Sjúklingatrygging

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 11:29:52 (7549)

2000-05-12 11:29:52# 125. lþ. 117.4 fundur 535. mál: #A sjúklingatrygging# frv. 111/2000, BH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[11:29]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um það mál sem hér er til umfjöllunar. Ég tek undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur. Hér er gott mál á ferðinni og við samfylkingarmenn fögnum því að hæstv. heilbrrh. hefur tekið þetta mál upp sem við höfum flutt áður og gert það að sínu og þar með að raunveruleika. Það er mjög ánægjulegt í alla staði.

[11:30]

Ég vil vekja athygli á því að ábyrgðarsvið frv. er tiltölulega vítt. Það kemur fram í 1. gr. þess hvers konar tjón er bætt samkvæmt þessu frv. Það nær yfir mjög víðtækt tjón, líkamlegt eða geðrænt í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð og síðan er talið upp á hvers konar stofnunum það er og það virðist vera mjög vel tryggt.

Auk þess er líka mikilvægt að þeir sem gangast undir læknisfræðilega tilraun sem ekki er liður í sjúkdómsgreiningu eða meðferð á sjúkdómi, eru líka tryggðir samkvæmt þessu frv. og eins líffæragjafar eða þeir sem gefa vef, líffæri, blóð eða annan líkamsvökva. Þeir eiga sama rétt og sjúklingar samkvæmt lögum þessum og það er ekki síður mikilvægt vegna þess að auðvitað getur í slíkum tilvikum líka komið upp eitthvað sem veldur tjóni.

Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, um mikilvægi þess að þeir sem vinna að heilbrigði fólks séu skilgreindir heilbrigðisstarfsmenn hvort sem það eru tannsmiðir eða aðrir. Það opinberast mjög í þessu máli hversu mikilvægt er að þetta sé tryggt vegna þess að heilbrigðisstarfsmenn lúta ákveðnum reglum. Þeir bera ákveðna ábyrgð lögum samkvæmt og búa kannski við strangari siðareglur líka en margar aðrar stéttir og það er mjög mikilvægt að allir þeir sem sækja heilbrigðisþjónustu í einhverjum mæli njóti sama réttar. Samkvæmt þessu frv. eru það einungis heilbrigðisstarfsmenn sem geta verið bótaskyldir en ekki iðnaðarmenn hvort sem það eru tannsmiðir eða aðrir.

Ég kom hér aðallega til þess að tala um 3. mgr. 3. gr. í frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Bætur samkvæmt lögum þessum greiðast ekki ef rekja má tjón til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.``

Í greinargerð eða athugasemdum með frv. er síðan tekið fram að slíkt tjón falli undir lög um skaðsemisábyrgð þannig að verði sjúklingur fyrir tjóni og almenn skilyrði bótaskyldu eftir frv. eru fyrir hendi á hann bótarétt þótt lyf sé orsök tjónsins.

Tekið er fram að norrænar sjúklingatryggingar taki jafnan ekki til tjóns af völdum lyfja heldur hafi þar verið komið á fót sérstökum lyfjatjónstryggingum sem greiði bætur fyrir líkamstjón af völdum skaðlegra eiginleika lyfja. Lyfjatjónstryggingarnar eru hliðstæðar sjúklingatryggingu og bera framleiðendur og innflytjendur lyfja kostnað af þeim með iðgjöldum til vátryggingafélaga sem annast hana.

Það er jafnframt tekið fram í athugasemdum með frv. að þótt tjón vegna eiginleika lyfs falli yfirleitt undir lög um skaðsemisábyrgð auk þess sem tjón af völdum lyfja getur undir tilgreindum kringumstæðum fallið undir ákvæði laga um sjúklingatryggingu munu þrátt fyrir þetta einhver lyfjatjón hvorki falla undir lögin um skaðsemisábyrgð né lögin um sjúklingatryggingu. Reyndar skoðuðum við þetta aðeins í meðförum nefndarinnar. Við höfðum því miður ekki tíma til þess að fara ítarlega ofan í þennan þátt en við það að skoða lögin um skaðsemisábyrgð, sýndist manni í fljótu bragði að þar væri aðallega um að ræða ábyrgð ef um ágalla á lyfi væri að ræða og það er spurning hvort eitthvert gat sé þarna á milli.

Við ákváðum samt sem áður í nefndinni að vera ekki að stöðva málið vegna þessa vegna þess að í því felst mikil réttarbót eins og það er. En ég held að það sé mjög mikilvægt að vekja athygli á þessu við umræður. Ég vil bara taka undir það sem segir í athugasemdum ráðuneytisins með þessu frv., að það eru ýmis rök sem mæla með því að samhliða sjúklingatryggingu verði stofnað til lyfjatjónstrygginga hér á landi á sambærilegan hátt og í nágrannalöndunum. En með slíkri löggjöf mundu bætur fyrir hvers kyns tjón af völdum eiginleika lyfja vera tryggðar.

Úr því að hæstv. heilbrrh. er hér stödd að hlýða á umræðurnar þá vildi ég gjarnan spyrja hvort verið sé að vinna að því innan heilbrrn. að setja slíka löggjöf og hvort hæstv. heilbrrh. sé tilbúinn til að beita sér fyrir því. Tónninn í athugasemdum með frv. virðist vera þannig. Það er a.m.k. tekið fram að ýmis rök mæli með því að slík trygging sé sett, þ.e. lyfjatjónstryggingin. Það væri gaman að heyra hvort hafinn sé undirbúningur að þessu innan heilbrrn.