Lyfjalög og almannatryggingar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 10:46:02 (7533)

2000-05-12 10:46:02# 125. lþ. 117.3 fundur 401. mál: #A lyfjalög og almannatryggingar# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv. 108/2000, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[10:46]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. forseti leggur sérstaklega við hlustir þegar ég tek til máls en reyndar kom fram í máli mínu ástæðan fyrir því að ég teldi það ekki vera stofnunni til framdráttar að fara út á land. Það er vegna þess að þeir sem starfa við stofnunina eru m.a. yfirlæknar á stóru sjúkrahúsunum, á háskólaspítölunum, og aðrir starfsmenn sem eru í störfum við stofnanir á höfuðborgarsvæðinu sem þurfa síðan að sinna störfum sínum hjá Lyfjamálastofnun. Þess vegna mundi vera mjög erfitt í framkvæmd fyrir þessa stofnun ef hún yrði flutt út á land.

Auðvitað er mismunandi hvernig starfsemi stofnana er háttað, hvort það hentar að þær séu úti á landi og margar stofnannir eru með þannig starfsemi að þeim hentar betur að vera úti á landi eða alveg jafn vel og að vera á höfuðborgarsvæðinu. En þessi stofnun er því miður þannig að það eru svo margir starfsmenn sem eru í störfum á höfuðborgarsvæðinu, í heilbrigðiskerfinu, við háskólana, sem starfa þarna að ég tel mjög brýnt að stofnunin verði áfram á þéttbýlissvæðinu.