Mat á umhverfisáhrifum

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 16:30:38 (7599)

2000-05-12 16:30:38# 125. lþ. 117.12 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[16:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted kærlega fyrir þessar undirtektir. Hún hitti naglann á höfuðið í svari sínu. Hún tekur undir með mér og bendir á þá staðreynd að við erum í reynd að framlengja undanþágu sem gerir það að verkum að hægt verður að ráðast í framkvæmd sem ekki þarf að fara í mat á umhverfisáhrifum og getur skert Þjórsárver. Hv. þm. upplýsir að þetta gæti leitt til þess að 20--30% af verunum eyddust frá núverandi mynd. Ég hlýt auðvitað að spyrja hv. þm. stjórnarmeirihlutans, hv. formann umhvn. og varaformann umhvn.: Hvernig í ósköpunum geta þeir leyft sér að leggja hér til við þingið, eftir þær deilur sem skáru þjóðina og tættu á liðnum vetri, að framlengja framkvæmdarleyfi fyrir virkjun sem getur skert þetta mikilvæga náttúruverndarsvæði? Það er ekki hægt að bjóða þinginu upp á þetta og, herra forseti, þetta eru vinnubrögð sem eru ekki til eftirbreytni.

Það er ekki nóg, herra forseti, að spyrja eða vekja athygli hv. þm. Suðurlandskjördæmis á þessu. Það hlýtur að þurfa að spyrja handhafa framkvæmdarvaldsins, fyrst og fremst hæstv. umhvrh.: Hvað vakir fyrir ríkisstjórninni með þessu? Er hún reiðubúin til þess að koma hingað og gefa yfirlýsingu um að ekki verði ráðist í þennan síðasta áfanga virkjunar Þjórsár sem gæti leitt til þess að Þjórsárver að einhverju leyti laskist? Er hún reiðubúin til þess?

Mér finnst ekki hægt að ljúka þessari umræðu, eins og hún hefur þróast, öðruvísi en að það komi fram.