Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 17:46:58 (7634)

2000-05-12 17:46:58# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[17:46]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. 3.400 tilvik um heilaskaða í reiðmennsku þýðir að það eru 3.400 tilvik. Það er ekki hægt að gera lítið úr því. Það segir sína sögu burt séð frá öllum tölum um iðkendafjölda. Ég verð þá að biðja hv. þm. að koma með upplýsingar til að draga úr vægi þessara upplýsinga sem ég færi hér fram. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að segja að ekkert sé að marka þetta. Þingmaðurinn verður þá að segja af hverju og færa fram rök fyrir því. Þingmaðurinn hefur engin rök fært fram, engin. Ég hlýt að snúa spurningunni við og gera kröfu til þess að hv. þm. dragi þá fram upplýsingar til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að þegar tekið væri tillit til fjölda iðkenda væri talan 3.400 áverkar minni en 70 áverkar. Ég tel mikla kokhreysti að halda því fram hér úr ræðustól án þess að hafa neitt fyrir sér til að styðja það rökum.

Ég vil svo segja að lokum um upplýsingarnar sem ég kom með hér áðan um rannsóknir frá Bandaríkjunum sem sýna eða leiða í ljós að einn af hverjum 60 þús. þeirra sem stunda áhugahnefaleika verði fyrir skaða, að þær upplýsingar eru frá Landlæknisembættinu íslenska.