Mat á umhverfisáhrifum

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 15:47:37 (7592)

2000-05-12 15:47:37# 125. lþ. 117.12 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KF
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[15:47]

Katrín Fjeldsted:

Virðulegi forseti. Þá er komið að þeim lokapunkti í starfi umhvn. að skila af sér áliti um frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum sem er endurskoðun á núgildandi lögum frá 1993. Hv. umhvn. hefur sett í þetta frv. mikla vinnu og gert það að sjálfsögðu með glöðu geði því að málefnið er mikilvægt. Víða eru gerðar málamiðlanir má segja til að ná því marki að umhvn. gæti skilað sameiginlegu áliti en ég tel mikilvægast að rödd þingsins sé skýr og almenningi sé ljóst að vel hafi verið staðið að verki. Ég tel þess vegna að það megi tíðindum sæta að umhvn. skuli skila sameiginlegu áliti.

Mati á umhverfishrifum er sérstaklega ætlað að leiða í ljós hvort framkvæmdir á landinu skaði umhverfið þannig að ljóst sé hverju er fórnað sé farið í framkvæmdir. Mat á umhverfisáhrifum er ekki til að hindra framkvæmdir í sjálfu sér heldur er matið gert af fagmönnum, mönnum með bestu mögulega yfirsýn, að bestu manna yfirsýn má segja, til að hægt sé að vita fyrir fram hvaða áhrif framkvæmdir geta haft og tekið sé tillit til þess þegar endanleg ákvörðun er tekin um að fara í þær.

Með frv. sem liggur fyrir er matsferlið svokallaða einfaldað, það er gert skilvirkara auk þess sem aðkoma almennings er aukin. Það er mjög mikilvægt að almenningur í landinu og þar með talin frjáls félagasamtök komi sem fyrst að umræðu um álitamál sem geta varðað umhverfið.

Miklar umræður urðu í þjóðfélaginu undir lok sl. árs þegar upp risu alvarlegar deilur um það hvort Fljótsdalsvirkjun skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum. Fram að þeim tíma hafði þjóðinni kannski ekki verið alveg ljóst hvað mat á umhverfisáhrifum táknaði en ég held að engum hafi dulist það eftir að þær umræður höfðu staðið yfir og hvert mannsbarn vissi meira og minna hvað um var að ræða.

Deilurnar skiptu þjóðinni í tvær fylkingar og víðtækur stuðningur virtist vera um það í þjóðfélaginu að Alþingi beitti eigin leikreglum en ekki lagakrókum. Sú staðreynd og þær deilur leiddu okkur fyrir sjónir hve nauðsynlegt er að ný lög um mat á umhverfisáhrifum yrðu þannig úr garði gerð að sátt mætti ríkja um þau. Í vetur bar ítrekað á góma þá lagatúlkun hvort virkjanir sem leyfi hefðu hlotið frá Alþingi samkvæmt fyrri lögum gætu talist undanþegnar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum frá 1993, einkum vegna þess að margir álíta að endanlegt leyfi þurfi að liggja fyrir til þess að svo megi verða. Hvað var þá þetta endanlega leyfi? Um það var deilt.

Sé framkvæmdaleyfi sem sveitarstjórn veitir --- og í tilfelli Fljótsdalsvirkjunar þá sveitarstjórn Fljótsdalshrepps --- endanlegt leyfi fyrir þeirri virkjun er vitað að það liggur enn ekki fyrir. Dómsmál hafa orðið í svipuðum málum í Evrópu og niðurstaða þeirra orðið á þann veg að a.m.k. er um vafaatriði að ræða. Hvaða virkjanir höfðu þá verið heimilaðar samkvæmt fyrri lögum? Hvaða virkjanir hafa leyfi frá Alþingi og gætu þar með talist undanþegnar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt núgildandi lögum og samkvæmt þessu frv. í einu af bráðabirgðaákvæðunum, en þar er verið að framlengja um tvö og hálft ár þær undanþágur sem veittar hafa verið í núgildandi lögum?

Í svari iðnrh. við fsp. frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni á síðasta ári eru taldar upp virkjanaframkvæmdir sem heimildir eru fyrir samkvæmt lögum, settum fyrir 21. maí 1993, og ekki hafa komið til framkvæmda. Þar er um að ræða lög um raforkuver, nr. 60/1981, og ýmis sérlög. Nefna má lög nr. 92/1947, lög nr. 34/1949, lög nr. 12/1951 og lög nr. 65/1956. Lög þessi eru enn í gildi þótt komin sé meira en hálf öld síðan þau voru sett flest. Í þeim er að finna ýmsar heimildir sem sumar hverjar eru ónýttar. Þær heimildir eiga það reyndar sameiginlegt að vera til smárra virkjanahugmynda sem flestar hafa verið aflagðar eins og sagði í svari iðnrh.

Með lögum nr. 26/1977 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að veita Andakílsárvirkjun sf. leyfi til þess að reisa og reka vatnsaflsstöð við Kljáfoss í Hvítá í Borgarfirði. Virkjunin hefur ekki verið reist. Í 4. gr. laga um sjóefnavinnslu á Reykjanesi, nr. 62/1981, segir að iðnrh. geti heimilað Sjóefnavinnslunni hf. að reisa og reka raforkuver allt að 10 megavatta stærð í tengslum við starfrækslu fyrirtækisins. Sú heimild hefur aðeins verið nýtt að litlum hluta.

Í lögum um raforkuver, nr. 60/1981, er heimild til Landsvirkjunar að stækka Hrauneyjafossvirkjun og Sigölduvirkjun. Framkvæmdir á grundvelli þessarar heimildar eru ekki hafnar. Í sömu lögum er ríkisstjórninni veitt heimild til að semja við Landsvirkjun um að reisa og reka Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun og Villinganesvirkjun. Einnig er heimild til að reisa og reka jarðvarmavirkjanir til raforkuframleiðslu á háhitasvæðum eða stækka slík orkuver og einnig að stækka Búrfellsvirkjun. Loks er heimild til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum og er sú heimild enn ekki fullnýtt.

Herra forseti. Með þessari upptalningu tek ég ekki afstöðu með eða á móti einstaka virkjunum. Ég tel þær upp einungis til að sýna fram á að nægur undanþágutími hafi verið veittur nú þegar. Þess vegna tel ég að snúa beri við blaði og hefja nýjan kafla í umhverfismálum þjóðarinnar og láta sólarlagsákvæði sem fram kemur í bráðabirgðaákvæði með frv. um mat á umhverfisáhrifum verða stutt þannig að t.d. frá næstu áramótum verði farið að lögum um mat á umhverfisáhrifum um allar framkvæmdir sem undir lögin ættu að heyra eðli máls samkvæmt.

Núverandi frv. er byggt á tilskipun Evrópusambandsins og ber Íslandi því að taka efni tilskipunarinnar upp í lög. Tilskipunin er endurskoðun á fyrri tilskipun sem núgildandi lög byggja á. Lögin frá 1993 hafa verið umdeild, einkum þó sú geðþóttaafstaða að sniðganga þau í mikilvægu máli eins og Fljótsdalsvirkjun og hefur margumrætt bráðabirgðaákvæði í núgildandi lögum einkum vakið tortryggni. Ég ætla ekki að rifja frekar upp þau átök sem urðu í þinginu og í þjóðfélaginu um kröfuna sem almenningur setti fram og margir þingmenn settu fram, þar með tveir stjórnarþingmenn, sú sem hér stendur og hv. formaður umhvn., Ólafur Örn Haraldsson, að Fljótsdalsvirkjun yrði látin sæta mati á umhverfisáhrifum og ég hef þegar rakið skoðun mína á því í þinginu í ítarlegu máli svo öllum má vera hún ljós.

Tilskipanir Evrópusambandsins um mat á umhverfisáhrifum byggjast á þeirri vinnu sem fram fór og þeim samþykktum sem voru gerðar á alheimsráðstefnu um umhverfismál í Ríó. Þar var gengið út frá ýmsum meginreglum, varúðarreglunni, mengunarbótareglu, reglu um verndarsjónarmið, reglu um að mengun sé upprætt við upptök sín, en einnig um rétt komandi kynslóða og sú regla gleymist oft í upptalningunni. Í frv. sem hér liggur fyrir eru 20 lagagreinar, fjögur ákv. til brb. og þrír ítarlegir viðaukar. Umhvn. þingsins stendur einhuga að efni frv. og sendir frá sér sameiginlegt nál. þótt fyrirvarar séu gerðir við örfá atriði.

Bent hefur verið á, og að því kom hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson í ræðu sinni áðan, að í skilgreiningu á orðinu umhverfi í frv. hafi fallið út fyrir misgáning það sem stendur í núgildandi lögum um samvirkan þeirra þátta sem þar eru upp taldir eða voru upp taldir í núgildandi lögum. Og þingmaðurinn lagði fram brtt. um að bæta úr þessu með viðbót við 9. gr.

Þær greinar í frv. sem helst má segja að ágreiningur hafi staðið um innan nefndarinnar og lýsir sér og kemur fram í fyrirvörum í nál. eru aðallega hvað varðar 11. gr. og síðan bráðabirgðaákvæði I og ætla ég að gera þessi atriði að umtalsefni.

Í 11. gr. frv. er tiltekið, þar sem verið er að fjalla um úrskurð Skipulagsstofnunar, að hefjist framkvæmdir ekki innan tíu ára frá úrskurði Skipulagsstofnunar skuli stofnunin ákvarða hvort mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar skuli fara fram að nýju samkvæmt lögunum.

Þegar ég lít til baka yfir ævi mína finnst mér tíu ár líða eins og örskot en ég átta mig þó á því að í umhverfismálum má segja að eitt ár sé langur tími vegna þess að breytingar eru svo örar á alþjóðavettvangi og til allrar hamingju líka á Íslandi, við erum ekki meira eyland en það. Mér fannst þess vegna mjög athugandi að stytta þennan tíma úr tíu árum í fimm ár en með bráðabirgðaákvæði sem bætt hefur verið við frv. þar sem kveðið er á um að umhvrh. skipi nefnd til að fara ofan í lögin og endurskoða þau innan tveggja og hálfs árs finnst mér það nægja til þess að mæta óánægju minni með þennan langa tíma vegna þess að nefndinni er þá í lófa lagið að leggja til breytingu á þessum tíma.

[16:00]

Annað atriði, sem ég nefndi hér áðan, er ákv. til brb. I þar sem segir að áfram skuli undanþiggja þær framkvæmdir sem undanþágu höfðu samkvæmt núgildandi lögum í tvö og hálft ár enn. Mér finnst það óþarflega langur tími fyrir lagaskil, sérstaklega í ljósi þeirrar öru þróunar sem á sér stað í umhverfismálum. Þess vegna hefði mér þótt eðlilegt að þessi tími væri mun styttri og jafnvel bara til næstu áramóta þannig að þær framkvæmdir sem komnar eru af stað geti haldið áfram og menn hafi nokkra mánuði til að skoða stöðuna en sætti sig síðan við að ný vinnubrögð hafi verið tekin upp og mat á umhverfisáhrifum sé reglan.

Þetta náði ekki fram að ganga. En ég taldi þó í ljósi þeirra skilaboða sem þingið sendir frá sér til almennings mikilvægara að skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara um þetta atriði þó að skoðun mín hafi ekki breyst á þessu.

Nefnd sú sem upphaflega vann þetta frv. var sömu skoðunar. Hún var sett á stofn í árslok 1997 um svipað leyti og tilskipun Evrópusambandsins var að fæðast og hún lagði til að lagaskilin yrðu á miklu skemmri tíma. Nefnd þessi skilaði af sér í desember 1998. Lögin áttu samkvæmt tillögum hennar að taka gildi um miðjan mars og það átti að gefa um átta og hálfan mánuð til þess að gera hreint í málunum þannig að hefði frv. verið lagt fram þá væru þessir frestir löngu afstaðnir og við værum með hreint borð í þessum málum.

Bráðabirgðaákvæði III með þessu frv. kveður á um endurskoðun á lögunum innan tveggja og hálfs árs eins og ég sagði áðan. Það þýðir að við endurskoðun laganna er hægt að endurskoða þessa hluti sem ég nefndi nema þau tvö og hálft ár sem gefin eru í bráðabirgðaákvæði I. Endurskoðunin lýtur m.a. að því hvort skipulagsáætlanir geti komið í stað mats eða eins og ég skil ákvæðið, hvort ekki sé rétt að gera mat á umhverfisáhrifum á skipulagstíma. Sú aðferð hefur verið tekin upp í einhverjum löndum, m.a. í Danmörku og mun nú vera unnið að tilskipun um þetta efni hjá Evrópusambandinu þannig að ný tilskipun um þetta atriði er á næsta leiti. Þegar hún kemur verður okkur skylt að taka hana upp í íslensk lög. Menn eru því þarna með einhvern gálgafrest. Ég er nú þeirrar náttúru að vilja ljúka hlutunum af helst sem fyrst, illu er best aflokið og þess vegna tel ég að best hefði verið að taka þessa reglu upp strax. En þetta er augljóslega á næsta leiti og verður án efa tekið í lögin áður en langt um líður.

Ákv. til brb. um tveggja og hálfs árs frest veitir óþarflega langan frest fyrir virkjanir sem sumar hverjar gætu valdið deilum í þjóðfélaginu. Með því að undanþiggja þær í tvö og hálft ár enn er verið að hindra --- ja, hvað er verið að hindra? Það er verið að hindra að almenningur eigi aðgang að ferlinu í upphafi eins og við ætlum að gera með nýjum lögum. Þetta beinist því fyrst og fremst gegn aðkomu almennings. Það finnst mér miður og mér finnst misskilningur að gera þetta svona. Það er verið að hindra að almenningur eigi aðgang að upplýsingum til þess að koma að athugasemdum sínum og gera sér grein fyrir umhverfisáhrifum framkvæmda sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og mótvægisáhrif vegna þeirra. Það er einnig verið að hindra að fram hafi farið mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem undanþegnar eru með ákvæðinu. Það er verið að hindra að farið sé að bestu manna yfirsýn og þá er ég að tala um þá fagmenn sem vinna að mati á umhverfisáhrifum og við reiðum okkur á.

Krafa umheimsins, krafa Evrópusambandsins sem m.a. birtist í tilskipun um þetta efni nú, og krafa þorra almennings er sú að ákveðnum leikreglum sé beitt í þjóðfélaginu. Ég tel að við sem löggjafi og íslensk stjórnvöld værum best sæmd af því að fara að þeim leikreglum.

Þrátt fyrir fyrirvara þann sem ég geri í nefndarálitinu við bráðabirgðaákvæðið um þetta tveggja og hálfs árs undanþágutímabil, trúi ég því að þetta frv. verði til góðs fyrir umhverfismál á Íslandi og ég trúi því að almenningur sjái að Alþingi og ráðuneyti umhverfismála vilji að vel sé staðið að umhverfismálum hérlendis.

Ég hef rakið í máli mínu þorra þeirra framkvæmda sem samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu margnefnda eiga áfram að vera undanþegnar mati á umhverfisáhrifum nema þeim sé hrint af stað innan tveggja og hálfs árs. Fjölmargar þeirra hafa verið aflagðar og verða aldrei framkvæmdar. Um aðrar er kannski ekki ágreiningur í sjálfu sér. Mikilla upplýsinga hefur þegar verið aflað og því er engin frágangssök að láta meta þær umhverfislega á nútímalegan hátt. Standi hins vegar styr um virkjanir eða framkvæmdir í þjóðfélaginu er að mínu mati afar áríðandi að farið sé að tilskipun Evrópusambandsins, samráð haft við almenning í upphafi máls og almenningi hleypt að umræðunni á þann hátt sem núverandi frv. gerir ráð fyrir um allar aðrar framkvæmdir þannig að fengið sé fram það mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna sem reglurnar frá Ríó hvetja til, ekki síst sú sem lýtur að rétti komandi kynslóða.