Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 20:21:53 (7473)

2000-05-10 20:21:53# 125. lþ. 115.1 fundur 511#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumnræður)#, SJS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 125. lþ.

[20:21]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Það er vor í lofti, borið hingað til okkar af suðlægum og hlýjum vindum undanfarinna daga. Grösin grænka og það lifnar yfir mannskapnum. Yfir þessu getum við Íslendingar glaðst og auðvitað mörgu fleiru. Ytri skilyrði hafa verið hagstæð þjóðarbúskap okkar mörg undanfarin ár og þess hefur séð stað í umtalsverðum hagvexti og aukinni verðmætasköpun. En minnumst þess þá einnig að þar á undan kom langt samdráttarskeið sem lék margar fjölskyldur grátt og margir færðu fórnir til að leggja grunn að þeim stöðugleika og því batnandi efnahagsástandi sem menn hafa síðan notið.

Því miður er borðleggjandi að þjóðartekjunum á Íslandi er alvarlega og í vaxandi mæli misskipt. Við horfum upp á annars vegar vaxandi ríkidæmi og mikla velmegun ákveðinna hópa en hins vegar aukna fátækt. Góðæri Davíðs Oddssonar, sem forsrh. hefur verið einkar lagið að eigna sjálfum sér, er því aðeins góðæri sumra en ekki allra. Ég gagnrýni harðlega framgöngu ríkisstjórnarinnar, t.d. í málefnum öryrkja og aldraðra. Útspil ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga felur í sér að enn einu sinni eiga þessir hópar að sitja eftir, þvert á gefin loforð fyrir síðustu kosningar.

Herra forseti. Margt bendir því miður til að efnahagsstjórnin sé að fara úr böndunum. Ég hef að undanförnu margbent á að þróun raungengis íslensku krónunnar er á háskalegri braut og óhuggulega margt minnir á ástandið eins og það var á fastgengisárunum 1987 og 1988 sem setti atvinnulífið og efnahagslífið í kaldakol og leiddi til þess að ríkisstjórn Sjálfstfl., Alþfl. og Framsfl. hrökklaðist frá völdum.

Margir hafa einnig að undanförnu bent á vaxandi og gífurlegan viðskiptahalla og aukna verðbólgu. Sjálf hellir ríkisstjórnin olíu á eldinn með ýmsum óviturlegum ráðstöfunum, lækkar jafnvel mitt í þenslunni og viðskiptahallanum innflutningsverð lúxusvarnings og þar fram eftir götunum. Davíð Oddsson og ríkisstjórn hans hlýtur nú, eins og hún hefur að undanförnu eignað sér góðærið, að axla ábyrgð á því með nákvæmlega sama hætti ef efnahagsstjórnin fer í vaskinn.

Herra forseti. Ég minntist áðan á vaxandi misskiptingu í þjóðfélaginu. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hafnar breytingum á samfélaginu sem leiða til aukins misréttis þegnanna og aukinnar misskiptingar teknanna. Við erum ófeimin við að beita okkur gegn breytingum í þá átt, breytingum af því tagi sem Ögmundur Jónasson þingmaður tók upp í utandagskrárumræðum í gær. Þar á í hlut stórfelld einkavæðing í heilbrigðiskerfinu. Einkaaðilum á að færa samning til 25 ára upp á tæpa tólf milljarða til að reisa og reka hjúkrunarheimili í gróðaskyni. Gróðafyrirtækið heitir því smekklega nafni Öldungur hf.

Framsóknarmenn hafa vælt dálítið undan því á köflum, herra forseti, að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði værum upptekin af því að skamma þá umfram aðra flokka. Það er misskilningur. Fyrir okkur eru allir jafnir hvað það varðar að bera ábyrgð á verkum sínum. En það skulu framsóknarmenn vita að svo lengi sem þeir standa fyrir einkavæðingu í velferðarþjónustunni þá eiga þeir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð að andstæðingi. Það er, herra forseti, ömurlegt að sjá Framsfl. brjótast um í aktygjunum, dragandi nýfrjálshyggjuvagninn fyrir íhaldið sem getur sjálft sett upp hanska og þarf ekki að óhreinka á sér hendurnar. Ja, herra forseti, þau örlög sem menn geta valið sér í pólitík.

Herra forseti. Við höfum undanfarna mánuði lagt mikla áherslu á tvö meginmálefni bæði hér í tillöguflutningi á Alþingi og á fundum um allt land. Þau eru mótun sjálfbærrar grænnar atvinnustefnu og nýtt endurreisnar- og umbótaskeið í velferðarmálum. Hvort tveggja talar fyrir sig sjálft.

Eitt alvarlegasta samfélagsmein okkar, herra forseti, er sá geigvænlegi byggðavandi sem við stöndum frammi fyrir. Því miður hafa þær ríkisstjórnir sem setið hafa að völdum litlum árangri náð í þeim efnum. Fyrir skömmu lét Davíð Oddsson af embætti sem byggðamálaráðherra eftir hátt í níu ár og hlýtur ferill hans í þeim efnum að teljast harla snautlegur.

Á sviði utanríkismála, herra forseti, ber hæst þá skýrslu sem hér var nýlega rædd frá hæstv. utanrrh. Skýrslan er að mörgu leyti fagnaðarefni. Um það erum við, ég og formaður Samfylkingarinnar, sammála. Skýrslan skýrir málið og hrekur þann málflutning að við þurfum að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að vita hvar við stöndum. Hún sýnir tvímælalaust að aðild að Evrópusambandinu er ekki fýsilegur kostur fyrir Ísland. Skýrsluhöfundar treysta sér til þess að segja fyrir um það í öllum aðalatriðum hvað gerast mundi samfara því að Ísland gerðist aðili. Með öðrum orðum, herra forseti: það liggur í raun allt fyrir sem liggja þarf fyrir til þess að taka afstöðu í málinu. Þess vegna er það ámælisvert ef menn skortir pólitískan kjark og hreinskilni til að segja það sem þeir meina í þessum efnum. Menn eiga ekki að dulbúa málflutning sinn með því að segja að nauðsynlegt sé að sækja um til að vita hvað okkur bjóðist, við þurfum að skilgreina okkar samningsmarkmið, skoða málin o.s.frv.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur mótað skýra stefnu í þessum efnum. Við viljum gæta hagsmuna okkar með samningum við Evrópusambandið en án aðildar. Við viljum nota tækifærið og grípa fegins hendi vaxandi áhuga Bandaríkjamanna á að draga hér saman í herstöðinni og semja við þá um lokun hennar. Við erum andvíg aðild að hernaðarbandalagi sem byggir stefnu sína á hótun um notkun kjarnorkuvopna og hefur nýlega farið í ólögmætt árásarstríð á hendur sjálfstæðri þjóð.

Herra forseti. Landslag íslenskra stjórnmála er að taka breytingum. Og þar á ofan situr í landinu ríkisstjórn sem virðist á góðri leið með að missa tökin á verkefni sínu, ríkisstjórn sem lagði af stað dauðuppgefin eftir alþingiskosningar síðastliðið vor og síðan hefur dregið af henni.

Samfylkingin hefur nú myndbreytt sér sjálfri í formlegan stjórnmálaflokk. Það er fagnaðarefni, sérstaklega ef það verður til þess að skýra línur í íslenskum stjórnmálum. Sömuleiðis samfylkingarmenn eru haldnir af því sumir að telja að við höfum valið þá að höfuðandstæðingi í íslenskum stjórnmálum. Það er einnig mikill misskilningur, herra forseti, og ágætt að nota hér tækifærið til að leiðrétta það, eins og gagnvart Framsfl. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð stundar það ekki að útnefna sérstaklega andstæðinga sína í stjórnmálum. Það ræðst af málefnum og framgöngu hvers og eins hverju sinni. Við gagnrýnum hiklaust og ófeimin það sem við teljum gagnrýnivert og styðjum á hinn bóginn það sem við teljum til heilla horfa.

Á hinn hefðbundna mælikvarða, frá vinstri til hægri, þá eru að sjálfsögðu Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og Sjálfstæðisflokkurinn fulltrúar höfuðandstæðna í íslenskri pólitík. Þess hefur svo sannarlega séð stað í okkar málflutningi.

Við félaga okkar í Samfylkingunni vil ég svo segja þetta: Til hamingju með að vera orðin til sem stjórnmálaflokkur. Það er gott fyrir ykkur en það er líka gott fyrir okkur. Þá getum við farið að eigast við í íslenskum stjórnmálum sem vonandi fyrst og fremst samherjar en eftir atvikum einnig sem keppinautar. Samfylkingin sem flokkur er hvorki verri né betri en aðrir flokkar og þaðan af síður meiri eða merkilegri. Nú þarf Samfylkingin rétt eins og aðrir flokkar að sanna sig, sýna á spilin og fyrir hvaða málefni hún stendur. Þar hefur enginn frátekið forskot. Það er misskilningur að hægt sé að hringja og taka frá miða sem á stendur 2. sæti, 40%, eða stóll forsætisráðherra. Þannig gengur það ekki fyrir sig.

[20:30]

Í stjórnmálunum er ekkert óumbreytanlegt. Það er fjarri mér að skrifa upp á það að Sjálfstæðisflokkurinn verði endilega stærsti flokkur landsins eftir tíu ár. Margt bendir nú til þess, sem betur fer, að lukka ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar fari minnkandi og má vel vera að stuðningurinn breytist í takt við hárið á höfði forsætisráðherra sem hefur farið minnkandi með hverri klippingu.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill veita nýjum straumum inn í íslensk stjórnmál sem var löngu orðið tímabært. Við höfum gert umhverfismál að meginundirstöðu okkar málafylgju og við erum í hópi þeirra stjórnmálaafla heimsins sem hafnar nýfrjálshyggjunni og segir henni stríð á hendur.

Herra forseti. Við Íslendingar erum gæfusöm þjóð. Við eigum stórt og fallegt land, ríkt af auðlindum og svo fremi sem við gætum þess vel mun okkur vel vegna.

Nú líður að lokum þessa þinghalds, herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð þakkar landsmönnum fyrir samfylgdina á þessum vetri og því ári sem liðið er frá kosningum. Sá stuðningur sem við höfum fengið og sá hljómgrunnur sem málstaður okkar og málflutningur hefur fengið er okkur mikils virði og hvatning til verkefnanna sem bíða fram undan. Ég óska landsmönnum öllum ánægjulegs sumars og farsældar í lífi og starfi.