Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 11:38:07 (7501)

2000-05-11 11:38:07# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[11:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í langar umræður um svokallað varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Ég er andvígur þessu samstarfi. Ég vil að Íslendingar segi sig úr Atlantshafsbandalaginu, úr NATO, og vil að við göngum til samninga við Bandaríkjamenn um brotthvarf hers úr landi okkar og hvernig að því verði staðið með hliðsjón af atvinnuöryggi manna á Suðurnesjum og annars staðar þar sem bandarískur her hefur umsvif. Ég vil að þessi afstaða komi mjög skýrt fram gagnvart veru Bandaríkjahers í landinu og aðildar okkar að NATO.

Ekki hefur dregið úr áhuga mínum og okkar sem störfum innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að taka hermálin til endurskoðunar og taka þau föstum tökum, hvernig Atlantshafsbandalagið, NATO, hefur beitt sér á undanförnum mánuðum á Balkanskaga.

Það sem hins vegar varð til þess að ég kvaddi mér hljóðs núna er fyrst og fremst að ég vil taka undir tillögu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar til varnar íslenskum farmönnum. Íslendingar hafa staðið í samningaþjarki við Bandaríkjastjórn um flutninga á aðföngum til herstöðvarinnar. Sem kunnugt er hefur verið komist að samkomulagi um hvernig þeim flutningum verði háttað, þ.e. að Íslendingar skuli hafa tiltekinn hundraðshluta og Bandaríkjamenn tiltekinn hundraðshluta í þeim vöruflutningum. En þá kemur að því að skilgreina hver sé Bandaríkjamaður og hver sé Íslendingur, hvað sé bandarískt fyrirtæki og hvað íslenskt. Tillaga hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar er til þess sett fram, eins og fram kom í máli hans, að styrkja réttarstöðu íslenskra sjómanna. Eins og við þekkjum hefur færst í vöxt á undanförnum árum að íslensku skipafélögin hafa verið með á sínum snærum skip sem ekki sigla undir íslenskum fána, eru ekki mönnuð íslenskum áhöfnum og virða ekki íslenska kjarasamninga. Þetta hefur verið að færast í vöxt og samtök sjómanna og flutningaverkafólks hafa barist fyrir því, ekki aðeins hér á landi heldur í heiminum öllum, að lágmarkskjarasamningar á heimsvísu séu virtir og að sjálfsögðu ætti það að vera okkur keppikefli að sjá til þess að á íslenskum skipum séu íslenskar áhafnir. Að minnsta kosti er það grundvallaratriði að íslenskir kjarasamningar séu virtir.

Þess vegna kveð ég mér hljóðs, herra forseti, til að lýsa eindregnum stuðningi við þá tillögu sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur sett hér fram.