Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 14:47:41 (7576)

2000-05-12 14:47:41# 125. lþ. 117.5 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[14:47]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Verið er að bæta við flugstöðina á vegum ríkissjóðs og þar af leiðandi hefur verið staðið við það. Því hefur aldrei verið lofað að styrkur kæmi fram til flugstöðvarinnar á fjárlögum ef hv. þm. er að halda því fram. Það hefur því verið staðið við allt sem sagt hefur verið gagnvart Flugleiðum í þessu máli.

Að því er varðar hugsanlegan aðskilnað þá teldi ég það mjög óheppilegt að stofna tvö hlutafélög. Þau vandamál sem kunna að koma upp að því er varðar samkeppnismál tel ég að hægt sé að leysa á annan hátt og við munum beita okkur fyrir því.

Í sambandi við stjórn þessa fyrirtækis tel ég heppilegt að sem mestur aðskilnaður sé milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, enda hefur sú aðferð verið notuð almennt í málum sem varða hlutafjárvæðingu ríkisfyrirtækja og stjórnin er þá á ábyrgð viðkomandi ráðherra. Hitt er svo annað mál að ég sem utanrrh. hef haft samráð um þessi mál við ríkisstjórnina og sérstaklega hæstv. samgrh. og ég mun að sjálfsögðu halda því áfram, bæði að því er varðar stjórn þessa fyrirtækis og byggingu þessa mikla mannvirkis að öðru leyti.