Þingmannamál til umræðu

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 16:55:37 (7609)

2000-05-12 16:55:37# 125. lþ. 117.93 fundur 533#B þingmannamál til umræðu# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[16:55]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þegar þetta sérstaka þingmannamál, frv. til laga um lögleiðingu ólympískra hnefaleika, var tekið úr nefnd urðu hörð viðbrögð hjá þingmönnum, bæði í umræðu í þingsal um leið og það fréttist að þetta væri eitt af þeim málum sem hefðu hlotið náð fyrir augum stjórnarmeirihlutans sem hleypir svo skelfilega fáum þingmannamálum í gegnum þingið á hverjum vetri.

Af hverju voru svona hörð viðbrögð? Það var vegna þess að mjög fáir dagar voru eftir af þinginu, vitað var að þetta væri mikið álitamál og að það væri ekki væri góð ásýnd að vera í lok þinghaldsins með umdeilt þingmannamál uppi. Ég hef nokkrum sinnum vísað til annars máls sem var mjög umdeilt í lok þinghalds, refamál í þjóðgarðinum á Vestfjörðum, þó að ég líki því máli og þessu ekki saman að öðru leyti en því að vera umdeild, sérstaklega umdeild mál og þingmannamál sem komu inn í þingið í lokin.

Við þingmenn viljum fá skoðað og við óskum eftir því að fá þingmannamálin afgreidd sem við höfum lagt vinnu í, öll þau umbótamál sem við teljum að horfi til framfara í samfélagi okkar. Komið hefur fram hér í dag að ekki er ásættanlegt að 90 mál liggja fyrir órædd. Þess vegna er svo mikilvægt að þau mál sem fá náð komist tímanlega inn í þingið og að það séu mál sem mest sátt er um. Það er mjög eftirtektarvert að svo umdeilt mál hafi verið tekið út á síðustu dögum þingsins.

Herra forseti. Við ætluðum að hætta í gær, við ætluðum að ljúka þinginu í gær miðað við starfsáætlun þingsins. Hér erum við að taka svona mál fyrir kl. fimm daginn eftir að þingi átti að ljúka. Það eru miklar væntingar um að ljúka þinginu og mikill vilji er til þess og hefur verið af hálfu stjórnarandstöðunnar að gera það með nokkrum sóma og óvanalega góð sátt hefur verið um það hvernig hægt sé að vinna að því að þinginu ljúki.

Okkur sýnist hins vegar að stjórnarmeirihlutinn hafi sýnt furðulegt vinnulag. Nú á að fara að taka fyrir hnefaleika, sem eru umdeildir, og eins og þruma úr heiðskíru lofti hefur komið fram þingmannafrv. um skattamál forsetaembættisins. Ég lýsi bæði undrun og vanþóknun á þessum vinnubrögðum og legg til, herra forseti, af því að ég geri mér grein fyrir að það var misskilningur að óskað væri eftir því að ráðherra yrði viðstaddur tannsmíðafrv., að við látum það ganga fyrir og tökum það fyrir fyrst og látum sjá til með þetta mál.