Frumvarp til lokafjárlaga

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 10:31:10 (7486)

2000-05-11 10:31:10# 125. lþ. 116.97 fundur 530#B frumvarp til lokafjárlaga# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[10:31]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Eins og þingmenn hafa kannski tekið eftir er búið að útbýta á borð þeirra endurprentuðu frv. til lokafjárlaga til staðfestingar á ríkisreikningi 1998. Hér er um að ræða þskj. sem legið hefur fyrir frá því í desember en ég útskýrði í haust að á framlagningu þess urðu óhjákvæmilegar tafir vegna þess að hér er í fyrsta skipti verið að framfylgja nýjum ákvæðum í lögum um fjárreiður ríkisins.

Enn frekari töf hefur orðið á því að ganga frá þessu máli í fullnægjandi búning þannig að þingið gæti tekið afstöðu til þess. Nú liggur þskj. hins vegar fyrir eins og það á að vera en vegna þess hversu áliðið er þings mun ég ekki óska eftir því að þingið afgreiði þetta mál á þessu vori. Ég mun hins vegar óska eftir því að það verði afgreitt strax í haust en þá vonumst við líka til að frv. til lokafjárlaga fyrir árið 1999 verði tilbúið og þannig verði það framvegis, að hægt verði að afgreiða lokafjárlög í tengslum við afgreiðslu ríkisreikningsins sjálfs og við þurfum ekki aftur að upplifa þær tafir á því bókhaldslega en mikilvæga atriði sem þinginu ber að staðfesta.

Þetta vildi ég að kæmi fram, herra forseti, vegna þess að ég vakti sjálfur máls á þessu í haust. Þetta er staðan. Það er leiðinlegt að þetta skuli hafa dregist en skýringarnar eru þessar og ég óska eftir góðri samvinnu um þetta mál á hausti komanda.