Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 20:15:29 (7651)

2000-05-12 20:15:29# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[20:15]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan erum við alveg klárir á því að ólympískir hnefaleikar eru ekki íþrótt án meiðsla, það er alveg ljóst, ekki frekar en aðrar sambærilegar íþróttagreinar. Enginn er að bera á móti því.

Við flutningsmenn þessa frv. erum ekki að tala um að leyfa atvinnumannahnefaleika líka, við erum á móti því. Við erum að tala um þrjár lotur í þrjár mínútur en ekki tólf lotur í þrjár mínútur o.s.frv. Við erum að tala um allt aðra hluti. Hér hefur verið sagt og fullyrt að þetta sé fyrsta skrefið til þess að atvinnumannahnefaleikar verði leyfðir en það er alls ekki svo. En áverkar verða í þessari íþrótt sem öðrum. Hvort sem maður er í marki í handbolta eða í vörn í fótbolta eða í sókn og skallar boltann eða á hestbaki eða í fjallaklifri o.s.frv., það verða alltaf slys. Hvort maður er í júdó eða karate, þá verða slys. Það eiga ekki að verða slys en það verða slys.