Mat á umhverfisáhrifum

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 16:35:49 (7602)

2000-05-12 16:35:49# 125. lþ. 117.12 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[16:35]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir ánægju minni með að frv. um mat á umhverfisáhrifum sem hér er komið til 2. umr. sé komið fyrir þingið á ný. Nefndin hefur skoðað málið nákvæmlega, tekið það til ítarlegrar skoðunar, fengið fjölda gesta á sinn fund og fjöldi umsagna barst nefndinni.

Eftir umræðu um Fljótsdalsvirkjun sl. haust var nefndinni vel ljóst að verulegra breytinga var þörf á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Ferlið var þannig upp byggt að það gaf tilefni til tortryggni milli framkvæmdaraðila og þeirra sem telja sig hafa hagsmuna að gæta varðandi náttúru- og umhverfisvernd. Þó ekki væri nema fyrir hugtakið ,,kæruferli`` þá gefur það neikvæða mynd af ferli sem er í eðli sínu jákvætt.

Í nefndarstarfinu kom fram að kærur sem kölluðu á mat á umhverfisáhrifum væru mun fleiri hér á landi en annars staðar. Um helmingur allra úrskurða er kærður hér á landi. Nefndin mat það svo að sennilega lægju nokkrar ástæður þar að baki. Í fyrsta lagi væri samráðs- og samvinnuþætti hagsmunaaðila verulega ábótavant í ferli mats á umhverfisáhrifum samkvæmt núgildandi lögum. Í öðru lagi hefðu allir, samkvæmt núgildandi lögum, rétt til að kæra, kæranda að kostnaðarlausu. Það varð m.a. tilefni til umræðu um hvort rétt væri að hafa þetta á þennan máta, að allir gætu kært sér að kostnaðarlausu. Niðurstaða nefndarinnar varð hins vegar að ekki væri ástæða til þess að breyta því þar sem ákveðin hefð væri komin á það form. Í þriðja lagi var talið hugsanlegt að enn væri nýjabrum á þessari starfsaðferð og ekki komið jafnvægi á framkvæmd laganna þannig að hagsmunaaðilar kærðu jafnvel oftar en tilefni væri til.

Í núgildandi lögum er ekki sérstaklega gert ráð fyrir samvinnu og samráði milli framkvæmdaraðila og hagsmunaaðila á fyrstu stigum undirbúnings máls, þ.e. meðan framkvæmdaraðili vinnur að skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Það er ekki fyrr en eftir að skýrsla framkvæmdaraðila liggur fyrir og hún hefur verið send til Skipulagsstofnunar að slíkt formlegt samráð er hafið og aðilum gefst kostur á að tjá sig um fyrirhugaða framkvæmd. Eins og ég sagði á undan hefur þetta leitt til að tortryggni hefur myndast milli framkvæmdaraðila og hagsmunaaðila. Það að hagsmunaaðilar þurfa að kæra matsskyldu til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri hefur valdið því að í stað þess að aðilar líti hvor á annan sem samstarfsaðila eru þeir mótaðilar og matsferillinn fer fram undir merkjum gagnrýni og kæru. Umhvn. var ljóst að þetta ferli er ekki í anda grundvallarhugmynda um mat á umhverfisáhrifum eins og þær hafa þróast undanfarin ár. Eftir að hafa kynnt sér frv. og rætt við fjölmarga umsagnaraðila var nefndarmönnum ljóst að gera þyrfti umtalsverðar breytingar á frv.

Grundvallarhugmyndin um mat á umhverfisáhrifum felur í sér að athugun fari fram á áhrifum framkvæmda á umhverfi, jákvæð eða neikvæð, þannig að fyrir liggi ígrundaðar rannsóknir sem lagðar eru til grundvallar ákvörðunum um hvernig framkvæmdum verði háttað með hliðsjón af áhrifum á umhverfi. Ferlið felur einnig í sér að náið samráð er haft við alla hagsmunaaðila og þeim gefið tækifæri til að gera athugasemdir áður en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum er kveðinn upp og endanleg ákvörðun tekin um hvernig tiltekinni framkvæmd skuli háttað.

Ég lít svo á að í nefndinni hafi skapast ákveðin samstaða um ákveðin markmið varðandi endurskoðun á frv.:

Í fyrsta lagi var það markmið nefndarinnar --- þessi markmið voru svo sem ekki sett formlega fram en ég tel að um þau hafi verið samhugur --- að auka sátt í þjóðfélaginu um ferli mats á umhverfisáhrifum.

Í öðru lagi að styrkja samráð milli allra aðila er hagsmuna hafa að gæta við framkvæmdir og skapa um leið forsendur til að fella niður kæruferli og frekara eða ítarlegra mat á umhverfisáhrifum.

Í þriðja lagi að stytta þann tíma sem matsferlið tæki.

Í fjórða lagi að laga frv. nánar að tilskipun ESB um mat á umhverfisáhrifum til að löggjöfin væri sem líkust milli landa en þó yrði tekið mið af sérstökum aðstæðum hér á landi. Þar var m.a. haft í huga að íslensk löggjöf í þessum efnum væri ekki strangari en annars staðar í Evrópu með tilliti til samkeppnishæfni fyrirtækja í landinu gagnvart sambærilegum fyrirtækjum í Evrópu.

Í fimmta lagi þurfti að laga frv. með tilliti til nýlegrar niðurstöðu Hæstaréttar í máli svínabús þar sem heimild hæstv. umhvrh. til að ákvarða hvaða framkvæmdir aðrar en þær sem taldar eru upp í núgildandi lögum --- og þar af leiðandi í frv. í viðaukum --- var talin takmörkuð eða ekki til staðar.

Með hliðsjón af þessum markmiðum hafa fjölmargar breytingar verið gerðar á frv. í meðferð nefndarinnar. Í mörgum greinum er samráðsferlið styrkt þannig að opin samskipti eru tryggð milli framkvæmdaraðila og hagsmunaaðila meðan unnið er að matsáætlun. Þegar matsáætlun, sem framkvæmdaraðili ber ábyrgð á er lögð fyrir Skipulagsstofnun ættu því allir aðilar, hagsmunasamtök, opinberar stofnanir eða einstaklingar, að hafa fengið tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri og hafa áhrif á framkvæmdaáætlanir. Út frá þessum forsendum gat nefndin fellt úr frv. ákvæði um ítarlegra mat á umhverfisáhrifum, sbr. 11. gr. b-liðar 2. mgr., og jafnframt stytt matsferlið um margar vikur miðað við að fara þá leið.

Þá hefur umhvn. gert fjölmargar tillögur til breytinga á viðaukum frv., bæði til leiðréttingar og til samræmis við ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins. Ég hef kosið að fara ekki frekar í þær breytingar sem nefndin hefur gert, það hafa félagar mínir í umhvn. hér á undan mér gert með greinargóðum hætti.

Ég er þeirrar skoðunar að vel hafi tekist til með endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þetta var gríðarlega mikil vinna og einnig ákaflega ánægjulegt samstarf. Vinnan gekk greiðlega fyrir sig, ekki síst eftir að nefndarmenn höfðu rætt ítarlega og komið sér saman um út frá hvaða grunnhugmyndum ætti að vinna. Eftir erfitt og átakasamt starf vegna Fljótsdalsvirkjunar í umhvn. þingsins sl. haust þá var sérstaklega ánægjulegt að sjá hve vel nefndarmenn náðu að vinna saman að þessu verkefni. Það segir sína sögu að öll nefndin skrifar undir nál. þótt þrír nefndarmenn hafi fyrirvara á atriðum sem fyrir fram var vitað að pólitískur ágreiningur yrði um.

Ég vil að lokum þakka sérstaklega formanni nefndarinnar, og varaformanni í fjarveru hans, góða stýringu á starfinu, einnig frábæra vinnu frá hendi nefndasviðs þingsins, ekki síst Evu Margrétar Ævarsdóttur, ritara nefndarinnar. Ég þakka og starfsmönnum umhvrn., umsagnaraðilum og gestum nefndarinnar.