Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 12:39:33 (7554)

2000-05-12 12:39:33# 125. lþ. 117.5 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, Frsm. 2. minni hluta MF
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[12:39]

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem er á þskj. 1263 og undirritað af þeirri sem hér stendur ásamt hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, en þar segir, með leyfi forseta:

Ljóst er að skuldastaða Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar getur breyst verulega frá því sem áætlað er vegna umfangsmikilla byggingaframkvæmda og endurbóta sem standa yfir og fyrirhugaðar eru á næstu árum. Gert er ráð fyrir að kostnaður verði hátt á fjórða milljarð króna og er þá aðeins um að ræða fyrsta áfanga framkvæmdanna. Svipaður kostnaður er áætlaður vegna framkvæmda næstu ára. Stofnframkvæmdir við flugstöðina árið 1987 fóru langt fram úr kostnaðar\-áætlunum og nam umframkostnaður a.m.k. 1 milljarði kr. Hlutafélag það sem frumvarpið gerir ráð fyrir að stofnað verði um rekstur flugstöðvarinnar á að taka við öllum skuldbindingum vegna hennar, fyrirliggjandi skuldbindingum, hátt í 5 milljarða kr., og þeim sem gerðar verða við yfirstandandi og fyrirhugaðar framkvæmdir.

Annar minni hluti telur eðlilegt að ákvarðanir um rekstrarform Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar verði látnar bíða þess að endanlegur kostnaður við fyrsta áfanga framkvæmdanna liggi fyrir. Nauðsynlegt er að ljóst sé strax í upphafi hver fjárhagsleg umgjörð hugsanlegs hlutafélags verði og um leið möguleikar þess til að standa skil á áhvílandi skuldbindingum. Of margt er óljóst í þeim efnum og einnig hvað varðar stöðu starfsfólks eftir áformaða hlutafélagavæðingu flugstöðvarinnar.

Í ljósi þessa munu fulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

Virðulegi forseti. Frv. kom seint fram á þessu þingi eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi og við teljum að athuga þurfi ýmsa þætti betur hvað varðar þær forsendur sem liggja til grundvallar þessari breytingu. Auk þess sem nefnt er í nál. frá 2. minni hluta hvað varðar kostnað vegna byggingaframkvæmda og endurbóta sem nú standa yfir og alls ekki sér fyrir endann á hver heildarkostnaðurinn verður, því hér er aðeins um að ræða 1. áfanga framkvæmdanna en síðari áfangar sem fara á í á næstu árum munu einnig hafa í för með sér verulegan kostnað, sem e.t.v. má gera traustari áætlanir um þegar fyrir liggur endanlegur kostnaður vegna 1. áfanga, þá er ljóst að verulegur kostnaður fellur einnig til vegna aðildar okkar að Schengen-samstarfinu og gert er ráð fyrir að sá kostnaður greiðist úr ríkissjóði þó þess sé ekki getið í frv. sjálfu, en það kemur hins vegar skýrt fram í þeim umsögnum sem okkur bárust og þeirri umfjöllun sem var um þetta frv. í hv. utanrmn.

En í umsögn Flugleiða vitna þeir til bréfs sem utanrrh. sendi Flugleiðum 9. maí 1996 þar sem staðfest var að ríkissjóður mundi greiða stofnkostnað og rekstrarkostnað er leiddi af Schengen-samstarfinu og engar fyrirætlanir væru um að leggja á viðbótargjald vegna Schengen-samkomulagsins. Ljóst er að af hálfu Flugleiða er lögð afar þung áhersla á að staðið verði að fullu og til framtíðar við þessa yfirlýsingu óháð því hvaða rekstrarform verði valið fyrir Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Þess er einnig getið sérstaklega í þessari umsögn þar sem eru athugasemdir við 13. og 14. gr. frv., að þar sé ekki minnst á þær skuldbindingar sem fylgja ákvörðun um aðild Íslands að Schengen-samstarfinu, þar sem eðlilegt hefði verið að þær kæmu fram.

Við þingmenn Samfylkingarinnar teljum eðlilegri og betri vinnubrögð að bíða þess að heildarkostnaður liggi ljós fyrir eins og áður sagði þegar ákvörðun er tekin um að breyta rekstrarformi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Í skýrslum sem lágu fyrir utanrmn. kom fram að breytingar á rekstrarformi starfsemi eins og þeirrar sem hér um ræðir, hafa verið gerðar í löndum í kringum okkur og í flestum tilvikum er um hlutafélög að ræða. Það má vel til sanns vegar færa að til bóta sé að breyta rekstrarforminu og það ber að skoða. En þá þarf að vanda undirbúninginn og ganga að fullu frá þeim breytingum sem gera þarf, a.m.k. að ljúka 1. áfanga þeirra framkvæmda sem þarf að fara í til þess að geta betur en ella gert sér grein fyrir þeim kostnaði sem framkvæmdirnar hafa í för með sér og hvernig áætlað er að mæta þeim kostnaði á næstu árum, því hlutafélagi ef af yrði.

Þá hefur þessi fyrirhugaða breyting ekki verið skoðuð nægjanlega vel með tilliti til samkeppnissjónarmiða eða þeirra ákvæða núgildandi samkeppnislaga eða ákvæða frv. til samkeppnislaga sem áætlað er að afgreiða hér á næsta sólarhring. Það segir sig sjálft að þegar eitt félag á húsnæði, sér um rekstur þess, og á að hluta verslunarreksturinn, þess verðmætasta eins og kemur fram í þeim umsögnum sem nefndinni bárust, ásamt því að leigja út hluta húsnæðisins til annarra sem stunda verslunarrekstur, þá getur slíkt fyrirkomulag brotið í bága við ákvæði samkeppnislaga. Það kemur mjög skýrt fram í umsögn sem Íslenskur markaður sendi hv. utanrmn. einmitt um samkeppni eftir stofnun hlutafélags þar sem fjallað er um það í nokkrum köflum í umsögn þeirra. Í fyrsta lagi við stofnun félagsins sem menn gera ekki athugasemdir við. Íslenskur markaður segir um stofnun félagsins sjálfs, með leyfi forseta:

[12:45]

,,Við gerum engar sérstakar athugasemdir við að stofnað skuli hlutafélag um rekstur flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, enda höfðu forsvarsmenn Íslensks markaðar hf. frumkvæði að umræðu fyrir nokkrum árum um að slíkt ætti að gera. Það sem hins vegar gengur ekki upp frá okkar bæjardyrum séð, er að fyrirhugað hlutafélag skuli einnig ná til Fríhafnarinnar. Fyrir því eru nokkrar ástæður og þessar eru helstar:

Þegar efnt var til útboðs á verslunarrekstri í flugstöðinni fyrir tveimur árum síðan var allur slíkur rekstur nema Fríhafnarinnar boðinn út. Þetta þótti á þeim tíma einkennileg ákvörðun og ákveðin mismunun á rekstri þeirra tveggja verslana sem reknar höfðu verið í flugstöðinni um áratuga skeið. Önnur var sett í útboð en hin ekki.

Það sem fylgdi í kjölfarið var að ákveðin samkeppni var leyfð í húsinu, en það hafði ekki viðgengist áður. Íslenskur markaður hf. hóf t.d. sölu á vöruflokkum sem Fríhöfnin hélt áfram að selja. Þessi samkeppni hefur síðan reynst mjög ójöfn þar sem fyrirtækin greiða ekki leigu eftir sömu reglum, og hafa búið við gjörólík rekstrarskilyrði að öðru leyti þar sem Fríhöfnin er B-hluta ríkisfyrirtæki en Íslenskur markaður hf. er hlutafélag og greiðir skatta og skyldur eins og önnur slík. Þá var búið þannig um hnútana að Fríhöfnin hélt einkasöluleyfi á 75% af allri sölu í flugstöðinni, þar með talinni sölu á þremur verðmætustu vöruflokkunum sem eru áfengi, tóbak og snyrtivörur. Enda kom síðar í ljós að breytingin hafði sáralítil áhrif á sölu Fríhafnarinnar.``

Síðan er rakið í umsögn þeirra hver leigukjör Fríhafnarinnar eru og talið að Fríhöfnin greiði óeðlilega lága leigu. Einnig er bent á að þær verslanir sem selja ,,verðmætustu vöruflokkana`` í erlendum flugstöðvum greiði mun hærri leigu en aðrir. Í því sambandi er talað um 25--50% hærri leigu. Ef svo væri í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ætti Fríhöfnin að greiða á bilinu 500--600 millj. kr. í leigu á ári, ef tekið væri mið af því að Fríhöfnin hefur þessa verðmætu söluvöru sem um getur í þessari umsögn og reyndar er minnst á í öðrum umsögnum.

Síðan er kafli sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ítarlega yfir, þ.e. um samkeppnina eftir stofnun hlutafélags og um að þarna væri um mjög ójafnan leik að ræða.

Við teljum mikla þörf á að skoða betur frv. sem hér er til umfjöllunar með tilliti til gildandi ákvæða í samkeppnislögum og einnig þeirra breytinga sem áformað er að gera á þeim. Þess vegna hefði verið eðlilegt að láta frv. liggja og skoða það betur fram á haust, en til þess er ekki vilji, eða virðist ekki vera, innan utanrmn. Einnig komu athugasemdir frá ákveðnum aðilum sem láta sig þessi mál miklu varða og snerta þá beint en ekki hafði verið beðið um umsagnir frá. Þeir urðu að sækja eftir því sérstaklega að fá að veita umsagnir um frv. Það er dálítið mikill hraði á þessu máli miðað við að enn eru mörg vafaatriði sem þarf að okkar mati að ræða miklu betur.

Við breytingar á rekstrarformi stofnana eða fyrirtækja sem hafa verið í höndum hins opinbera, hvort sem um er að ræða ríki eða sveitarfélög, þarf að vanda sig sérstaklega þegar kemur að réttindum þeirra starfsmanna sem hjá viðkomandi stofnunum eða fyrirtækjum starfa. Það þarf að tryggja að á engan hátt sé gengið á áunninn rétt eða starfsaðstæður starfsmanna. Samráð við starfsmenn vegna breytinganna er þess vegna nauðsynlegt og afar mikilvægur liður sem alls ekki má verða út undan í undirbúningi breytingar á rekstrarformi. Við þingmenn Samfylkingarinnar teljum að þar hafi ekki verið staðið nægjanlega vel að verki í undirbúningi málsins. Við teljum að það hafi valdið ákveðnu óöryggi meðal starfsmanna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og höfum orðið áþreifanlega vör við það á þeim fundum sem við höfum átt þar. Samstarf á undirbúningstímanum er nauðsynlegt en starfsmenn þurfa einnig að fá hlutdeild í stjórn þessa fyrirtækis. Þó að hægt sé að taka undir þau sjónarmið sem koma fram í áliti hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, um nauðsyn þess að samgrh. skipi fulltrúa í stjórnina og jafnvel að hann fari með stjórn þessa fyrirtækis, þá teljum við mun mikilvægara að núverandi starfsmenn fái fulltrúa í stjórninni og þannig eigi það að vera í hverju því fyrirtæki sem hið opinbera rekur. Hvort sem um er að ræða hlutafélög eða önnur rekstrarform teljum við sjálfsagt og eðlilegt að starfsmenn komi að stjórn fyrirtækja. Það er auðvitað mjög mikilvægt á tímum breytinga á starfsemi flugstöðvarinnar og þess vegna höfum við lagt fram á sérstöku þingskjali brtt. þess efnis, þ.e. um aðild starfsmanna að stjórn þessa fyrirtækis.

Það kom einnig fram í umsögn sem stjórn Flugleiða sendi inn til utanrmn. að fleiri gera tilkall til þess að fá aðild að þessari stjórn. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Jafnframt þarf að taka tillit til þess að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem þjónar svo til öllum flugfarþegum sem koma til eða fara frá Íslandi, er í eðli sínu stofnun með algjöra einokunaraðstöðu. Því er eðlilegt að gerð verði krafa um að í stjórn hennar sitji einn eða fleiri fulltrúar sem þar geti gætt hagsmuna flugrekenda, flugfarþega og annarra viðskiptavina flugstöðvarinnar.``

Vera má að fulltrúi samgrn. gæti í þessu tilviki gætt sjónarmiða þeirra hópa sem hér um ræðir. Þannig er hægt að taka undir þau sjónarmið sem komu fram áðan hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Í annarri umsögn sem mér finnst sjálfsagt að geta um hér, þar sem fram kemur stuðningur við það að starfsmenn eigi fulltrúa í stjórn, í umsögn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, segir um þetta mál í heild sinni, með leyfi forseta:

,,Vandséð er að hlutafélagavæðing Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar geti orðið til hagsbóta fyrir íslenska skattgreiðendur eða notendur stöðvarinnar.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar og öll sú starfsemi sem þar hefur verið rekin hefur gefið ríkissjóði drjúgan arð og gæti komið til með að gera það um langan tíma. Þar ber ekki síst að nefna sölu á áfengi sem BSRB telur að eigi að vera á vegum ÁTVR eða samkvæmt sama fyrirkomulagi og nú tíðkast í flughöfninni á Keflavíkurflugvelli og er á vegum opinberra aðila. Auðséð er að einkavæðing flughafnarinnar mun skerða tekjur ríkissjóðs þegar fram líða stundir.

Ljóst er að fyrirhugað hlutafélag á Keflavíkurflugvelli verður einokunarfyrirtæki. Einokun fyrirtækis á markaði er að því leyti frábrugðið ríkiseinokunarfyrirtæki að fyrirtækið er ekki háð forsjá almannavaldsins og því er með þessari ráðstöfun verið að þrengja að lýðræðinu í landinu.

Geri Alþingi alvöru úr því að gera flugstöðina að hlutafélagi og selji það síðan, en þegar á þessari stundu er það ekki útilokað af hálfu ríkisstjórnarinnar, þá er grundvallaratriði að áður verði tryggilega gengið frá réttindamálum starfsmanna í samningum við SFR, stéttarfélag þeirra. Því miður hefur ekki tekist sem skyldi í þeim efnum í stofnunum sem gerðar hafa verið að hlutafélögum.

BSRB leggst gegn frumvarpinu.``

Undir umsögnina ritar Svanhildur Halldórsdóttir fyrir hönd BSRB.

Virðulegi forseti. Út af fyrir sig ætti að vera útlátalítið fyrir hæstv. ríkisstjórn og þingmeirihlutann að samþykkja þá brtt. sem við hv. þm. Samfylkingarinnar, Jóhann Ársælsson og sú sem hér stendur, höfum lagt fram, um að starfsmenn skuli eiga einn fulltrúa í henni. Þetta er tillaga um að við lokamálslið 12. gr. bætist: ,,og skulu starfsmenn eiga einn fulltrúa í henni``, þ.e. stjórn fyrirtækisins.

Þetta teljum við skipta höfuðmáli ef af því verður að þetta frv. verði samþykkt og afgreitt hér, sem okkur sýnist allt stefna í. Ég tek sannarlega undir þau sjónarmið sem hér komu fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, frsm. álits 1. minni hluta utanrmn., að það hefði verið eðlilegra að vinna málið betur, taka það fyrir á haustþingi og gefa því betri tíma. Fyrir því virðist ekki vera vilji en við vonumst til þess að þingmenn samþykki þessa litlu brtt. sem skiptir svo miklu þó hún sé ekki stór í sniðum. Samstarf við starfsfólk er nauðsynlegt og það er örugglega framtíð þessa fyrirtækis til góðs að hafa starfsmenn með í ráðum hvað sem öllum breytingum á rekstrarformi líður.