Lyfjalög og almannatryggingar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 10:35:35 (7531)

2000-05-12 10:35:35# 125. lþ. 117.3 fundur 401. mál: #A lyfjalög og almannatryggingar# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv. 108/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[10:35]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil segja nokkur orð um frv. til laga um breytingu á lyfjalögum og um afstöðu mína, þ.e. um helstu fyrirvara sem ég geri við frv. Í heildina má segja að það sé mjög til bóta að sameina starfsemi Lyfjaeftirlits ríkisins og lyfjanefndar ríkisins eins og hér er lagt til og gera að einni stofnun. Þessari nýju stofnun eru ætluð ný verkefni við umsjón, skráningu og eftirlit með verkunum og aukaverkunum lyfja. En þessi þáttur er þegar orðinn mjög umtalsverður og verður það enn frekar í framtíðinni.

Í nefndinni komu fram ábendingar um að mjög æskilegt væri að þessari nýju stofnun yrði einnig falið það hlutverk að hafa eftirlit með allri lyfjaneyslu í landinu, ekki bara eins og er í dag, að fylgjast með lyfseðilsskyldum lyfjum heldur að möguleiki verði á að fylgjast með allri lyfjaneyslu. Með því er hægt að marka skýrar lög og reglugerðir og grípa inn í varðandi forvarnaþætti í heilbrigðiskerfinu.

Fyrirvari minn er kannski helst við það að frv. var afgreitt undir pressu. Við vorum að afgreiða það á síðustu mínútum áður en sá frestur sem við höfðum til að skila inn málinu rann út. Það hafa komið fram þó nokkrar ábendingar um frv. sem hefði verið gott skoða betur en við höfðum tíma til. Ég vil ekki leggjast gegn því að þetta frv. verði samþykkt, það er margt gott í því en ég tel ærna ástæðu til að skoða þetta aftur í rólegheitum og fara yfir nokkur svið eins og þær ábendingar sem hafa komið frá lyfjatæknum um að lyfjatæknar hafi ekki skilgreint starfssvið innan apótekanna eða lyfjaverslananna og úr því þarf að bæta.

Í 23. gr. laganna er sett það skilyrði að í lyfjaverslun starfi: ,,... eigi færri en tveir lyfjafræðingar við afgreiðslu lyfseðla og fræðslu og ráðgjöf um rétta notkun og meðhöndlun lyfja. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er heimilt, að fenginni umsókn þar um að leyfa að í lyfjabúð starfi einungis einn lyfjafræðingur enda sé umfang starfsemi lítið og lyfjatæknar eða annað þjálfað starfsfólk sé lyfjafræðingnum til aðstoðar.``

Ég styð það að í hinum stærri verslunum sé sett það skilyrði að tveir lyfjafræðingar séu að störfum. Það er ekki nóg að einn sé ráðinn við lyfjaverslunina. Það þarf að vera einn til staðar og með þeim breytingum sem hafa verið gerðar á afgreiðslutíma lyfjaverslana segir það sig sjálft að einn lyfjafræðingur getur ekki alltaf verið til staðar. Hann þarf að nærast og hvílast eins og aðrir og því er mikilvægt að það séu tveir, sérstaklega á háannatímum til að gæta alls öryggis við afgreiðslu lyfjanna.

Fyrirvari minn varðandi þetta snýr þó að landsbyggðinni, svæða utan höfuðborgarsvæðisins. Fram til þessa hefur afgreiðsla á undanþágum til lítilla lyfjaverslana verið lipur og ég vil treysta því að afgreiðsla á undanþágum frá því að það séu starfandi tveir lyfjafræðingar verði áfram lipur. Ef það verður ekki munu litlu lyfjaverslanirnar eða lyfjaverslanir í fámenni ekki standa undir þessum kröfum og leggjast af. Lyfjaverslunum úti á landsbyggðinni hefur verið gert nægilega erfitt fyrir í þeirri samkeppnisaðstöðu sem er nú ríkjandi. Samkeppnin skilar sér á höfuðborgarsvæðinu en gerir lyfjaverslunum úti á landi mjög erfitt fyrir. Það væri til að leggja af alla lyfjaverslun ef þessu skilyrði yrði fyllilega fullnægt. Fyrirvari minn er sá að ég vil fá að treysta því að afgreiðsla á undanþágu sé lipur varðandi tvo lyfjafræðinga.

Frá hv. heilbr.- og trn. er brtt. um skilyrði lyfjaverslananna um rafræna skráningu. Það er tillaga um að þessum kröfum verði frestað því að verið er að þróa mismunandi tölvukerfi til skráningarinnar og mjög kostnaðarsamt væri fyrir apótekin að uppfylla þessar kröfur þó ekki væri nema í tölvukaupum og eiga síðan eftir einhvern stuttan tíma að endurnýja tölvubúnaðinn. Ég vísa aftur til verslunarinnar á landsbyggðinni sem stendur veikum fótum, það yrði henni mjög erfitt að uppfylla þessi skilyrði. Ég fagna því að þessu sé frestað og að reynt verði að samræma þessa skráningu betur þannig að ekki séu mörg kerfi í gangi sem yrði erfitt að samtengja. Í dag er til staðar tölvukerfi sem gengur undir nafninu Sögukerfið og verið er að þróa fleiri. Það er mikilvægt að þessi kerfi tengdust þá saman.

Með rafrænni skráningu á að vera hægt að fylgjast með afgreiðslu allra lyfja, lyfseðilsskyldra sem annarra, og má búast við að þetta verði einhver vinna sem fellur á lyfjaverslanirnar. Ég óska eftir því að tekið verði tillit til þeirrar vinnu fyrir lyfjaverslanirnar, að skrá öll lyf, þegar þessi skilyrði verða sett.

Herra forseti. Ég fagna mörgum breytingum sem hafa verið gerðar, sérstaklega varðandi menntun forstöðumanns og tel að það sé til bóta sem hér hefur verið sett inn.

Þetta er það helsta sem ég vildi koma að en hefði a.m.k. talið að betra hefði verið að fresta þessu til haustsins og fara betur yfir þær umsagnir og ábendingar sem komið hafa fram.