Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 12:38:36 (7516)

2000-05-11 12:38:36# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[12:38]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla út af fyrir sig ekki að blanda mér í hugleiðingar hv. þm. um þá stöðu sem kann að koma upp og skoðanir hans á því hvort þetta samstarf eigi að vera eins og það er í dag eða ekki. Ég vildi aðeins benda á það, sem ég veit að honum er að sjálfsögðu ljóst, að þetta samstarf er tvíhliða. Það byggir ekki eingöngu á hagsmunum Bandaríkjanna, það byggir líka á hagsmunum Íslands. Niðurstaða í því máli getur aldrei orðið önnur en sú að hún samrýmist jafnframt hagsmunum Íslands.

Ef við teljum það samrýmast hagsmunum Íslands að hér sé tiltekinn lágmarksviðbúnaður, sem ég tel að samrýmist hagsmunum Íslands, þá getur niðurstaðan aldrei orðið önnur en sú að fullt tillit sé tekið til þeirra hagsmuna, þ.e. íslenskra hagsmuna með sama hætti og niðurstaðan hlýtur jafnframt að taka tillit til bandarískra hagsmuna. Hvað sem líður öllum vangaveltum einstakra aðila í Bandaríkjunum verður að vera ljóst að þær vangaveltur geta ekki orðið niðurstaða í málum milli Íslands og Bandaríkjanna vegna þess að mikið af þeim vangaveltum taka ekkert tillit til hugsanlegra hagsmuna Íslands í þessu sambandi þó ég viti að sjálfsögðu að hagsmunir Íslands í þessu sambandi eru metnir út frá mismunandi forsendum, m.a. af hv. þm. sem hefur aðrar forsendur í því hagsmunamati en sá sem hér stendur.

En þetta vildi ég taka skýrt fram.