Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 20:59:07 (7477)

2000-05-10 20:59:07# 125. lþ. 115.1 fundur 511#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumnræður)#, ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 125. lþ.

[20:59]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Nú er einungis eitt ár liðið frá því að kosið var til Alþingis og ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. fékk framlengt umboð til frekari stjórnarsetu eins og allir vita. Á þeim skamma tíma hafa stjórnarflokkarnir tekið til óspilltra málanna við að framfylgja þeim mikilvægu markmiðum sem koma fram í stjórnarsáttmálanum. Með því að nýta sér frumkvæði, framtakssemi og drifkraft einstaklinganna fæst fram sú nauðsynlega gerjun til að stöðnun víki fyrir víðsýni og framförum þjóðfélaginu öllu til hagsbóta. Þessum öflum þarf að hlúa að um leið og þau eru beisluð og virkjuð. Með einbeittum ásetningi undir forustu Davíðs Oddssonar hefur á undanförnum árum tekist að leysa þennan kraft úr læðingi og má sjá þess augljós merki á öllum sviðum samfélagsins.

Aukinn kaupmáttur launa og stöðugleiki í efnahagslífinu er grundvöllur þess að einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki geti skipulagt framtíð sína. En þrátt fyrir markvissar aðferðir og góðan árangur í efnahagsmálum eru ákeðnar blikur á lofti. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur hins vegar sýnt að hún tekur af festu og forsjálni á efnahagsmálum. Við í stjórnarmeirihlutanum höfum ekki vílað fyrir okkur að takast á við erfið verkefni og leysa úr þeim. Engum er betur treystandi til þess og er sagan okkar besti meðmælandi.

[21:00]

Nú hafa kjarasamningar tekist og er ekki að ástæðulausu að samið er til langs tíma. En af hverju, spyrja menn. Jú, aðilar vinnumarkaðarins hafa trú og traust á að núverandi stjórn peningamála haldist og að þau verkefni sem við blasa í efnahagsmálum verði leyst jafnfarsællega hér eftir sem hingað til. Þetta snýst einmitt um traust. Slíkt traust ávinna menn sér ekki með stofnun flokka, nafnabreytingum eða stóryrtum yfirlýsingum, heldur eru menn einfaldlega metnir af verkum sínum.

Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinar hefur markvisst verið unnið að réttindamálum einstaklinga og fjölskylda á síðustu missirum. Án þess að draga úr mikilvægi annarra mála vil ég þó minna á lög um fæðingar- og foreldraorlof sem lögð voru fram af ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og samþykkt á Alþingi nú í vikunni. Með þeim lögum er eitt stærsta réttindamál sem Alþingi hefur lengi fengist við orðið að veruleika. Jafn réttur karla og kvenna til töku fæðingarorlofs hefur verið tryggður, báðir foreldrar eiga rétt á að vera heima hjá barni fyrstu mánuði eftir fæðingu þess. Þá skapa lögin forsendur til að unnt verði að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaðnum og jafna út kynbundinn launamun. Fæðingarorlof foreldra verður níu mánuðir í stað sex áður og sveigjanleiki við töku fæðingarorlofs er innleiddur og má dreifa fæðingarorlofinu á 18 mánuði.

Þetta er í eðlilegu samhengi við það nútímaþjóðfélag sem við búum nú í. Lög um fæðingarorlof eru því ekki einungis liður í að styrkja fjölskylduna og jafna réttinn milli kynjanna, heldur einnig mikilvægur þáttur í að koma til móts við háværar kröfur um að hægt verði að samræma betur fjölskyldu- og atvinnulíf.

Herra forseti. Það er mikill og góður kostur í fari okkar Íslendinga að vilja ætíð vera í forustu þeirra sem bestir eru. Þá er sama hvaða svið er nefnt. Til að ná þessu markmiði verðum við að leggja rækt við menntun okkar og menningu og efla samskipti okkar við aðrar þjóðir. Við höfum öll heyrt á tyllidögum að menntun er forsenda framfara og frekari hagsældar í þjóðfélaginu. Þetta er rétt og einmitt þess vegna hefur verið lögð áhersla á að bæta og efla menntakerfið. Með skýrri stefnumörkun og markvissum aðgerðum hefur til að mynda skólalöggjöfin um öll skólastig verið endurskoðuð af hæstv. menntmrh.

Lánasjóður íslenskra námsmanna gegnir stóru hlutverki fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í menntamálum. Hann er öflugt tæki sem tryggir jafnrétti til náms, óháð efnahag, og opnar mönnum ný og spennandi atvinnutækifæri að námi loknu. Í síðustu viku náðist full samstaða í stjórn lánasjóðsins, sem er skipuð bæði fulltrúum ríkisstjórnar og námsmannasamtaka, um breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins. Almenn ánægja er með niðurstöðuna sem nær til ýmissa atriða, svo sem hækkunar á námslánum og minni tekjutengingar.

Á árinu 1996 var mótuð heildarstefna í áfengis-, fíkniefna- og tóbaksvörnum sem lögð hefur verið til grundvallar margvíslegum ákvörðunum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar í þessum málum á undanförnum árum. Ég vil geta þess að hæstv. dómsmrh. hefur leitað nýrra leiða í baráttu gegn fíkinefnavandanum, en núverandi dómsmrh. hefur lagt sérstaka áherslu á þennan málaflokk í starfi sínu.

Aukið fjármagn hefur verið veitt til lögreglumála með áherslu á að bæta tækjabúnað og fjölga lögreglumönnum í starfi, m.a. með auknum fjárveitingum til Lögregluskólans. Nýjar starfsaðferðir hafa verið innleiddar til að takast á við fíkniefnamál og kapp hefur verið lagt á að auka verulega samstarf lögreglu og tollgæslu.

Í baráttu okkar við fíkniefnasala, manna sem hagnast á veikleika og eymd annarra, megum við aldrei gefa eftir. Því er mikilvægt að vel sé búið að forvarna- og lögreglumálum.

Í dag afgreiddi samgn. þingsins metnaðarfulla vegáætlun hæstv. samgrh., þar sem tryggðar eru umfangsmiklar samgönguúrbætur sem ná til landsins alls. Þar er af myndugleika horft til framtíðar og horfst í augu við þann umferðarvanda sem er misjafn eftir landsvæðum eðli málsins samkvæmt.

Nútímatækni og óþrjótandi möguleikar hennar geta skapað hættu fyrir heimilis- og fjölskyldulíf, hættu á að friðhelgi manna til einkalífs verði rofin. Þessi réttindi ber löggjafanum að vernda með lagasetningu samkvæmt stjórnarskránni. Það var gert hér á hinu háa Alþingi í dag þegar þingið samþykkti einróma lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Herra forseti. Góðir landsmenn. Þegar litið er yfir farinn veg er ljóst að gríðarlegar framfarir hafa orðið á liðnum árum á öllum sviðum þjóðlífsins. Þær framfarir hafa einmitt átt sér stað undir forustu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Á því verður engin breyting.