Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 12:18:54 (7509)

2000-05-11 12:18:54# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[12:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna afdráttarlausum stuðningi hv. þm. Sighvats Björgvinssonar við áframhaldandi varnarsamstarf við Bandaríkin og vænti þess að hann mæli þar fyrir munn hins nýstofnaða flokks og það hafi fullan stuðning í þeim flokki. En það hefur gætt nokkurs vafa í því á undanförnum missirum. Það er út af fyrir sig mjög gott þegar tekið er af skarið í svo mikilvægu máli.

Ég vil leiðrétta þann misskilning sem virðist vera uppi að málflutningur Eimskipafélags Íslands í Bandaríkjunum sé á einhvern hátt studdur af okkur. Við höfum á engan hátt stutt þann málflutning. Við höfum hins vegar talið það vera skyldu okkar sem annars samningsaðilans að þessum samningi frá 1986 að leggja fram greinargerð og skoðun okkar í því máli. En við höfum ekki hvatt Eimskipafélag Íslands eða haft afskipti af því hvernig þeir reka mál sín fyrir dómstólum í Bandaríkjunum, svo það sé alveg ljóst að það mál er á vegum þess fyrirtækis en ekki á vegum íslenskra stjórnvalda. Það er mjög mikilvægt að sá misskilningur sé leiðréttur.