Þingmannamál til umræðu

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 16:57:42 (7610)

2000-05-12 16:57:42# 125. lþ. 117.93 fundur 533#B þingmannamál til umræðu# (um fundarstjórn), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[16:57]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós undrun mína á því sem hér birtist í þeim forgangi sem kemur fram hjá hæstv. forseta hvernig hann tekur málin á dagskrá. Við eigum eftir í dag að fjalla um, að mér skilst, mjög mikilvæg stjórnarfrv. svo sem samkeppnislög og vegáætlun og reyndar fleiri mál eins og starfsréttindi tannsmiða, en ákveðið er af hæstv. forseta að taka á dagskrá mjög umdeilt mál um lögleiðingu á ólympískum hnefaleikum sem er þingmannamál og ekki einu sinni samstaða um í nefndinni, nefndin er klofin í afstöðu til frv.

Þetta er mjög sérstakt, herra forseti, og ég hef ekki upplifað það fyrr á þingferli mínum að í lokahrinu þingsins, á síðustu klukkutímum eða sólarhringum sem þing starfar sé verið að taka á dagskrá mjög umdeilt þingmannamál meðan önnur mál á dagskránni eru látin bíða. Fyrir utan það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi að við höfum mátt búa við það í stjórnarandstöðunni að þau mál sem við höfum viljað láta reyna á í þinginu fá þá afgreiðslu og meðferð hjá stjórnarliðum að þau eru ekki einu sinni tekin á dagskrá og okkur er boðið upp á það af formanni nefndarinnar að ekki hafi verið tími til að ræða það mál eða taka það á dagskrá, herra forseti, mál sem lögð voru fram hér í byrjun október, þverpólitísk mál eins og þáltill. um heildarstefnumótun í málefnum barna sem allir þingmenn standa að. Síðan kemur þetta mál sem er mjög umdeilt á dagskrá þegar nokkrir sólarhringar eða klukkutímar lifa eftir af þinginu og enn órædd ýmis stórmál eins og ég hef nefnt, t.d. samkeppnislögin, sem mér skilst að eigi ekki að taka á dagskrá fyrr en einhvern tíma í kvöld og hefði auðvitað verið nær að taka slík stórmál á dagskrá núna eins og samkeppnislögin sem skiptir miklu máli fyrir atvinnulífið og heilbrigt atvinnulíf frekar en að vera að taka þetta umdeilda mál á dagskrá.

Herra forseti. Ég lýsi megnustu vanþóknun á því hvernig hæstv. forseti fer í þessa dagskrá, að taka þetta umdeilda mál núna en láta önnur stórmál bíða eins og mér skilst að eigi að fara að gera. Þetta er einsdæmi. Ég man ekki eftir að svo umdeilt þingmál sé tekið á dagskrá rétt áður en við ljúkum störfum á vorþingi.