Mat á umhverfisáhrifum

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 16:13:31 (7595)

2000-05-12 16:13:31# 125. lþ. 117.12 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[16:13]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir orð hv. þm. um væntanlega tilskipun, nýja tilskipun frá Evrópusambandinu. Ég bind sömuleiðis miklar vonir við hana. Þó ég treysti okkur hv. þm. Katrínu Fjeldsted afar vel og umhvn. allri til þess að standa vörð um að hnippt verði í ráðherrann þegar lögin þurfa að koma til endurskoðunar þá vil ég minna á að ekki var langt liðið af þessu þingi þegar ég fór að brýna hæstv. umhvrh. til að leggja fram frv. til nýrra laga. Og það var eins og við munum öll, herra forseti, dregið fram á elleftu stundu.

Og getgátur hafa verið hér í þinginu um að það hafi verið gert til þess að koma umræðunni um Fljótsdalsvirkjun ekki í uppnám frekar en orðið var. Eins og við vitum var frv. sem við nú erum að vinna lagt fram 22. febrúar. Það var auðvitað allt of seint og nefndin hefur haft allt of lítinn tíma. Ég er því ekki alveg viss um það, þó að öflug nefnd sé í gangi, að við náum því að koma þessu endurskoðunarákvæði í kring.

Ég auglýsi enn eftir svari frá hv. þm. við síðari spurningu minni í fyrra andsvari, um skilvirkni matsins þegar um stærri framkvæmdir er að ræða.