Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 17:25:25 (7627)

2000-05-12 17:25:25# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Frsm. meiri hluta KHG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[17:25]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta menntmn. um frv. til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika. Ég vil áður en ég fer út í nál. láta það koma fram, vegna þeirra ummæla sem komu áðan fram um afgreiðslu málsins út úr menntmn. að á þeim fundi sem málið var afgreitt út var það gert andmælalaust og mótatkvæðalaust. Ég vil hafa þetta á hreinu svo að því sé til skila haldið.

En hitt kannast ég við, það sem hv. þm. sagði, en það var á öðrum fundi en þeim sem málið var tekið út. Ég vil láta það liggja fyrir sem staðreynd þannig að ekki verði misskilningur í þeim efnum.

En nál. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Reyni Karlsson frá menntamálaráðuneyti, Sólveigu Ásgrímsdóttur frá Sálfræðingafélagi Íslands og Baldur Kristjánsson frá Kennaraháskóla Íslands.

Umsagnir bárust frá Ungmennafélagi Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Læknafélagi Íslands, lögreglustjóranum í Reykjavík, ríkissaksóknara, Ómari Ragnarssyni, Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, landlækni, Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og heilbr.- og trn. Alþingis. Einnig barst yfirlýsing frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.

Með frv. þessu er lagt til að ólympískir hnefaleikar verði lögleiddir á Íslandi og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setji reglur um íþróttina. Frá árinu 1956 hafa hnefaleikar verið bannaðir hér á landi, samanber samnefnd bannlög nr. 92 27. desember 1956. Ólympískir hnefaleikar eru hins vegar viðurkennd íþróttagrein af alþjóðaólympíunefndinni og í þeirri íþrótt er keppt á Ólympíuleikum og í öllum vestrænum löndum. Það er því algjört einsdæmi að ólympísk keppnisgrein sé bönnuð með sérstakri löggjöf.

Samkvæmt grg. með frv. er gert ráð fyrir að áfram standi óbreytt lög nr. 92/1956, sem banna hnefaleika í atvinnuskyni. Í því sambandi vill meiri hlutinn vekja athygli á yfirlýsingu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, dags. 3. maí sl., þar sem fram kemur að framkvæmdastjórn sambandsins hafi ekki í hyggju og sé því algjörlega andvíg að atvinnumannahnefaleikar verði leyfðir hér á landi enda þótt ólympískir hnefaleikar verði lögleiddir.

Að mati meiri hluta nefndarinnar verður að gera skýran greinarmun á ólympískum hnefaleikum og atvinnumannahnefaleikum því að reglur og öryggiskröfur greinanna eru mjög ólíkar. Þannig er skylt að nota höfuðhlífar í ólympískum hnefaleikum og hver leikur stendur í þrjár lotur í stað allt að tólf lotum í atvinnumannahnefaleikum. Fram kom í umræðum í nefndinni að strangar reglur hafa verið settar í Noregi og Svíþjóð um ólympíska hnefaleika, m.a. þannig að eftirlit með keppnum er mikið og læknir ávallt viðstaddur. Samkvæmt íþróttalögum, nr. 64/1998, er Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu. Meiri hlutinn telur því eðlilegt að sambandið setji reglur um þessa íþróttagrein með hliðsjón af framangreindum reglum. Þá kom fram í máli gesta að uppeldisleg rök eru einnig fyrir lögleiðingu íþróttarinnar þar sem sumir hópar þjóðfélagsins gætu haft gott af iðkun íþróttarinnar og þeim aga sem þar gildir.

Meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Tómas Ingi Olrich var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nál. rita hv. þm. Sigríður A. Þórðardóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir og Árni Johnsen.

Með áliti meiri hlutans fylgir sem fskj. umsögn heilbr.- og trn. Alþingis.

Ég vil til viðbótar láta koma fram að til eru ýmsar athuganir á þessari keppnisgrein og reyndar athuganir á slysatíðni í íþróttum almennt. Ég vil sérstaklega nefna tvær rannsóknir sem birtust í Clinical Journal of Sport Medicine á árinu árinu 1996 þar sem greint er frá rannsóknum sem gerðar voru á keppendum í ólympískum hnefaleikum í Dublin á Írlandi á 15--18 mánaða tímabili á árunum 1992--93. Fyrri rannsóknin er taugasálfræðileg athugun á tuttugu keppendum sem tóku virkan þátt í ólympískum hnefaleikum. Hópur tuttugu manna sem var sambærilegur með tilliti til aldurs og félagslegrar stöðu, en stundaði ekki þessa íþrótt, var notaður sem samanburðarhópur. Notuð voru átta viðurkennd taugasálfræðileg próf til að meta hvort ólympískir hnefaleikar hefðu taugasálfræðileg neikvæð áhrif á keppendur í greininni. Niðurstaða athugunarinnar var að ekki var munur á frammistöðu þessara tveggja hópa í taugasálfræðilegu prófununum nema í einum þætti sem varðar beitingu handa. Jafnframt benti samanburður á niðurstöðu rannsóknar hnefaleikaranna í byrjun og lok rannsóknartímabils ekki til að þeir hefðu hlotið skaða af iðkun íþóttarinnar á tímabilinu. Niðurstaða rannsakenda var að ólympískir hnefaleikar leiddu ekki til heilaskaða.

[17:30]

Sömu aðilar skoðuðu einnig tíðni og alvarleika áverka af völdum ólympískra hnefaleika á sama tímabili. Þar skoðuðu þeir alla meðlimi sex stærstu hnefaleikaklúbba í Dublin á Írlandi sem voru virkir í keppni í greininni. Niðurstaða rannsakenda var að hætta á áverkum af völdum ólympískra hnefaleika væri tiltölulega lítil í samanburði við aðrar íþróttir. Áverkar á höfuð, sem nær eingöngu ættu sér stað í keppni, væru aðallega vægur heilahristingur.

Í grein í þýska fagtímaritinu Sportverletzung, Sport\-schäd\-en sem birtist í mars 1999 er greint frá úttekt á slysum vegna sjálfsvarnaríþrótta og byggðist hún á athugunum á sjúkraskýrslum og skýrslum tiltekins tryggingafélags yfir fimmtán ára tímabil. 137 slys voru skráð sem áttu sér stað í þessum íþróttum. Af þeim áttu 47 tilvik sér stað í júdó, 44 í karate, 22 í wrestling, níu í Tae Kwon Do, sjö í hnefaleikum og færri tilvik í öðrum tilteknum íþróttagreinum sem falla undir sjálfsvarnaríþróttir. Athyglisvert er að einungis sjö atvik á fimmtán ára tímabili áttu sér stað í hnefaleikum á meðan 47 og 44 tilvik áttu sér stað í júdó og karate sem eru viðurkenndar sjálfsvarnaríþróttir hér á landi og hafa ekki sérstaklega verið tengdar við slysahættu.

Í frétt sem birtist í breska læknatímaritinu The British Medical Journal í ágúst 1998 kemur fram að samkvæmt slysaskráningu í Hollandi á tíu ára tímabili, frá 1987--1996, voru skráð 18.000 slys þar sem heilaáverkar komu við sögu. Í 4.300 tilvika gerðist slysið í fótbolta, í 3.400 tilvika í reiðmennsku, í 70 tilvikum í hnefaleikum. Í annarri grein sem birtist í sama tímariti í febrúar 1998 var bent á að af dauðsföllum sem áttu sér stað við íþróttaiðkun í Bretlandi á árunum 1986--1992 voru þrjú af völdum hnefaleika, 77 dauðsföll urðu við mótoríþróttir, 69 dauðsföll við flugíþróttir, 54 dauðsföll við fjallaklifur og 28 dauðsföll við hestaíþróttir. Má því spyrja hvort hnefaleikar séu jafnhættuleg íþrótt og af er látið í samanburði við aðrar íþróttir sem þó hafa jákvæða ímynd og ekki tengd við áhættuna á sama máta og hnefaleikar.

Herra forseti. Ég hygg að með því að draga fram þessar upplýsingar sem eru óvefengjanlegar staðreyndir ætti þingheimi að vera ljóst að þegar þessi íþróttagrein er metin í samanburði við aðrar íþróttagreinar er engin ástæða og engin rök til þess að meðhöndla hana öðruvísi en þær íþróttagreinar sem stundaðar eru hér á landi.

Ég vil segja að lokum, herra forseti, að vissulega hafa menn hreyft andmælum við þetta mál, það mátti heyra hér áðan. En þau andmæli eru að mínu viti býsna oft byggð á tilfinningalegum forsendum fremur en staðreyndum. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að tilfinningar skipti máli þegar menn taka afstöðu í málum, en staðreyndir verða líka að komast að og staðreyndirnar hljóta alltaf að lokum að skipta meira máli. Það er það sem lagt er til grundvallar við flutning þessa máls, það er ekki verið að auka áhættu við íþróttaiðkun og ekki er verið að stofna neinum í hættu vegna þessa.