Þingmannamál til umræðu

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 17:13:19 (7620)

2000-05-12 17:13:19# 125. lþ. 117.93 fundur 533#B þingmannamál til umræðu# (um fundarstjórn), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[17:13]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hefur komið fram um vinnubrögðin í þinginu. Sérstaklega vil ég gagnrýna það hvernig vinnubrögðin hafa verið undanfarna daga þegar komið hefur út dagskrá að morgni með röð af þingmálum og síðan er ekkert farið eftir henni og þingmenn hafa ekki hugmynd um hvaða mál kemur næst á dagskrá. Hér sitjum við og bíðum eftir að næsta mál samkvæmt dagskránni komi á dagskrá heilu dagana og jafnvel langt fram á miðjar nætur og vitum aldrei hvaða mál kemur næst á dagskrá. Ég gagnrýni harðlega hvernig þinginu hefur verið stjórnað undanfarna daga.

Varðandi það mál sem menn voru að ræða áðan, um starfsréttindi tannsmiða, er það rétt að ég fór fram á það í fyrrinótt ef það ætti að fara að ræða réttindi tannsmiða að ráðherrarnir sem málið varðaði kæmu inn í þingsal. Þegar við áttum að fara að ræða þetta mál klukkan fjögur um nótt höfðum við verið samfellt 16 tíma á vaktinni, á nefndarfundi frá því klukkan 8 um morguninn og síðan á þingfundi. Hér vorum við þingmenn búin að sitja við vinnu í 16 tíma og ekki var óeðlilegt að ráðherrarnir kæmu þá hér og ræddu málið við okkur.

Ég hef aftur á móti ekki farið fram á það að ráðherra verði viðstaddur þó að þetta mál verði tekið á dagskrá. Aftur á móti hefur það komið fram af forsetastóli að ráðherra óski eftir því að vera viðstödd og ég virði þá ósk og geri ekki athugasemd við það þó að réttindi tannsmiða komi á dagskrá eftir kvöldmat. En hvernig forseti hefur forgangsraðað málum í þinginu gagnrýni ég harðlega og minni á að 90 mál hafa ekki fengist rædd í þinginu. Síðan eru tekin ágreiningsmál eins og þetta um að lögleiða hnefaleika. Ég vil minna á það vegna þess að það hefur verið umræða um það hvernig málið var afgreitt út úr menntmn. að út úr heilbr.- og trn. var meiri hluti nefndarinnar á því að það ætti ekki að afgreiða þetta mál og það mun koma hér fram í umræðunni þegar þetta mál verður rætt hvers vegna það er. Aðeins einn nefndarmaður taldi að það ætti að lögleiða þessa skaðsemisgrein og ég tel það fulla ástæðu til þess að það komi fram að það er ekki bara ágreiningur í menntmn. um þetta mál heldur einnig í heilbr.- og trn.