Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 21:30:02 (7482)

2000-05-10 21:30:02# 125. lþ. 115.1 fundur 511#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumnræður)#, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 125. lþ.

[21:30]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það er vor á hátíðarári og fram undan er hátíðarsumar. Aldrei hefur þjóðin haldið hátíð við eins góðar aðstæður í efnalegu tilliti. Hún hefur búið við góðan og batnandi hag undanfarin ár og hefur í það heila tekið aldrei haft það betra. Hátíðahöldin á komandi sumri eru undir merkjum kristinnar trúar. Öllum er ljóst að það endurspeglast í löggjöf á Alþingi að Íslendingar leggja áherslu á gildi kristinnar trúar og þá siðmenningu sem hún mótar. Þau gildi sem kristnin stendur fyrir eru varanleg og hafa dugað þjóðinni í 1000 ár. Þau eru einnig besta haldreipið við upphaf nýrrar aldar og árþúsunds.

Herra forseti. Stjórnmál eru ekki eingöngu dægurþras heldur barátta fyrir hugsjónum og lífsgildum. Sigurinn í stjórnmálum er ekki endilega sá sem mældur er upp úr kjörkössum hverju sinni heldur felst hann í því sem ávinnst á hverju tímabili, að stefnumið og hugsjónir nái fram að ganga.

Viss hugarfarsbreyting hefur átt sér stað í stjórnmálaviðhorfum landsmanna á þeim tæpa áratug sem Sjálfstfl. hefur farið fyrir ríkisstjórn. Almennar leikreglur eru settar, ríkið hættir að blanda sér jafnmikið í mál sem betur eru komin í höndum einstaklinga og fólk hættir að stóla á að ríkið sé alls staðar eins og forsjárfullur stóri bróðir, ætlast ekki til þess og vill það ekki. Hver einstaklingur er frjáls og ábyrgur fyrir lífi sínu. Fyrirgreiðslupólitíkin er á undanhaldi. Jafn réttur skal vera í öndvegi en ekki það að maður þekki mann. Og Sverrir er ekkert jafnari en aðrir. Þannig hefur unnist sigur í hugmyndabaráttunni, stétt er með stétt og öll erum við á leiðinni fram veginn.

Í stjórnmálum hefur það verið styrkur Sjálfstfl. að vera hinn breiði flokkur með skírskotun til allra hópa samfélagsins. Hann hefur aldrei þurft að biðjast afsökunar á stefnu sinni og hugsjónum og best hefur þjóðinni gengið leiðin til framfara með hann við stjórnvölinn.

Í utanríkismálum eigum við góð samskipti við allar þjóðir. Við erum frjáls þjóð sem stofnar ekki til annarra skuldbindinga en þeirra sem þjóðin vill og hentar þörfum hennar. Stuðningur okkar við þróunarstarf í fátækum ríkjum er vaxandi og skilningur á því blessunarlega að aukast.

Í byggðamálum eru stigin skref til að jafna aðstöðu landsmanna. Þar hefur verið á brattann að sækja og enn eigum við brekku eftir. Hefur þó margt áunnist samkvæmt stefnumótandi ályktun Alþingis í byggðamálum frá síðasta vetri.

Stóra mál landbn. á liðnum vetri voru ný lög um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar sem samþykkt voru fyrr á þessum degi. Nú hafa bændur rammann og leikreglurnar til allmargra ára og hyggja að stöðu sinni samkvæmt því. Um landbúnaðinn ríkir meiri sátt en oftast áður. Flestum er að verða ljóst að við styðjum okkar landbúnað líkt og aðrar þjóðir og höfum mikinn metnað til að framleiða hollar vörur og tryggja matvælaöryggi okkar eftir föngum.

Fjölskyldugildin eru sjálfstæðismönnum mikilvæg. Þá mikilvægu stofnun, fjölskylduna, þarf að styrkja og eyða mismunun þar sem hjónafólk nýtur ekki jafnræðis á við einstaklinga utan hjónabands. Áður fyrr tíðkuðust sparimerkjagiftingar --- nú málamyndaskilnaðir. Löggjöfin má ekki ýta undir að talið sé úrræði í kröppum kjörum og aðstæðum að skilja.

Öryggisnet samfélagsins er í sífelldri skoðun. Þörf er orðin á að endurskoða og móta heildarlöggjöf um almannatryggingakerfið. Þar þurfa stefnumið Sjálfstfl. að vera í fyrirrúmi ef vel á til að takast.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a. að markmið ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu sé, með leyfi forseta:

,,Að endurskoða almannatryggingakerfið svo og samspil þess við skattkerfið og lífeyrissjóðakerfið með það að markmiði að umfang og kostnaður við stjórnsýslu verði sem minnstur og framkvæmd verði einfölduð og samræmd til hagsbóta fyrir bótaþega. Áhersla verði lögð á að tryggja sérstaklega hag þeirra öryrkja, fatlaðra og aldraðra sem lægstar tekjur hafa.``

Herra forseti. Að þessu er unnið og vel til þeirrar vinnu vandað en nefnd er einmitt að störfum að málinu. Þess er vissulega beðið með eftirvæntingu að hún skili af sér.

Góðir áheyrendur. Ég óska ykkur öllum bjartrar framtíðar, góðs sumars og guðs blessunar.