og auknum vaxtagreiðslum, en ekki aukinni neyslu. Vísbendingar um innflutning á fyrstu fjórum mánuðum ársins benda til þess að farið sé að hægja á og bílainnflutningur hefur beinlínis dregist saman.

Rétt er að hafa í huga í þessu sambandi að fjárfesting íslenskra aðila erlendis hefur stóraukist á undanförnum árum. Árið 1994 nam hún rúmlega þremur milljörðum kr. en í lok síðasta árs var sambærilega tala orðin 103 milljarðar kr. Sá ábati sem þessi fjárfesting skilar þjóðarbúinu kemur hins vegar aðeins að litlu leyti fram í uppgjöri viðskiptajöfnuðar samkvæmt gildandi stöðlum. Hér er hins vegar um að ræða fjárfestingu til framtíðar sem skila mun verulegum ávinningi fyrir þjóðarbúið þegar fram í sækir, eins og raunar segir sig sjálft.

Ýmsir aðilar hér á markaðnum telja almennar horfur í íslensku efnahagslífi mjög góðar og það megi m.a. rekja til aðgerða stjórnvalda á undanförnum árum til að auka frelsi í viðskiptum og treysta hið almenna efnahagsumhverfi. Það er auðvitað mikilvægt í þessu máli. Hins vegar er áfram nauðsynlegt að fylgja aðhaldsamri stefnu í ríkisfjármálum og peningamálum, eins og ríkisstjórnin hefur gert til þessa, og stefna að mjög verulegum afgangi á fjárlögum næstu ára.

Efnahagsumræðan að undanförnu hefur beinst að því hvort aðhald í ríkisfjármálum sé nægilegt eða ekki. Þessi umræða missir hins vegar marks að því leyti að ríkisfjármálin eru ekki vandamál hér á Íslandi. Staðreyndin er sú að óvíða er meira aðhald í þeim efnum en hér enda metafgangur á ríkissjóði og það jafnvel þótt áhrif hagsveiflunnar séu undanskilin. Mikilvægt er að hafa þetta í huga því að sá misskilningur er útbreiddur að afganginn á ríkissjóði megi alfarið rekja til hagsveiflunnar. Það er einfaldlega rangt.

Vandinn er hins vegar sá að hér á landi er nú mjög greiður aðgangur að lánsfjármagni, jafnt innlendu sem erlendu. Þetta er m.a. fylgifiskur þess að fjármagnsflæði hefur verið gefið frjálst milli landa. Þar með eru fjármálastofnanir hér á landi komnar í virka samkeppni við erlenda aðila. Útlánaaukning bankanna hefur af þessum sökum verið óhófleg og við því þarf að bregðast með þeim ráðum sem tiltæk eru.

Herra forseti. Stjórnmál snúast um margt fleira en efnahags- og fjármál, sem betur fer. Þau snúast um fólk og leiðir til að auðvelda fólki leitina að lífshamingjunni. Í því efni er þó hver og einn á endanum sinnar eigin gæfu smiður. Ríkisvaldið getur aldrei leyst menn undan ábyrgðinni á sjálfum sér eða útrýmt lífsbaráttunni þó vinstri flokkarnir hafi í gegnum árin verið duglegir að ota þeim boðskap að fólki. Hið opinbera getur hins vegar komið til móts við þarfir almennings með ýmsu móti og gert fólki auðveldara fyrir. Gott dæmi um þetta er stefna núverandi ríkisstjórnar í fjölskyldumálum sem kom áþreifanlega í ljós í frv. til fæðingar- og foreldraorlofs sem þingið hefur afgreitt frá sér sem lög. Í því máli er hugsað til framtíðar og búið í haginn fyrir unga fólkið og komandi kynslóðir. Sama er að segja um stefnuna í menntamálum, rannsóknum og vísindum.

Á því leikur enginn vafi, herra forseti, að eitt mikilvægasta verkefni Íslendinga um þessar mundir er að tryggja samkeppnishæfni íslensks samfélags. Alþjóðavæðing á öllum sviðum hefur gert það að verkum að við erum í samkeppni við heiminn allan, í viðskiptum með vöru og þjónustu, um fjármagn og fjárfestingar og ekki síst um unga fólkið sem nú hefur raunverulegt val um að setjast að hvar í veröldinni sem það kýs. Okkar starf hlýtur þess vegna að miða að því að gera Ísland aðlaðandi fyrir fyrirtæki, einstaklinga og fjölskyldur, gera það að stað þar sem fólk vill búa og sér sér hag í að búa.

Meðal annars í þessum tilgangi voru í gær lögfest ákvæði í skattalögum sem eiga að gera það meira aðlaðandi að starfa hér á landi, ekki síst fyrir fólk sem í raun starfar á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Það er kannski óþarfi að taka það fram en stjórnarandstaðan, vinstri grænir og Samfylkingin, greiddu atkvæði gegn þessum ákvæðum. Þær breytingar á rétti manna sem gerðar hafa verið að því er varðar aukningu á lífeyrissparnaði eru grein af sama meiði. Þær eru markviss tilraun til að fá fólk til að búa sjálft í haginn fyrir sig, draga með því úr framtíðarútgjöldum ríkissjóðs og efla í leiðinni þjóðhagslegan sparnað til að minnka viðskiptahallann.

Góðir tilheyrendur. Liðinn vetur var mörgum landsmönnum erfiður. Við göngum nú út í vorið og horfum vonandi öll fram á gott og gjöfult sumar. Alþingi mun í júlí koma saman á Þingvöllum til að minnast kristnitökunnar fyrir þúsund árum. Þau hátíðahöld fylla okkur vonandi þakklæti fyrir að hafa reist þjóðskipulag okkar alla tíð síðan á grundvelli kristinnar trúar. Þau fylla okkar vonandi bjartsýni og gleði yfir að fá að vera sjálfstæð þjóð í eigin landi. Við höfum náð ótrúlega langt á þeirri öld sem senn er að baki. Við höfum alla möguleika á að halda áfram á óslitinni framfarabraut næstu árin. Ríkisstjórnin mun hafa forustu um það. --- Góðar stundir.