Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 11:33:27 (7500)

2000-05-11 11:33:27# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, SvH
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[11:33]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég get mjög stytt mál mitt því ég get gert að mínum orðum öll þau atriði sem komu fram í máli hv. 2. þm. Vestf. sem talaði hér áðan. Við frumflutning þessa máls hlustaði ég með mjög mikilli undrun á málflutning sér í lagi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem fullyrti að hér væri á ferðinni mál sem væri afgreitt af hæstv. ríkisstjórn eftir pöntun hagsmunaaðila, Eimskips.

Í Morgunblaðinu sl. sunnudag var gerð mjög ítarleg grein fyrir máli þessu út í hörgul og þess er að vænta að þingmenn hafi kynnt sér þá málavöxtu. Þá hlýtur að renna upp fyrir mönnum hvílíkt heiftarklúður þetta er.

Svo standa mál að hér deila menn um framkvæmd samnings um verktöku fyrir varnarliðið og þar kemur að áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur kveðið upp sinn dóm. Þar stendur málið. En þess sem hallaðist í héraði á að hefna hér á Alþingi og þá er rokið til af hæstv. ríkisstjórn og flutt frv. til að hafa að engu niðurstöðu þessa dóms að því er best verður séð.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson benti á hver mundu líklega hafa verið viðbrögð Íslendinga við slíkum aðförum annarra þjóða ef hér hefði verið kveðinn upp úrskurður á Íslandi um slíkt hagsmunamál okkar en síðan t.d. rokið til á Bandaríkjaþingi að bæta um betur með frv. sem gengi í aðra átt og þarf ekki að fara frekari orðum um það. En nú er líka brostinn á flótti. Nú er hæstv. utanrrh. á hröðum flótta. Af því sem marka má af orðum hans og viðræðum við Bandaríkjastjórn er þessi deila enn á flugstigi. Fresta á framkvæmd þessa þáttar um verktökuna og nú á að setja niður nefnd háttsettra embættismanna til að taka deiluna fyrir til meðferðar og þá væntanlega úrlausnar og gætum við þess vegna átt von á því í framhaldi af því að fá enn nýtt frv. til laga á næsta þingi til þess að komast þá að þeirri niðurstöðu sem þar væntanlega fæst. Þessi málatilbúnaður er hinu háa Alþingi til vansæmdar og til þess að þingmenn þurfi ekki að taka efnislega afstöðu til þessa máls þá leyfi ég mér, herra forseti, að flytja svohljóðandi frávísunartillögu:

,,Með vísan til 62. gr. þingskapa legg ég til að máli nr. 405 verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.``

(Forseti (ÍGP): Forseti tekur við þessari tillögu og henni verður síðar dreift.)