Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 12:20:52 (7510)

2000-05-11 12:20:52# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[12:20]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er hlynntur veru Bandaríkjahers á Íslandi og ég tek undir það sem hæstv. utanrrh. sagði áðan er hann vitnaði til þingmanna sem hefðu það eitt í huga að hugsa vel um íslenska hagsmuni. Ég er að því.

En þegar virðulegur utanrrh. heldur því fram að hér sé hrein sýndartillaga á ferðinni þá er það mér mjög óljúft. Það fellur mjög illa að hugsunum mínum sem er að hugsa um hreina íslenska hagsmuni, eins og hæstv. utanrrh. kom inn á áðan.

Hann gat þess áðan í andsvari að ríkisstjórnin væri ekki að styðja Eimskip. En Eimskip styðst við rök íslenskra stjórnvalda. Þegar hæstv. utanrrh. talar um að hér sé algjör þröngsýni varðandi brtt. mína hlýtur sú hugsun að vakna að hún sé þá víðar en á Íslandi. Hún er þá í Bandaríkjunum líka þar sem þessi ákvæði eru sérstaklega tiltekin í samningnum. Þar segir að bandarísk skip skuli flytja bandaríska hlutann. Mikil rosaleg þröngsýni er það.

Í annan stað vildi ég geta þess aftur að hér er ekki um neina þröngsýni að ræða. Hún er þá víðar en hjá mér. Þetta sem ég vildi vitna til aftur er að náttúrlega er mjög auðvelt að taka skip á leigu undir hvaða fána sem er til þess að stunda þessa flutninga. Það er alveg rétt hjá hæstv. utanrrh. En mér er mjög óljúft að talað skuli um að hér sé hrein sýndartillaga á ferðinni miðað við þá greinargerð sem Eimskip er að vitna til.