Afbrigði

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 13:40:17 (7561)

2000-05-12 13:40:17# 125. lþ. 117.94 fundur 534#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), utanrrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[13:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið til umfjöllunar á Alþingi svo lengi sem ég hef setið hér sem er að verða aldarfjórðungur og hefur aldrei hlotið afgreiðslu þannig að ekkert er nýtt undir sólinni í sambandi við þetta mál. Það ætti í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart. Enda ekkert óeðlilegt við það að mínu mati þó það komi til umfjöllunar hér á Alþingi. Ég er samþykkur því að það gerist. Auðvitað er það í höndum Alþingis hvort það verður afgreitt á þessu þingi.

Ég kom hingað upp fyrst og fremst til að taka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Við erum ekki alltaf sammála en ég er honum innilega sammála um að kjör forseta Íslands sem eiga að sjálfsögðu að vera góð eru í höndum Kjaradóms. Þau eru algerlega óháð úrskurðum um kjör annarra. Ef þessi breyting verður gerð verður Kjaradómur að fjalla um kjör forseta Íslands að nýju. Það er eðlilegt enda hefðu þá forsendur breyst. En að það leiði til þess sérstaklega að farið verði að fjalla af því tilefni um kjaramál ráðherra og alþingismanna er að mínu mati algerlega út í hött. Að sjálfsögðu er mikilvægt hvernig svo sem þetta mál fer á Alþingi að ljóst sé af hálfu Alþingis að það er ekki það sem Alþingi ætlast til. Við erum ekki á neinn hátt að fjalla um kjör annarra en kjör forseta Íslands og það er ekki Alþingis að ákveða þau. Ef þetta verður samþykkt þá er það Kjaradóms að gera það á nýjum forsendum.