Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 14:35:32 (7575)

2000-05-12 14:35:32# 125. lþ. 117.5 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, Frsm. 1. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[14:35]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég er ánægður með að hæstv. ráðherra svarar og svarar skýrt. Um innihaldið eða efnið fer svo eftir atvikum. Sumu er ég sammála en öðru ekki eins og gengur en það er alltaf mikils virði fyrir umræðuna að menn geti rætt málin.

Ég vil byrja á því sem lýtur að stjórnsýslu og fyrirkomulagi sem hæstv. ráðherra ræddi og ég fagna því að hæstv. ráðherra er þó ekki alveg fráhverfur því að þarna gætu komið til breytingar á komandi tímum, þetta þurfi ekki að vera óumbreytanlegt um aldur og ævi. Ég held að ég túlki svar ráðherrans rétt í þeim efnum. Mér finnst gott sömuleiðis, herra forseti, að hæstv. samgrh. er kominn til umræðunnar því að það var ekki síst sá þáttur sem ég vildi einnig gjarnan heyra álit hæstv. samgrh. á.

Telur ekki hæstv. samgrh. að huga þurfi að því og leita leiða hvort hægt er að færa forræði fyrir samgöngumannvirkinu sjálfu yfir til samgrn. þó að landsvæði þarna að öðru leyti verði áfram á forræði utanrrh.? Með því er í sjálfu sér á engan hátt hróflað við þeirri skipan mála að allir þættir sem lúta að samskiptum við herinn séu á einni hendi því að svo fremi sem kvöðin á flugstöðvarbyggingunni er ekki nýtt, þá er hún hreint innlent samgöngumannvirki og ekki á nokkurn hátt samskiptamál við herinn. Það eru hins vegar hlutir sem snúa að svæðinu og þjónustu á flugbrautunum og annað slíkt sem Bandaríkjamenn kosta eða beinlínis reka sjálfir.

Ég var reyndar með spurningu varðandi stjórn fyrirtækisins líka, þ.e. hvort hæstv. ráðherra gæti hugsað sér fyrirkomulagið þar öðruvísi og ég beini henni sömuleiðis að hluta til til samgrh. Ég teldi nefnilega eðlilegast að þarna væri að uppistöðu til þingkjörin stjórn. Ef það verður gert hvað sem tautar og raular að stofna hlutafélag um allan þennan rekstur yrði yfir henni þingkjörin stjórn og meginröksemdin í mínum huga er sú að þetta er eitt mikilvægasta samgöngumannvirki landsins og ég tel að þetta lúti allt öðrum lögmálum en hefðbundinn rekstur af ýmsum toga sem menn hafa verið að einkavæða að undanförnu. Það væri þó nokkurt skref í þá átt að hafa betri frið um þessi mál að þarna sæti lýðræðislega kjörin stjórn sem endurspeglaði styrkleikahlutföll í stjórnmálum landsins, og ef við hugsum okkur t.d. að það væri sjö manna stjórn sem væri þannig saman sett að fimm fulltrúar væru kosnir hlutbundinni kosningu á Alþingi og síðan eftir atvikum fulltrúi frá samgrh. eða starfsmönnum og síðan formaður sem utanrrh. skipaði án tilnefningar, þá væri þarna um að ræða blöndu sem tryggði að ráðandi meiri hluti á hverjum tíma væri með traustan meiri hluta í stjórninni en stjórnarandstaðan ætti í gegnum fulltrúa kjörna á þinginu aðild að málum. Og ætli það gæti ekki verið bara hið ágætasta fyrirkomulag til að hafa meiri frið um þessi mál, herra forseti, en ella?

Svartasta lágmark tel ég vera, ef láta á þetta stjórnarkjör fara fram alfarið á grundvelli hlutafélagalaga og eigandinn, sem í þessu tilviki er þá utanrrh., fyrir hönd ríkisins á einn að ráða stjórninni, þá teldi ég algert lágmark að samgrh. ætti eins og einn eða tvo fulltrúa samkvæmt tilnefningu inn í þá stjórn, og það er önnur eða kannski nær frekar þriðja spurning mín til hæstv. samgrh. Telur ekki hæstv. ráðherra að það væri eðlilegt fyrirkomulag?

Ég spurði einnig, og það var kannski það atriði fyrir utan þetta sem ég fékk ekki bein svör við, hvort hæstv. utanrrh. hefði hugleitt þann kost að þarna væri þá í öllu falli mögulegt að hafa fleiri en eitt hlutafélag um reksturinn ef út í þetta verður farið til þess að eiga þann möguleika a.m.k. upp á að hlaupa ef til árekstrar kemur vegna samkeppnismála að þeir þættir rekstrarins geti verið í aðskildum einingum, annars vegar húsnæðið og útleiga þess sem snýr að öllum aðilum og hins vegar sjálfur verslunarrekstur ríkisins í beinni og/eða óbeinni samkeppni við annan rekstur í húsinu. Mér finnst í rauninni með öllu ástæðulaust að negla þetta þannig niður eins og hér er gert og sé ekki annað en að þá væri a.m.k. hægt að hafa heimildarákvæði í lögunum sem opnaði þann möguleika að t.d. einangra samkeppnisþættina eða verslunarreksturinn í sjálfstæðu dótturfélagi móðurfélagsins sem væri þá handhafi eða rekstraraðili hússins.

Að öðru leyti, herra forseti, aðeins í viðbót um svör hæstv. ráðherra. Það eru mér vonbrigði að hæstv. ráðherra skuli alls ekki fást til þess að gefa neina yfirlýsingu um það að fyrir sitt leyti og hvað vilja hæstv. ráðherra varðar, teldi hann að ekki ætti að stefna þarna að breytingum á eignarhaldi og forræði ríkisins, a.m.k. ekki næstu 12--15 ár sem framkvæmdaáform ná yfir. Það þarf ekki, herra forseti, að kenna mér að kosið er í landinu á um það bil fjögurra ára fresti og við getum að sjálfsögðu ekki bundið hendur komandi stjórnmálamanna sem sitja á Alþingi eftir 10 eða 15 ár. Ég kann stafrófið í pólitík orðið það vel að ekki þarf að fræða mig um það. En hitt veit ég líka, herra forseti, að menn geta gefið pólitískar yfirlýsingar fyrir sína hönd og það var það sem ég var að spyrja um. Er hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. tilbúinn að lýsa því yfir að hann fyrir sitt leyti vilji ekki að þarna verði gerðar á breytingar? Og síðan ræðst það auðvitað á komandi árum að hvaða leyti hæstv. ráðherra verður í aðstöðu til að hafa áhrif á það og fylgja því eftir. Ég geri engar kröfur um það að hæstv. ráðherra, kominn t.d. eftir fjögur ár í minni hluta á Alþingi, verji þá það sem hann hafði áður lýst yfir en það væri þá ekki hann sem væri að breyta því, herra forseti. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig. Þetta er iðulega gert. Þegar bönkunum var breytt í hlutafélag var sett í greinargerð þess frv. að ekki stæði til að breyta eignarhaldinu næstu fjögur árin í því formi að selja beint hlutafé. Menn fóru að vísu að viðra hugmyndir um að vanefna þetta strax og það er ekki gott til eftirbreytni. En ég hefði gert nokkuð með það ef maður vandur að virðingu sinni eins og hæstv. utanrrh. er hefði gefið slíka yfirlýsingu að hann mundi þá a.m.k. reyna að standa við hana fyrir sitt leyti. Það eru mér því vonbrigði að hæstv. ráðherra skuli ekki með neinu móti vera fáanlegur til að gefa neina slíka yfirlýsingu af því að ég tel það svo fráleitt í öllu tilliti, herra forseti, ef menn eru virkilega að dekra við það á bak við tjöldin og gæla við þá hugmynd að fara að hefja einkavæðingu á þessum rekstrarþáttum og ég vitna þar hreinlega í þær alþjóðlegu skuldbindingar á sviði flugrekstrar og á okkar stöðu í þessu máli sem er mjög sérstök. Hér er um svo afdrifaríkan og afgerandi þátt í samgöngum og í rauninni okkar þjóðlífi þar sem um er að ræða eina millilandaflugvöllinn hjá þjóð sem býr úti í miðju Atlantshafi, herra forseti. Síðast þegar ég vissi var Ísland um það bil þar og er háðara millilandaflugi en líklega flestar aðrar þjóðir vegna þess að við ferðumst mikið, við erum að byggja upp ferðaþjónustu o.s.frv. Þetta er því gífurlega afdrifaríkur og mikilvægur þáttur í þjóðarbúskap okkar og þjóðlífi hvernig sem á allt er litið og á að vera á hendi ríkisins og hvergi annars staðar.

Um Schengen verð ég hins vegar að segja að ég lýsi miklum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra og það munu fleiri gera. Hjá hæstv. ráðherra kom fram að ekki stendur til að neinar beinar greiðslur komi úr ríkissjóði til að efna loforðin um að viðbótarkostnaðurinn af Schengen-aðildinni lendi ekki á ferðaþjónustunni. En það gerir hann ella og það þýðir ekkert að segja sem svo að ekki standi til neinar nýjar álögur vegna þess að nú er verið að segja að allur þessi kostnaður eigi héðan í frá að berast með notendagjöldum. Og það er reyndar ekki rétt að í forsendum málsins liggi ekki áform um auknar álögur því að í rekstraráætlun til fimm ára er gert ráð fyrir 35% hækkun á leigu í flugstöðinni. Og hverjir borga leiguna? Það eru þjónustuaðilar og m.a. flugrekendurnir. Stærsti einstaki leigutakinn í byggingunni fyrir þá utan ríkið, ef menn vilja reikna svo, er auðvitað Flugleiðir. Og hvað þýða áform um 35% hækkun á leigu annað en auknar álögur? Fyrr eða síðar verður þetta borið af notendunum með þeirri aðferðafræði, herra forseti, nema bein framlög komi úr ríkissjóði til að mæta Schengen-kostnaðinum. Það er eina aðferðin til að efna það samkomulag. Þess vegna lýsi ég mikilli undrun og miklum vonbrigðum ef þetta á að vera svarið. Vegna þess, herra forseti, að það liggur alveg í augum uppi og blasir við að öðruvísi en að bein framlög komi úr ríkissjóði til að mæta þessum kostnaði klárt og kvitt lendir hann þar sem lofað var að hann mundi ekki gera, þ.e. á þjónustuaðilum og flugrekendum. Það er bara gersamlega morgunljóst eins og fyrrv. flugmálastjóri, sem einu sinni var, gjarnan orðaði hlutina. Hann notaði mikið þessa lýsingu, herra forseti, talaði um að eitthvað lægi alveg morgunljóst fyrir og er skemmtilegt nýyrði.

Ég lýsi því yfir miklum vonbrigðum með þetta svar hæstv. ráðherra og er ekki skilinn að skiptum við þetta atriði málsins, jafnvel þó að afgreiðslu þessa frv. ljúki, því að orð skulu standa. Þegar menn hafa afdráttarlaust loforð í bréfi frá ráðuneyti þar sem stendur að sá kostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. Það er það sem stendur í bréfinu sem flugleiðamenn fengu og var notað til að kaupa þá til fylgis við Schengen-samninginn eða til þess að fá þá til að falla frá harðri andstöðu við málið. Það er alveg gjörsamlega morgunljóst. Þetta bréf hafa þeir undir höndum og þar stendur þetta, herra forseti, eins og ég áður sagði í bréfi utanrrh. til Flugleiða 9. maí 1996.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil ekki lengja umræður með tilliti til aðstæðna og anna í þinghaldinu en vonast til að fá skýrari svör og helst önnur með öðru innihaldi, en því ráða auðvitað hæstv. ráðherrar og bíð síðan eftir að heyra bæði í hæstv. utanrrh. aftur og hæstv. samgrh.