Lyfjalög og almannatryggingar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 10:44:34 (7532)

2000-05-12 10:44:34# 125. lþ. 117.3 fundur 401. mál: #A lyfjalög og almannatryggingar# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv. 108/2000, HBl
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[10:44]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það hefur borið oft við í þingsölum að sérstaklega hv. þm. Samfylkingarinnar hafa haft orð á því að ríkisstjórninni hafi farist illa í byggðamálum. Þetta er eftirtektarvert í ljósi þess að hv. þm. Samfylkingarinnar sem talaði áðan, hv. 15. þm. Reykv. Ásta R. Jóhannesdóttir, lagði sérstaka lykkju á leið sína til að taka sérstaklega fram að hún teldi óhæft --- ,,óhæft`` var orðið sem hv. þm. notaði --- og það mundi standa stofnuninni fyrir þrifum --- líka það orðasamband sem hv. þm. notaði, ,,að standa stofnuninni fyrir þrifum`` --- ef hún yrði flutt út á land. Hv. þm. lagði sérstakan krók á leið sína til að koma fram þeim skilaboðum að stofnunin mundi bara alls ekki geta gengið ef hún væri staðsett annars staðar en í Reykjavík.

Ég hrökk svolítið í kút, hafði heyrt ýmislegt frá þessum hv. þm. og fór að athuga hlutverk Lyfjamálastofnunar. Það eru allmagar línur, þingmenn geta kynnt sér það. En það var með öðrum orðum skilgreining á þeim verkefnum sem er ekki hægt að sinna úti á landi að mati Samfylkingarinnar.