Mat á umhverfisáhrifum

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 16:11:48 (7594)

2000-05-12 16:11:48# 125. lþ. 117.12 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[16:11]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Ég sagði í ræðu minni að ég væri ekki sátt við þessi tíu ár, sérstaklega vegna þess að í greininni segir að Skipulagsstofnun skuli ákvarða hvort fram þurfi að fara mat að nýju. Í mörgum tilvikum ályktar án efa stofnunin sem svo að það þurfi ekki. Þess vegna held ég að menn séu að bíta sig í þennan árafjölda fyrir misskilning.

Varðandi bráðabirgðaákvæðið um endurskoðun laganna þá sitjum við nú báðar á Alþingi, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og ég, og ég efast ekki um að við munum fylgja því eftir að þetta verði gert og það líði ekki þessi tími án þess að lögin verði endurskoðuð. Og ekki síður, eins og ég sagði í ræðu minni, þá er væntanleg innan skamms ný tilskipun frá Evrópusambandinu um alveg ný vinnubrögð í mati á umhverfisáhrifum þar sem byggt verður á því að í matið verði farið strax á skipulagsstigi. Og það er mjög vitrænt að gera það. Það hefði verið mjög skemmtilegt ef okkur hefði tekist að koma því inn í okkar frv. og geta gert það að lögum áður en við erum skyldug til þess vegna þess að það eru ágæt vinnubrögð. En a.m.k. tel ég ljóst að þessi tilskipun muni koma og ég skal persónuelga vera með í að ýta á að þetta verði endurskoðað.