Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 20:52:57 (7476)

2000-05-10 20:52:57# 125. lþ. 115.1 fundur 511#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumnræður)#, BH
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 125. lþ.

[20:52]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það löggjafarþing sem nú er að ljúka hefur að miklu leyti einkennst af umræðu um leikreglur í samfélaginu. Á haustdögum var deilt um leikreglur í tengslum við umhverfismat á stórframkvæmdum og leiðarvísar í viðskiptum á fjármálamarkaði hafa verið í sviðsljósinu hér á Alþingi sem og annars staðar í samfélaginu. Enn má nefna átökin um einkavæðingu Landssímans þar sem rætt er um hvernig samkeppni skuli tryggð á fjarskiptamarkaði og almennt í viðskiptalífinu.

Þá hefur þjóðfélagsumræða síðustu ára ekki hvað síst snúist um leikreglur sem gilda eða gilda ekki við úthlutun úr auðlindum hafsins og um það hvort rétt sé að úthluta einkarétti af starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði og eftir hvaða reglum slík starfsemi eigi að fara. Þegar við ræðum leikreglur, þá er skammt undan spurningin um það hvert hlutverk stjórnmálamanna skuli vera í samfélaginu. Það tekur að sjálfsögðu breytingum í tímans rás ef frá er talið hið eiginlega lagasetningarhlutverk.

Í dag er það verkefni okkar að móta almennar leikreglur þannig að einstaklingurinn hafi sem mest frelsi til orðs og æðis en um leið eigum við að standa vörð um félagslega velferð og jafnræði borgaranna og heilbrigð starfsskilyrði atvinnuvega. Tími hinna sértæku lausna er hins vegar liðinn. Það er ekki lengur hlutverk stjórnmálamanna að ,,kippa málum í liðinn`` heima í kjördæmi eins og stjórnmálamenn síðustu aldar gerðu gjarnan og fengu þingsæti sitt að launum. Fjáraustur úr almannasjóðum til gjaldþrota fyrirtækja á að heyra sögunni til. Öld fyrirgreiðslunnar í stjórnmálum er líka liðin. Enn síður er það hlutverk stjórnmálaflokka að greiða fyrir flokksmönnum sínum á annan hátt eins og með óverðskulduðum stöðuveitingum en sú arfleifð hefur löngum loðað við stjórnmál hér á landi.

Stjórnmálamenn eiga ekki að þjóna sérhagsmunum á þann hátt. Þeir eiga þvert á móti að standa vörð um almannahagsmuni og setja almenna vegvísa sem allir þurfa og geta farið eftir. Stjórnvöld eiga að fara skipulega og með festu eftir lögum og reglum og gera það á heiðarlegan og gagnsæjan hátt með tilheyrandi ábyrgð ef út af er brugðið. Valdið er ekki þeirra að fara með af eigin hentisemi heldur eftir fyrir fram ákveðnum og skýrum leikreglum og valdinu fylgir líka mikil ábyrgð sem stjórnmálamenn þurfa að vera tilbúnir að axla.

Góðir áheyrendur. Stjórnfesta hefur það verið nefnt sem hér er vakin athygli á og ég vil leyfa mér að fullyrða að mikið skorti á að hún sé til staðar í samskiptum stjórnvalda og borgaranna hér á landi. Það eru til á alþjóðavettvangi fyrirmyndir um hvernig slíkar hugmyndir séu framkvæmdar og þær eru áhugaverðar. Alþjóðlegar stofnanir er starfa að þróunarmálum hafa sett ákveðin skilyrði fyrir þróunaraðstoð til ríkja sem á henni þurfa að halda en nauðsynlegt er að fylgja tilteknum lágmarkskröfum um stjórnfestu eigi aðstoð að fást. Þótt stjórnfestuhugmyndir eigi rætur að rekja í þróunaraðstoð hefur það sýnt sig að þær eru algildar og mönnum verður það æ ljósara að þær eiga ekki aðeins erindi við þróunarlönd. Slíkar hugmyndir hafa verið mikið í pólitískri umræðu í Evrópu, fyrst í suðurhluta álfunnar en teygja anga sína stöðugt norðar. Þær hafa komið upp í umræðum um fjárreiður stjórnmálaflokka og um leynileg fjárframlög til þeirra og er þá skemmst að minnast atburðanna í Þýskalandi og dapurlegra eftirmæla Helmuts Kohls í þeim efnum. Stjórnfesta vinnur gegn óreiðu og spillingu sé hún ræktuð af alvöru, stuðlar að félagslegum framförum samhliða hagvexti og hún hefur ávallt mannréttindi og virðingu fyrir lögum í fyrirrúmi. Stjórnfesta er í raun krafa um opinskáa og heiðarlega stjórnarháttu og heilindi og heiðarleika í samskiptum ríkisvalds og almennings. Stjórnfesta felur í sér ábyrgðarskyldu opinberra aðila, kröfu um reikningsskil af þeirra hálfu til að stemma stigu við gerræðislegum ákvörðunum og spillingu. Hún snýr þó ekki aðeins að stjórnmálamönnum heldur líka að stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum sem eru í þeirri aðstöðu að geta tekið ákvarðanir í skjóli valda sem geta haft mikil áhrif á niðurstöðu mála fyrir borgarana.

Samhliða kröfunni um ábyrgðarskyldu opinberra aðila hefur þannig vaxið krafan um að fjármálastofnanir setji sér siðareglur sem komi í veg fyrir misnotkun á aðstöðu. Við Íslendingar þekkjum nýleg dæmi um vafasöm innherjaviðskipti og mikilvægi þess að slíkar reglur séu settar hér á landi.

Góðir landsmenn. Leynileg fjárframlög til stjórnmálaflokka og skortur á skýrum leikreglum um slík framlög stríðir gegn stjórnfestuhugmyndum. Þeir stjórnmálaflokkar sem eru ekki tilbúnir til að gangast fyrr því að slíkar reglur séu settar hljóta að hafa eitthvað að fela og það gengur ekki öllu lengur að slá ryki í augu fólks með því að hér á landi þurfi engar slíkar reglur. Því hefur jafnvel verið haldið fram að það sé verra að hafa svona reglur frekar en engar, það sanni dæmi frá Þýskalandi þar sem strangar reglur voru í gildi en þverbrotnar síðan af kristilegum demókrötum. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur en með sömu rökum mætti halda því fram að umferðarreglur hvetji til umferðarslysa sem er út í hött.

Það þurfa hins vegar allir stjórnmálaflokkar í landinu að lúta sömu lögmálum í þessum efnum og breytir það litlu í heildarsamhengi þótt einn eða tveir flokkar opni bókhald sitt ef aðrir komast upp með að halda fjárframlögum sínum leyndum. Slíkt ástand býður upp á aðstöðumun og spillingu og er einungis til þess fallið að skapa þeim forréttindi sem opna ekki bókhald sitt.

Góðir áheyrendur. Stjórnmálaflokkar eru tæki sem við notum til að þjóna lýðræðinu. Þeir eru ekki heilagir, hvorki skipulagslega né hugmyndafræðilega. Þvert á móti þurfa þeir að vera í stöðugri mótun og þróun. Við eigum að vera tilbúin til að endurmeta hugmyndafræðilegar áherslur okkar, pólitíkina sjálfa en við þurfum líka að tileinka okkur ný vinnubrögð. Stjórnmálaflokkar þurfa að mæta nútímanum á þann hátt sem hann gerir kröfu til þar sem söluvaran er sveigjanleiki, þekking og hraði. Þessi hugtök eru ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar stjórnmálaflokkar eru nefndir á nafn en þeir lúta sömu lögmálum og aðrir í nútímaþjóðfélagi. Þeir verða að svara kalli tímans. Ella verða þeir steinrunnir og engum til gagns, allra síst lýðræðinu sem þeim er þó ætlað að þjóna. Góðar stundir.