Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 12:26:21 (7513)

2000-05-11 12:26:21# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[12:26]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel frekar að hv. þm. ætti að spyrja um þetta mál í eigin flokki vegna þess að flokkur hans var í forsvari fyrir þessu máli þegar samningurinn var gerður 1986 af þáv. utanrrh. Matthíasi Á. Mathiesen og undirritaður af sjálfum Ronald Reagan, forseta Bandaríkjanna.

Við búum við almennar reglur í landi okkar og Bandaríkin búa við sínar reglur. Reglur okkar eru m.a. litaðar af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Ég veit ekki betur en að hv. þm. hafi samþykkt þann samning og ég veit ekki betur en að hann hafi skuldbindingar gagnvart þeim samningi eins og aðrir Íslendingar. Við þurfum fyrst og fremst að byggja upp almennar reglur um skipafélög okkar.

Ég ætla ekki að segja að þær almennu reglur séu réttar. Við erum að skilgreina í þessu sambandi hvað séu íslensk skipafélög. En ég held að afar erfitt sé að setja einhverja allt aðra reglu en almennt tíðkast að því er varðar mönnun eða áhöfn í þessu tilviki. Ég held að hv. þm. hljóti að sjá það þegar hann skoðar málið betur.

Ég skal gjarnan draga það til baka að þetta sé sýndartillaga af hálfu hv. þm. En hún er þá a.m.k. flutt að mínu mati án þess að málið sé hugsað til botns. Ég get út af fyrir sig alveg fallist á það. En eins og hún blasti við mér fannst mér hún vera hrein sýndartillaga. Ég endurtek það. En ef þarna hefur verið annað að baki þá skal ég gjarnan taka það til baka.