Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 14:57:32 (7581)

2000-05-12 14:57:32# 125. lþ. 117.5 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hæstv. samgrh. ekki vera alveg nógu metnaðarfullur í þessu máli. Mér finnst að það eigi eiginlega að vera embættisskylda allra samgrh. að hafa það sem markmið að ná forræði þessa mikilvæga samgöngumannvirkis í sínar hendur. Ég væri eindreginn stuðningsmaður hæstv. samgrh. í því og var að vonast til þess að ég gæti bara gerst liðsmaður hans í framhaldi af því að hann lýsti áhuga sínum á að breyta þessu fyrirkomulagi því að það er til vandræða og er vitlaust, að eitt mikilvægasta samgöngumannvirki og í rauninni má sjálfsagt segja mikilvægasta einstaka samgöngumannvirki þjóðarinnar sé í reiðileysi hjá utanrrh. en ekki hjá samgrh. Ég tek undir þau rök sem hæstv. ráðherra nefndi að tenging innanlandsflugs við millilandaflugið er t.d. ein mjög góð ástæða fyrir því að þetta þyrfti að vera á sömu hendi.

Ég nefni í öðru lagi mögulegt hlutverk annarra flugvalla í landinu í millilandaflugi. Það gæti vel átt eftir að reynast mjög hagstætt að stjórnvöld reyndu að stuðla að því að dreifa því eitthvað og byggja það upp víðar þannig að t.d. flugvellir eins og Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur fengju þarna eitthvert hlutverk. Um leið væri ferðaþjónustan styrkt því að augljóst er að það stendur henni fyrir þrifum að allir ferðamenn til og frá landinu þurfa að koma og fara um þennan sama blett landsins og með því t.d. að þeir gætu komið inn á einum stað og farið á öðrum væru strax opnaðir nýir möguleikar í ferðaþjónustunni. Um þetta eru flestir sammála. En þessi hroðalega miðstýrða uppbygging stendur okkur fyrir þrifum og verður þeim mun bagalegri sem ferðamannafjöldinn í landinu verður meiri. Til þess að hafa yfirsýn yfir þessa hluti og hafa þá á einni hendi þyrfti þetta mannvirki að vera á forræði samgrh. og ég vona að hreyfing komist á þetta mál. Ég mun reyna að halda hæstv. ráðherrum við efnið því að þeir hafa þó gefið báðir svona lítils háttar ádrátt um það að hugsanlega kunni þetta að breytast einhvern tíma í framtíðinni.