Mat á umhverfisáhrifum

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 16:52:37 (7607)

2000-05-12 16:52:37# 125. lþ. 117.12 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[16:52]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur tapað einhverju úr hér í þinginu á undanförnum mánuðum en ég þarf nú varla að rifja það upp hvernig atkvæðagreiðslan fór á sínum tíma. Ég veit aftur á móti að framkvæmdaraðilar fyrir Fljótsdalsvirkjun hafa frestað framkvæmdum, það er ljóst. Ég hef verið talsmaður þess að friða Eyjabakkana en það er ekki þar með sagt að ég t.d. sem persóna hafi verið á móti því að Jökulsá í Fljótsdal yrði virkjuð og ég hef ekkert séð því til fyrirstöðu að Jökulsá í Fljótsdal væri virkjuð fyrir neðan Eyjabakkasvæðið. Ég hef margoft lýst því hér í þinginu (KolH: Varst sem sagt tilbúinn að samþykkja tillögu Finns.) Ég hef út af fyrir sig ... Ja, það var náttúrlega allt önnur ástæða fyrir því, ég hef því miður ekki tíma til að fara út í þær umræður. En ég beygði mig fyrst og fremst fyrir því að engin leið var til samkomulags um neitt annað og þarna var búið að byggja upp miklar vonir á ákveðnu landsvæði sem við sáum að ekki var hægt að efna nema að fara út í þessa virkjun eða einhverja aðra sambærilega og ekki var hægt að komast að samkomulagi um neitt slíkt. Þess vegna urðu menn að kyngja ýmsu, því er nú verr og miður. En framkvæmdir við Fljótsdal í einni eða annarri mynd eru að sjálfsögðu á dagskrá og ekki er verið að upplýsa neitt leyndarmál þó að það sé sagt hér.