Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 10:55:10 (7497)

2000-05-11 10:55:10# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[10:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er hefur að undanförnu átt sér stað samráð við Bandaríkjamenn um tiltekna þætti varnarsamstarfsins sem snerta það frv. sem hér er til umræðu og þær brtt. sem ég hef flutt á sérstöku þskj. Þetta frv. var kynnt bandarískum stjórnvöldum sama dag og það var lagt fram á Alþingi þann 24. febrúar sl. og boðið var upp á frekari kynningu á því og skoðanaskipti um efni þess.

Hinn 6. apríl sl. kom í ljós að Bandaríkjamenn höfðu áhyggjur af efni þessa frv. án þess að beinlínis kæmi fram hvaða efnisatriði væri þar um að ræða. Það var útskýrt fyrir þeim að frv. væri einungis ætlað að auðvelda íslenskum stjórnvöldum að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt varnarsamningnum en það haggaði í engu skyldum eða réttindum aðila að þeim samningi. Af okkar hálfu var ljóst að íslenskum stjórnvöldum bæri skylda til að setja nauðsynlega löggjöf til að tryggja framkvæmd á samningsskuldbindingum.

Hlutverk okkar er að tryggja með löggjöf rétta framkvæmd þjóðréttarskuldbindinga okkar en að sjálfsögðu erum við reiðubúnir til samráðs við bandalagsþjóð okkar, Bandaríkin. Við höfum ítrekað, í þeim samtölum sem við höfum átt, að ef eitthvað í þessu frv. bryti gegn samningsskuldbindingum Íslands gagnvart Bandaríkjunum eða Atlantshafsbandalaginu, stæði að sjálfsögðu ekki á íslenskum stjórnvöldum að taka það til athugunar og leiðrétta slíkt. Að sjálfsögðu ber okkur í lagasetningu á Alþingi að fara í einu og öllu að þjóðréttarskuldbindingum okkar, eins og við gerum. Þeir komu síðan á framfæri athugasemdum 17. apríl sl. og að okkar mati gætti þar nokkurs misskilnings í ýmsum efnisatriðum. Þeim var svarað af hálfu utanrrn. með ítarlegum hætti daginn eftir.

Í framhaldi af þessu var ákveðið að efna til skoðanaskipta háttsettra embættismanna og sérfræðinga í Washington. Þau hafa átt sér stað með hléum frá 25. apríl allt til dagsins í dag. Ég hef rætt mál þetta við Madeleine Albright utanríkisráðherra, Strobe Talbot varautanríkisráðherra og fleiri aðila í heimsókn minni til Bandaríkjanna um síðustu mánaðamót sem hafði löngu verið ákveðin.

Það kom fram í þessum viðræðum að Bandaríkjamenn töldu mikilvægt að fá betri tíma til að ræða framtíðarfyrirkomulag verktöku á Keflavíkurflugvelli. Við töldum því æskilegt að leggja til að gildistöku ákvæða laganna um verktöku fyrir varnarliðið yrði frestað til að skapa svigrúm til slíkra viðræðna.

Gætt hefur misskilnings að því er varðar ákvæði 10. gr. frv. um aðgangsheimildir að varnarsvæðunum. Við höfum útskýrt að ákvæðinu væri ekki á neinn hátt ætlað að hrófla við heimildum yfirmanna varnarliðsins til að gæta öryggis liðsmanna sinna. Það er hins vegar sjálfsagt, m.a. til að koma þeim skilningi skýrt á framfæri og tryggja að hann sé hafinn yfir allan vafa, að breyta lítils háttar orðalagi eins og lagt er til í einni brtt.

Snemma á þessu viðræðuferli lögðum við Íslendingar til að sett yrði á fót nefnd háttsettra fulltrúa landanna og í slíkri nefnd yrði fjallað um varnarsamstarfið í víðum skilningi og þar yrðu tekin til meðferðar þau mál sem hæst ber hverju sinni. Fallist hefur verið á af hálfu Bandaríkjamanna að efna til slíkrar nefndar og þeir hafa fallist á okkar tillögur um að slík nefnd verði sett á stofn.

Ætlun okkar er að meðal verkefna þessarar nefndar verði samráð um framtíðarfyrirkomulag verktöku í samræmi við ákvæði bókunar Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1996. Í samræmi við gildandi venjur um framkvæmd þjóðréttarskuldbindinga liggur fyrir af Íslands hálfu að niðurstöðum nefndarinnar verði hrint í framkvæmd með setningu reglugerða á grundvelli þessara laga eða þá að við munum beita okkur fyrir lagabreytingum. Ef þjóðréttarskuldbindingum okkar verður með einhverjum hætti breytt eða tillögur koma fram um það, sem aðilar verða sammála um, getur það að sjálfsögðu, eins og með aðrar þjóðréttarskuldbindingar, kallað á lagabreytingar.

Á grundvelli þess sem þegar hefur verið rakið og í samræmi við málflutning okkar undanfarið geri ég það að tillögu minni, hæstv. forseti, að þær breytingar verði gerðar á frv. sem fyrir liggja á sérstöku þingskjali.

Annars vegar er lögð til orðalagsbreyting á 10. gr. frv. Sú breyting tekur af öll tvímæli um að ákvæði greinarinnar um útgáfu aðgangsheimilda taki einvörðungu til íslenskra borgara og annarra þeirra sem ekki eru á ábyrgð varnarliðsins. Með varnarsamningnum og viðbætinum við hann er varnarliðinu heimilt að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja öryggi og starfsemi varnarstöðvarinnar. Með þessari grein er utanrrh. veitt ótvíræð heimild til að virða þá samningsskuldbindingu.

Hins vegar er lagt til að ákv. til brb. I verði breytt á þann veg að gildistöku ákvæða um samninga, aðra en starfssamninga, verði frestað fram til 1. maí á næsta ári. Önnur ákvæði laganna taka gildi strax. Þannig er tryggður lagagrundvöllur fyrir starfsemi kaupskrárnefndar og ráðningardeildar varnarmálaskrifstofu.

Við teljum afar mikilvægt að treysta varnarsamstarfið. Það hefur að mínu viti tekist í gegnum þetta ferli. Við frestuðum þessu máli vegna þeirra áhyggna sem komu fram og til að útskýra eðli þessa máls, bakgrunn og tilgang. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum haft árangur sem erfiði af því verki.

Herra forseti. Ég gerði utanrmn. grein fyrir stöðu málsins og fyrirhuguðum brtt. á nefndarfundi í fyrradag. Þessar brtt. eru í samræmi við það sem ég kynnti þar fyrir nefndinni og ég vil þakka henni fyrir samstarfið í þessu máli.

Ég vil að lokum leggja til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir.