Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 11. maí 2000, kl. 12:40:54 (7517)

2000-05-11 12:40:54# 125. lþ. 116.1 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, Frsm. 2. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 125. lþ.

[12:40]

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Mér er þetta að sjálfsögðu vel ljóst eins og hæstv. utanrrh. Ég geri mér grein fyrir því að ágreiningur okkar í málinu er m.a. og alveg sérstaklega fólginn í því að við metum hagsmuni Íslands ólíkt í þessu sambandi. Ég tel að þeim sé prýðilega borgið einmitt með því að erlendur her hverfi úr landinu og við leggjum þannig í leiðinni lóð okkar á vogarskálar friðsamlegri sambúðar þjóða og afvopnunar, því að dregið sé úr útgjöldum til vígbúnaðarmála og fjármunir færðir yfir í aðra og þarfari hluti eins og þróunaraðstoð og stuðning við fátæk ríki, átak í umhverfismálum og annað slíkt sem eru að mínu mati miklu brýnni framtíðarverkefni og þarfari en að viðhalda umfangsmiklum vígbúnaði úti um allan heim.

Það er að sjálfsögðu rétt að ef menn ganga til viðræðna þá þurfa menn að skoða hagsmuni og áhuga beggja aðila. En við þekkjum líka, herra forseti, úr sögunni að bandarísk stjórnvöld geta verið duttlungafull og tekið skyndilegar ákvarðanir. Þau hafa t.d. tekið ákvarðanir um skyndilega stórfellda lokun herstöðva á erlendri grund án þess að gera mjög mikið með hagsmuni þeirra sem urðu fórnarlömb slíkra breytinga. Menn eiga víða um sárt að binda þar sem þeir voru orðnir háðir veru slíkra herja. Um þetta eru dæmi af Kyrrahafseyjum, í Suðaustur-Asíu og víðar.

Það vill svo til að sá sem hér talar getur sagt eina litla dæmisögu af slíku. Í minni gömlu heimabyggð var herstöð um fimmtán ára skeið. Svo einn góðan veðurdag fréttu menn að Kaninn hefði tekið ákvörðun um að loka henni og hann var farinn eftir þrjá mánuði. Hann var ekki mikið að hugsa um atvinnuhagsmuni þessa litla byggðarlags sem var auðvitað orðið háð því á þessu fimmtán ára tímabili að hafa af þessu atvinnu, var í raun stungið svefnþorni og öll önnur atvinnuuppbygging lá afvelta á meðan. Við þekkjum líka dæmi um slíka hluti og ég held að annað væri óraunsæi en að hafa í huga að sviptivindar í stjórnmálum vestan hafs gætu vel átt eftir að skila hingað óvæntum tillögum og niðurstöðum. Það er ekki víst að það yrði svo mikið með það gert þó að íslenskir ráðamenn reyndu af skammsýni sinni að halda í herinn.