Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 11:19:30 (7499)

2000-05-11 11:19:30# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, GHall
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[11:19]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég held að við sem aðhyllumst vestræna samvinnu séum þannig þenkjandi að vilja skapa Bandaríkjaherstöð á Keflavíkurflugvelli það lagalega umhverfi sem þjónar bæði landi og þjóð okkar og líka að starfsumhverfi þessara aðila sé sæmilegt á Íslandi.

Það er alveg ljóst að í gegnum árin hefur vera setuliðsins á Keflavíkurflugvelli skapað mikla atvinnu og haft áhrif til jákvæðra þátta á ýmsa atvinnustarfsemi hér á landi. Nefni ég þá verktaka í byggingariðnaði svo að einhverjir séu nefndir. Þegar þetta frv. var lagt fyrir hið háa Alþingi, hafði áður borist greinargerð frá Eimskipafélagi Íslands um stöðu sjóflutninga hér á landi. Ég ætla aðeins að víkja að því á eftir en vil fyrst gera grein fyrir brtt. við frv. til laga um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Á eftir 3. tölul. fyrri málsgreinar k-liðar 1. gr. komi nýr töluliður, svohljóðandi: Eiga eða leigja skip sem sigla undir íslenskum fána, mönnuð íslenskri áhöfn, ef fyrirtækið hefur sjóflutninga með höndum.``

Í k-lið segir svo, með leyfi forseta:

,,Önnur skilyrði sem leiðir af einstökum afleiddum samningum, eftir því sem við á.

Heimilt er eftir eðli máls og í ljósi þeirra verkefna sem um ræðir í hverju tilviki að setja enn fremur skilyrði um að:

1. Meiri hluti stjórnarmanna fyrirtækjanna sé búsettur á Íslandi.

2. Allt að 50 af hundraði veltu fyrirtækjanna sé af starfsemi þeirra á Íslandi.

3. Allt að 80 af hundraði starfsliðs fyrirtækjanna sé búsett á Íslandi.`` --- Og síðan kæmi:

,,Eiga eða leigja skip sem sigla undir íslenskum fána, mönnuð íslenskri áhöfn, ef fyrirtækið hefur sjóflutninga með höndum.``

Þannig háttar til, virðulegi forseti, að í hluta Bandaríkjasamningsins, þ.e. í milliríkjasamningi Íslands og Bandaríkjanna ásamt samkomulagi honum tengdum frá 24. september 1986 segir m.a. að hluti Bandaríkjanna í sjóflutningum verði fluttur með bandarískum skipum undir bandarískum fána. En orðalagið sem snýr að sjóflutningunum er þannig að það sé íslensk kaupskipaútgerð sem annist flutninga þá sem falla til Íslendinga af þessum sjóflutningum vegna Bandaríkjahers.

Segja má að það sé nokkuð sérkennilegt að þessi texti skuli vera í lögunum þegar til greinargerðar Eimskips er litið. Ég vitna til greinargerðar Eimskips sem þeir sendu fjölmiðlum vegna þessa ágreinings um flutninga fyrir varnarliðið. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Allt frá því á sjöunda áratugnum hafa íslensk skipafélög annast sjóflutninga fyrir bandaríska varnarliðið á Íslandi. Breyting varð á árið 1984 er bandaríska skipafélaginu Rainbow Navigation var úthlutað þessum flutningum óskiptum í krafti bandarískra laga frá 1904 sem kveða á um að bandarísk skip`` --- sem sigli undir bandarískum fána --- ,,skuli hafa einokun á flutningum á vegum Bandaríkjastjórnar þar á meðal fyrir Bandaríkjaher. Lög þessi eru jafnan réttlætt með skírskotun til öryggis- og varnarhagsmuna Bandaríkjanna.`` --- Svo segir áfram:

,,Íslensk stjórnvöld vildu ekki una þessari einokun bandarísks skipafélags á varnarliðsflutningunum og kröfðust þess að íslensk skipafélög hefðu jafnan rétt á að keppa um flutningana, á grundvelli efnahags- og öryggishagsmuna íslensku þjóðarinnar.`` --- Svo kemur texti sem ég vil vekja sérstaka athygli á:

,,Smæð íslensks markaðar gerði það að verkum að flutningar fyrir varnarliðið væru lykilatriði fyrir öfluga innlenda skipaútgerð sem gæti þjónað efnahags- og öryggishagsmunum þjóðarinnar á hættu- og neyðartímum. Við slíkar aðstæður væri Íslendingum lífsnauðsyn að hafa öflugan skipakost, en fá ríki eru jafnháð siglingum og Ísland.``

Hér er verið að vitna til íslenskra stjórnvalda. Bandaríkjastjórn féllst á þessar röksemdir íslenskra stjórnvalda og haustið 1986 gerðu ríkin með sér milliríkjasamning um að sjóflutningum fyrir varnarliðið skyldi skipt eftir útboð milli íslenskra skipafélaga og skipa er sigla undir bandarískum fána. Í samkomulagi sem tengist samningnum segir að það skipafélag sem eigi lægsta tilboð skuli annast allt að 65% flutninganna en það skipafélag sem eigi lægsta tilboð frá hinu landinu skuli fá a.m.k. 35% flutninganna. Í útboðsskilmálum Bandaríkjahers um þessa flutninga eru einnig ákvæði sem uppfylla þarf svo sem að hugað skuli sérstaklega að fjárhagslegu bolmagni þeirra fyrirtækja sem bjóða í flutningana og hvort þau hafi skipakost til að taka að sér verkefnið. Svo segir hér áfram, með leyfi forseta:

,,Hinn 18. september 1998, eða tæpu hálfu ári síðar en venja var, tilkynntu bandarísk stjórnvöld loks að flutningasamningnum hefði verið úthlutað til nýstofnaðra skipafélaga sem sérstaklega voru sett á fót til að taka þátt í útboðinu og eru rekin undir einum og sama hatti í Bandaríkjunum, fyrirtækinu Transatlantic Lines Iceland. Atlantsskipum ehf. var úthlutað allt að 65% flutninganna en fyrirtækið Transatlantic Lines LLC í Delaware í Bandaríkjunum hlaut a.m.k. 35% hluta flutninganna. Eimskip gerði strax athugasemd við flutningadeild Bandaríkjahers um réttmæti niðurstöðu útboðsins og byggði þær á eftirfarandi atriðum: Ekki hefði verið farið eftir ákvæðum milliríkjasamningsins frá 1986 og samkomulagsins honum tengdum um samkomulagið milli íslenskra og bandarískra skipafélaga. Ekki hefði verið fylgt ákvæðum í útboðsreglum Bandaríkjahers varðandi skilyrði um fjárhagslega burði og ábyrgð flutningsaðila. Ekki hefði verið uppfyllt skilyrði í útboði Bandaríkjahers um að flutningsaðili hafi tryggt yfirráð yfir skipi til að annast flutningana. Afstaða Eimskips byggðist þannig á milliríkjasamningnum frá 1986, samkomulagi því sem fylgir samningnum og þeim útboðsgögnum sem flutningadeild Bandaríkjahers lagði fram við útboðið. Meðal gagna sem Transatlantic-fyrirtækin sendu flutningadeild Bandaríkjahers var bréf þar sem skýrt kemur fram að meiri hluti Transatlantic Lines Iceland er í eigu bandarískra aðila. Ráðandi hlutur er í eigu bandaríska skipafélagsins American Automar sem jafnframt er meirihlutaeigandi í bandaríska fyrirtækinu Transatlantic Lines. Félagið sem skráð er á Íslandi og hlaut flutningssamninginn árið 1998 er því að meiri hluta í eigu Bandaríkjamanna, fjármagnað af þeim og stjórnað frá Bandaríkjunum.

Niðurstaða útboðsins 1998 var með öðrum orðum sú að bandarísku fyrirtæki tókst að verða sér út um hvort tveggja, íslenska og bandaríska hluta flutninganna. Því voru allir flutningarnir aftur komnir í hendur bandarískra aðila eins og var á árunum 1984--1986 áður en milliríkjasamningur Íslands og Bandaríkjanna var gerður með það að markmiði að tryggja þátttöku íslenskra skipafélaga í þessum flutningum.``

Herra forseti. Nú er íslenski hlutinn fluttur með hollensku skipi þar sem er hollensk og pólsk áhöfn en Bandaríkjahluti sjóflutninganna er fluttur með bandarísku skipi undir bandarískum fána. Til að tryggja jafnræði á milli þessara ríkja, herra forseti, flyt ég þessa brtt. við það frv. sem hæstv. utanrrh. hefur lagt fram. Ég geri það í skjóli þessarar yfirlýsingar frá Eimskip og tilvitnunar til stjórnvalda þar sem ætla má þótt Eimskip hafi á árunum áður annast hluta flutninga hvað áhrærði íslenska hlutann var það oftar en ekki að þeir sjálfir notuðu erlend skip undir erlendum fána með erlendri áhöfn vegna þess að ákvæði samningsins segir að það skuli vera íslensk kaupskipaútgerð og ekki frekar orðað neitt um það. Þá spyr ég: Í hvaða ósamræmi erum við komnir gagnvart Bandaríkjaher þegar við leggjum fram greinargerð að okkur Íslendingum sé nauðsynlegt sem eyþjóð að eiga öflugan íslenskan kaupskipaflota en viljum ekki taka þetta ákvæði inn í lögin, að það séu sömu ákvæði hér gagnvart Íslandi og Bandaríkjamenn eru nú þegar með fyrir í lögunum? Það kemur því mjög á óvart þegar þetta mál var svo til umfjöllunar í utanrmn. að aðilar sem þar gengu á fund nefndarinnar hvort sem það voru starfsmenn utanrrn. eða fulltrúar Eimskips sem leggjast gegn þessari brtt.

,,Smæð íslensks markaðar gerði það að verkum að flutningar fyrir varnarliðið væru lykilatriði fyrir öfluga innlenda skipaútgerð sem gæti þjónað efnahags- og öryggishagsmunum þjóðarinnar á hættu- og neyðartímum.`` Þess vegna er mér gersamlega óskiljanlegt hvaða öfl það eru sem vilja ekki þetta ákvæði inn í samninginn. Ef það væri inni í samningnum í dag væri ekkert Atlantsskip með hollensk skip, hollenska áhöfn og pólska að flytja íslenska hluta sjóflutninganna fyrir Bandaríkjaher.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þessa brtt. Það er oft að menn tala um að stundum vanti rök fyrir málflutningi þingmanna þegar þeir flytja brtt. við lög sem fyrir liggja. En ég held, herra forseti, þegar litið er til þess sem ég hef sagt með tilvitnun til greinargerðar Eimskipafélags Íslands upp á um á annað hundrað blaðsíður til fjölmiðla þar sem vitnað er til þess sem íslensk stjórnvöld segja til að tryggja sjóflutninga Íslendinga, til að ná aftur því ójafnvægi sem komið var á, að það voru bara Bandaríkjamenn sem önnuðust sjóflutningana, en íslensk stjórnvöld notuðu þetta ákvæði. Þau notuðu þau rök sem ég vil bæta inn í þau lög sem hér eru til umræðu.