Afgreiðsla vegáætlunar

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 10:35:12 (7488)

2000-05-11 10:35:12# 125. lþ. 116.92 fundur 527#B afgreiðsla vegáætlunar# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[10:35]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að taka undir þá gagnrýni að auðvitað er alveg óviðunandi fyrir okkur að fá starfsáætlun þingsins --- allir eru sammála um að þinginu eigi að ljúka á ákveðnum degi og ákveðnum tíma og leggja sitt af mörkum til að svo geti orðið --- en í stað þess að reynt sé að hafa gott samstarf við þingmenn bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, þá er það þannig að stjórnarliðið hefur þá tilfinningu að hér ráði það ríkjum fullkomlega og gerir það sem því hentar á hvaða tíma sem er. Þetta er að verða óþolandi fyrir okkur sem hér erum og viljum hafa góða umræðu og góð vinnubrögð.

Auðvitað höfðum við heyrt hvíslað um að ef til vill kæmi aukið fé. Auðvitað vorum við búin að heyra um að togast væri á um það hjá stjórnarmeirihlutanum að setja meiri peninga í vegafé. En það er hárrétt hjá hv. þm. sem talaði síðast að skiptingin varð okkur ekki ljós fyrr en í gær. Ég hef ekki skoðað þetta út frá því hvernig skiptingin er á kjördæmi eða hvort sérstök gæluverkefni eru að fá fjármagn, enda kem ég ekki hér til að tala efnislega um þessa tillögu. Hins vegar er óþolandi þegar komið er með stór mál sem þarf að leiða til lykta helst í sátt og samlyndi á þeim tíma sem þinginu á að vera lokið.