Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 11:03:20 (7498)

2000-05-11 11:03:20# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, Frsm. 1. minni hluta SighB
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[11:03]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Allt þetta mál er orðið hið versta klúður og hefur raunar verið það frá upphafi. Þó að ýmis atriði séu í frv., svo sem eins og um kaupskrárnefnd, ráðningarnefnd og fleira, er meginástæðan fyrir því að þetta frv. er flutt deilur um sjóflutninga á vegum varnarliðsins milli Íslands og Bandaríkjanna. Í Bandaríkjunum hafa verið í gildi lög frá árinu 1904 sem kveða á um að vegna þjóðaröryggis Bandaríkjamanna skuli allir sjóflutningar til varnarstöðva Bandaríkja erlendis fara fram með bandarískum skipum. Þetta hefur hvarvetna gilt nema aðeins gagnvart Íslendingum.

Vegna mikilla hagsmuna Íslendinga í sjóflutningum var horft í gegnum fingur sér með þetta ákvæði af hálfu Bandaríkjamanna og lengi vel heimilað að allir þessir flutningar færu fram með íslenskum skipum. Þessir flutningar voru á sínum tíma mjög umfangsmiklir og eðlilegt að þetta yrði með þeim hætti en dregið hefur úr þeim smátt og smátt eftir því sem árin hafa liðið og nú er um að ræða óverulega flutninga á búslóðum varnarliðsmanna, bílum og matvælum fyrir um 130 millj. á ári.

Síðan var valin sú leið þegar deilur komu upp á milli ríkjanna að fara með málið fyrir dómstóla í Bandaríkjunum og fyrir liggur niðurstaða áfrýjunarréttar að núverandi framkvæmd sé ekki brot á viðkomandi milliríkjasamningi. Setji menn sig í spor Bandaríkjastjórnar með slíka dómsuppkvaðningu á bakinu og viðbrögð við því þegar fram koma af hálfu Íslendinga viðbrögð eins og hér um ræðir, þ.e. að þegar upp kom deila í þessu máli um það hvort annar tilboðsaðilinn, Atlantsskip hf., væri íslenskt fyrirtæki eða bandarískt, þá var valin sú leið til að skera úr um þá deilu að leggja málið fyrir dómstóla í Bandaríkjunum. Niðurstaða áfrýjunarréttarins liggur fyrir og hún er þessi.

Vitaskuld mátti deila um það þegar þessir samningar voru upphaflega gerðir eftir útboð á vegum varnarliðsins vegna þessara sjóflutninga hvort Atlantsskip á þeim tíma hafi verið íslenskt eða bandarískt dótturfyrirtæki. Um það mátti vissulega deila þegar samningurinn við það var gerður og ég tel að íslensk stjórnvöld hafi þá verið í fullum rétti til að mótmæla þeim gerningi á grundvelli þess að þarna væri um samningsbrot að ræða. En síðan hefur liðið á þriðja ár og á því tímabili er alveg ótvírætt að Atlantsskip, sem fengu þennan samning, uppfylli öll skilyrði, það er skráð hér á Íslandi, er í íslenskri eigu undir íslenskri stjórn, til að teljast íslenskt fyrirtæki. Á því er enginn vafi. Samningur skipafélagsins um varnarliðsflutningana er þess eðlis að samningsaðilinn, þ.e. hermálaráðuneytið í Bandaríkjunum, á rétt á því með einhliða ákvörðunum að framlengja samninginn til eins árs í senn í þrjú ár til viðbótar. Það er vitað að bandarísk stjórnvöld vilja framlengja samninginn, telja hann hagkvæman og vilja framlengja hann.

Fyrst er valin sú leið eins og ég sagði áðan að fara með þetta milliríkjadeilumál fyrir dómstóla í Bandaríkjunum. Sú leið er valin. Búið er að verja svo miklu fé í þann málarekstur miðað við umfang þessa máls að ég er sannfærður um að það mun taka mörg ár að ná þeim hagnaði á þessum flutningum að það dugi til að borga upp lögfræðikostnaðinn sem hefur þegar verið lagður. En þessi leið var valin. Í stað þess að reyna að leysa málið með viðræðum milli stjórnvalda þessara ríkja og með kröfu um að Bandaríkin stæðu við sinn hluta samningsins var farin sú leið að leggja málið fyrir bandaríska dómstóla.

Niðurstaðan liggur fyrir. Áfrýjunarréttur í Bandaríkjunum hefur úrskurðað að þetta fyrirkomulag á flutningum vegna varnarliðsins brjóti ekki milliríkjasamninga og það er það sem bandarísk stjórnvöld hafa á herðunum hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Menn geta rétt ímyndað sér hversu þröngt svigrúm þeirra er, án þess að ég ætli að fara að mæla bandarískum sjónarmiðum neina bót, þegar þau eru með slíka niðurstöðu á herðunum eftir málsmeðferð sem valin var af íslenskum hagsmunaaðilum í samráði við íslensk stjórnvöld. Hvernig haldið þið í milliríkjadeilumáli að staða íslenskrar stjórnar væri eða íslenskra stjórnvalda ef valin hefði verið slík leið af erlendum viðsemjanda okkar að leggja málið fyrir dóm á Íslandi og íslenskur dómstóll, að vísu er ekki til hér áfrýjunarréttur en við skulum bara setja Hæstarétt í staðinn, hefði fellt þann úrskurð að íslenska sjónarmiðið í deilunum væri löglegt og rétt? Hvaða samningsstaða væri þá fyrir íslensk stjórnvöld til að semja sig frá niðurstöðunni? Fari menn hægt og gái að sér.

Þá er sem sé brugðist þannig við að ákveðið er að setja lög á Íslandi til að tryggja íslenska hagsmuni sem ganga í berhögg við niðurstöðu þeirrar leiðar sem valin hafði verið í samráði við íslensk stjórnvöld. Ég ætla, herra forseti, ekki að fara að rekja ýmis furðuleg atriði í þessari deilu. Hún er ekki síst furðuleg af hálfu Bandaríkjamanna sem sýnir að kjördæmapot einstakra þingmanna er ekkert íslenskt sérmál. Bandaríkjamenn eru ekkert óliprari við það en fremstu íslensku kjördæmapotarar á Alþingi í sögunni og er ekkert við því að segja. Engu að síður er staðan svona.

Hvaða tími er síðan valinn til þess að fara út á þessa braut? Sá tími þegar eru að hefjast viðræður um endurskoðun á sérstakri bókun sem fylgir varnarsamningnum um framkvæmd varnarmála á Íslandi og það hvernig staðið skuli að framkvæmd þessa samnings. Það varðar okkur Íslendinga miklu hvernig niðurstaðan af því verður. Við höfum mikilla öryggishagsmuna að gæta í því sambandi. Við Íslendingar höfum engan áhuga á því að hér verði erlent herlið til frambúðar en við viljum að öryggishagsmuna landsins sé gætt á hverjum tíma.

Jafnframt vitum við það nú þegar þessir samningar eru að hefjast að sterk öfl í Bandaríkjunum, innan herafla Bandaríkjanna, benda á þá einföldu staðreynd að verið sé að leggja niður fjölmargar herstöðvar á vegum Bandaríkjanna, bæði erlendis og í Bandaríkjunum sjálfum til að draga úr kostnaði og spara og þessir aðilar, sem eiga mjög öfluga málsvara í varnarmálaráðuneytinu í Bandaríkjunum, vilja beinlínis að ekki verði bara dregið úr starfsemi varnarliðsins eftir föngum heldur að varnarstöðinni í Keflavík verði lokað, án tillits til öryggishagsmuna okkar Íslendinga, eingöngu út frá fjárhagslegum hagsmunum Bandaríkjamanna. Þeir vilja það. Getum við gefið þessum aðilum sterkara vopn í hendurnar í upphafi samningaviðræðnanna en ganga fram eins og hér er gert? Er þetta líklegt upphaf á slíkum viðræðum út frá íslenskum hagsmunum séð sem muni leiða til árangusríkrar niðurstöðu frá sjónarmiði okkar Íslendinga? Það held ég ekki, herra forseti.

Í umræðunni í utanrmn. fyrir 2. umr. lögðum við fulltrúar Samfylkingarinnar eindregið til að málatilbúnaður yrði ekki sá sem hér hefur orðið. Við lögðum til í fyrsta lagi að ef svona lög yrðu sett sem við töldum ekki þörf á við þær aðstæður sem ég lýsti áðan, yrði a.m.k. séð til þess að hægt væri að fullnusta alla þá samninga sem þegar hefðu verið gerðir og þar á meðal að framlengja þá verksamninga sem þegar hefðu verið gerðir ef aðilar kæmu sér saman um það þannig að breytingar í þeim efnum yrðu ekki fyrr en allir slíkir samningar hefðu verið fullnustaðir svo samningsaðilum gæfist kostur á að bregðast við nýjum aðstæðum. Því var alfarið hafnað af meiri hluta utanrmn. Þá lögðum við til að veittur yrði lágmarksfrestur þeim sem hagsmuna eiga að gæta, eins og Atlantsskipum í þessu tilviki, með því að umrædd ákvæði í lögunum tækju ekki gildi fyrr en 1. janúar árið 2001 sem þýddi að hægt væri að framlengja samninginn við Atlantsskip, sem á að framlengjast núna í október, um eitt ár í viðbót þannig að menn fengju a.m.k. eins árs aðlögunartíma og tíma til að átta sig á nýjum aðstæðum. Þeirri tillögu var líka hafnað af meiri hlutanum í utanrmn.

Þá fluttum við tillögu um slíka breytingu fyrir 2. umr. um málið á Alþingi. Hún gekk til atkvæða og hún var felld.

[11:15]

Nú kemur hins vegar tillaga um nákvæmlega sama efni. Að vísu var ekki rætt um gildistímann 1. janúar heldur 1. maí árið 2001 en frá sjónarmiði fyrirtækisins og Atlantsskipa skiptir það nákvæmlega engu máli vegna þess að innihaldið er það sama. Það er verið að gefa eins árs frestun. Það er verið að gefa möguleika á því að framlengja umræddan flutningasamning sem á að framlengjast í október á þessu ári um eitt ár og gildistíminn 1. maí í staðinn fyrir 1. janúar 2001 breytir engu þar um. Það er nákvæmlega sami frestur sem verið er að gefa. Tillagan er flutt eftir að búið er að fella sambærilega tillögu á Alþingi frá Samfylkingunni.

Herra forseti. Þetta er eitt hið mesta klúður sem ég hef upplifað á þinginu í viðkvæmum málaflokki eins og þessum, mjög viðkvæmum málaflokki þar sem Íslendingar eiga mikilla hagsmuna að gæta. Það er verið að taka þessa áhættu vegna þáttar sem skiptir hagsmuni okkar nánast engu máli. Verið er að taka þessa ákvörðun vegna flutninga upp á 130 millj. á ári sem er aðeins örsmátt brot af þeim flutningum á vörum sem eiga sér stað sjóleiðis milli Ameríku og Íslands fram og til baka. Samkeppnin sem ógnar hinum stóru íslensku skipafélögum af völdum þessa litla fyrirtækis er óveruleg, því sem næst engin, þannig að þarna eru engir umtalsverðir fjárhagslegir hagsmunir í spilinu fyrir okkur. En á hinum vængnum standa mjög miklir, bæði efnahagslegir og öryggislegir, hagsmunir okkar af því að ná í góðu samstarfi við Bandaríkjamenn ásættanlegri niðurstöðu um endurskoðun á framkvæmd varnarsamningsins. Ég held að hyggilegast hefði verið við þessar aðstæður að lofa málinu að liggja og taka það síðan upp á ný að fenginni niðurstöðu í samningaviðræðum Íslands og Bandaríkjanna um nýja bókun með varnarsamningnum um framkvæmd hans og laga þá niðurstöðuna eða réttara sagt lagafrv. að þeirri niðurstöðu sem þar fengist. Ég mun því ekki hafa nein afskipti af málinu við þessa afgreiðslu eða við samfylkingarmenn. Þetta er alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Hún velur þessa leið og það er mál hennar að öðru leyti en því að við munum greiða atkvæði með þeirri tillögu sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur flutt í tengslum við málið og er til að tryggja að með sama hætti og Bandaríkjamenn skulu manna áhafnir þeirra skipa sem annast þessa flutninga til og frá Íslandi að sínum hluta, skuli þau skip, sem Íslendingar leggja fram, til að annast flutninga á sínum hluta samningsins einnig vera mönnuð íslenskum áhöfnum. Okkur finnst það eðlilegt og rétt og munum greiða atkvæði með því en að öðru leyti láta málið afskiptalaust enda er það alfarið á ábyrgð íslenskra stjórnvalda. En ég vara mjög við því að menn byrji viðkvæmar viðræður á milli vinaríkja um mikla hagsmuni okkar Íslendinga með þeim hætti sem hér er gert.