Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 19:33:04 (7648)

2000-05-12 19:33:04# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[19:33]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um að lögleiða ólympíska hnefaleika. Sem einn af flutningsmönnum frv. þá vil ég fagna meirihlutaáliti menntamálanefndar sem ég tek undir. Í dag höfum við hlýtt á mjög fræðilega ræðu hv. þm. Katrínar Fjeldsted og dreg ég ekki í efa hennar þekkingu á þessum málum. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að við gerum mjög skýran greinarmun á ólympískum hnefaleikum og atvinnumannahnefaleikum því að reglur og öryggiskröfur greinanna eru mjög ólíkar. Þannig er skylt að nota höfuðhlífar í ólympískum hnefaleikum. Hver leikur er 3 lotur í stað allt að 12 lotum í atvinnumannahnefaleikum. Það er alveg ljóst að setja þarf reglur um þessa íþróttagrein þegar hún verður leyfð. En ólympískir hnefaleikar eru hvergi bannaðir nema hér á landi. Það hefur komið fram í ræðum annarra þingmanna að slysatíðni er þar síst minni en í öðrum íþróttagreinum.

Herra forseti. Framkvæmdastjórn ÍSÍ sendi Alþingi umsögn um umrætt frv. og þar er mælt með því að bannið sé fellt niður. Ólympískir hnefaleikar eru að mati ÍSÍ eru ekki skaðlegri en margar aðrar íþróttir og raunar allt önnur íþrótt en sú sem bönnuð var á sínum tíma, við skulum hafa það í huga.

Ólympískir hnefaleikar eru viðurkennd íþrótt um allan hinn vestræna heim og er í raun með ólíkindum að löggjafarsamkunda ætli að hafa afskipti að því hvaða íþróttir eru stundaðar hér á landi og hverjar ekki. Sú ákvörðun á að sjálfsögðu að vera í höndum íþróttasamtakanna sjálfra.

Ég sé ekki mikinn mun á ólympískum hnefaleikum og ýmsum vinsælum sjálfsvarnaríþróttum sem stundaðar eru hér á landi og njóta mikilla vinsælda. Hér er leyfð tælensk íþrótt sem kallast kickboxing og þar eru notaðir hanskar eins og í hnefaleikum.

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram þá eru gerð mjög skörp skil á áhugamannahnefaleikum og atvinnumannahnefaleikum. Þetta er allt önnur íþrótt og er sjálfsagt að leyfa hana. Ég held að það sé algjört einsdæmi að ólympísk keppnisgrein sé bönnuð með sérstakri löggjöf. Aðild að Ólympíuleikunum felur í sér viðurkenningu á þeim greinum sem keppt er í á leikunum hverju sinni. Við eigum því að leyfa ólympíska hnefaleika á ný. Greinin mun sjálf setja sér reglur. Það hlýtur að vera á valdi hvers og eins hvaða íþrótt hann stundar eins og ég nefndi í framsöguræðu minni þegar frv. var til fyrstu umræðu, hvort sem hann stundar hestaíþrótt, fótbolta, handbolta, fimleika eða hvaða íþrótt aðra. Við eigum að leyfa fólki að ráða hvaða íþróttir það stundar.