Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 20:14:14 (7650)

2000-05-12 20:14:14# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[20:14]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir miður ef hv. þm. sem talaði á undan mér hlýddi ekki á ræðu mína því ég reyndi að gera í nokkuð ítarlegu máli grein fyrir þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar á áverkum sem menn verða fyrir af hnefaleikum, bæði áhugamannahnefaleikum og í atvinnuskyni. Ég bar það saman og skýrði frá því í hverju munurinn lægi. Auðvitað er rétt hjá þingmanninum að þetta eru rosalegar fullyrðingar. En mér finnst kannski ástæða til að þingmaðurinn taki nokkurt mark á þeim fullyrðingum og kynni sér þær greinar sem fullyrðingarnar byggjast á.

Mig langar til að spyrja hann. Úr því að forsjárhyggjan að hans mati sýnir sig í málflutningi okkar sem viljum ekki samþykkja þetta frv., hvernig getur jafnræðisreglan þá talist gilda ef áfram á að banna hnefaleika í atvinnuskyni fyrir þá sem vilja stunda þá?