Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 14:55:08 (7580)

2000-05-12 14:55:08# 125. lþ. 117.5 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon beindi spurningum til mín í ræðu sinni um leið og hann gagnrýndi það fyrirkomulag sem er á skipan stjórnar í væntanlegu hlutafélagi um flugstöðina.

Hér er um að ræða stjfrv. sem verið er að fjalla um og um það fyrirkomulag sem hér er gert ráð fyrir er fullkomið samkomulag milli stjórnarflokkanna. Ég hef sem samgrh. ekki gert nokkrar athugasemdir við það fyrirkomulag. Þetta er það sama og er t.d. hjá Landssíma Íslands hf. Um stefnu ríkisstjórnarinnar er að ræða og engar athugasemdir af minni hálfu eru gerðar við það að sjálfsögðu.

Að samgrn. komi einhvern veginn að þessum málum innan Keflavíkurflugvallar, eins og hv. þm. nefndi, þá vil ég bara minna á að um þetta gilda lög og eins og fram kom hjá hæstv. utanrrh. fer utanrrh. þarna með margs konar málefni innan svæðisins, samgöngumálefni einnig. Á meðan þau lög eru í landinu geri ég engar kröfur um landvinninga á þessu svæði. Hins vegar kæmi ekkert á óvart þó að einhverjar umræður yrðu á næstu árum að gera þarna breytingar, ekki síst ef innanlandsflug verður lagt af með öllu á Reykjavíkurflugvelli og innanlandsflugi ætlað að koma upp aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Það mætti því búast við umræðum um þetta. En lögin eru skýr og verkaskiptingin alveg klár.