Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 20:22:40 (7657)

2000-05-12 20:22:40# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[20:22]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég ætla að vona að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir komist að með athugasemdir um störf forseta eftir að ég hef lokið máli mínu en ég var tilbúin að gera hlé þá og hleypa henni að. Ég hef þá mál mitt út af máli sem ég hefði haldið í upphafi að yrði lítið mál í þinginu því að mér fannst það ekki vera þess eðlis að í það færi svo mikill tími sem raun hefur orðið í tveimur nefndum og mikilli umfjöllum, ekki bara að það sé í tveimur nefndum heldur hefur mikill tími hjá nefndunum farið í málið. Meira að segja hefur farið svo mikill tími í málið að margir eru farnir að óska eftir því að þetta fari sem fyrst eða hefði verið afgreitt hér eða tekið út fyrir einhverju síðan því allir séu búnir að fá grænar bólur af málinu, bara af umfjölluninni einni saman. Það er náttúrlega ekki gott þegar mál eins og þetta vekja svona miklar tilfinningar og viðbrögð en kannski er málið einmitt af því að það virðist ekki stórt í sniðum en svona tilfinningaríkt að það hefur valdið þessum erfiðleikum í afgreiðslu í þinginu og virðist líka ætla að gera það við lokaafgreiðslu.

Ég á sæti í heilbr.- og trn. og átti fulla aðild að umsögn heilbr.- og trn. um málið. Við sendum inn umsögn til menntmn. og ég hefði svo sannarlega viljað óska þess að hv. menntmn. hefði tekið fullt tillit til umsagnar heilbr.- og trn. í þessu máli en því miður varð það ekki. Eins og hefur komið fram lýsir hv. heilbr.- og trn. sig andvíga frv. og í umsögn meiri hluta, sem eru allir fyrir utan hv. þm. Ástu Möller, segir jafnframt, með leyfi forseta:

,,Meiri hlutinn telur jafnframt að heitið ólympískir hnefaleikar sé villandi. Um er að ræða hnefaleika sem stundaðir eru af áhugamönnum og annars staðar í heiminum er íþróttin að jafnaði kölluð áhugamannahnefaleikar (amateur boxing á ensku). Ekki er t.d. talað um ólympískt júdó þó keppt sé í júdó á Ólympíuleikum.``

Sumum finnst þetta vera orðaleikur en nafnið ólympískir hnefaleikar er hluti af því tilfinningaflæði sem er í kringum þetta mál. Ólympískir hnefaleikar gefa þessu þann svip að þetta sé hálfgerð æðri íþrótt og sé rétt að leyfa hana eins og aðrar íþróttir.

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem skiptir þingmönnum í afstöðu sinni ekki eftir pólitískum flokkslínum heldur eftir viðhorfum og hver og einn hefur mótað sér skoðun sína. Hér gilda engar pólitískar línur, engin pólitísk bönd. Ég þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted og Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir greinargóðar lýsingar þeirra á því heilsufarstjóni og þeim skaða sem getur stafað af því að stunda box og góðri skýrslu þeirra beggja. Einnig þakka ég ítarlega umfjöllun hv. þm. Katrínar Fjeldsted þar sem hún las og kynnti fjölmargar rannsóknir sem eru á þann veg að niðurstöður rannsókna benda til þess að alvarlegir skaðar geta orðið af áhugamannahnefaleikum en því miður hafa þeir sem stunda rannsóknir á þessu sviði ekki sýnt boxinu það mikinn áhuga að margar rannsóknir liggi fyrir. Annað sem hefur komið í ljós þar fyrir utan er að þeir áverkar sem verða af áhugamannaboxi koma fram smám saman og á mörgum árum og jafnvel ekki fyrr en eftir mörg ár og því er erfitt að rannsaka áverka eftir hvern leik. Hefur hann slasast eða hefur hann ekki slasast? Sumt er augljóst, t.d. ef það verður skaði á augum eða sprungin vör eða glóðarauga eða hvað það nú er en þeir skaðar sem verða við heilahristing og innri áverka á höfði koma ekki í ljós fyrr en seinna og þess vegna þarf langtímarannsóknir til að draga þær niðurstöður fram.

Ég ætla að öðru leyti ekki að rekja frekar sjúkdómalýsingar og niðurstöður rannsókna. Það hefur verið gert það vel hjá öðrum hv. þm.

Ég vil draga aðeins fram þann þátt sem snýr að okkur þingmönnum, hvernig við mótum skoðun okkar. Það er mjög gott ef maður getur gert upp hug sinn þannig að menn hafi vogarskál. Rannsóknir eru gerðar og niðurstöðurnar sýna eitthvað óyggjandi og maður getur treyst því að það sé rétt og það sé þá grundvöllur eða grunnur að niðurstöðum málsins og þess sem maður tekur.

En í þessu máli kemur miklu meira til. Þó að hér sé fundinn upp og kynntur fjöldi rannsókna sem sýnir að skaði geti orðið af atvinnumannaboxi eru ekki allir sem hlusta því að fleira kemur til. Þetta er líka hluti af uppeldi. Ég gæti sagt við sjálfa mig að afstaða mín mótast vissulega af því að ég veit eða þykist vita af þeim rannsóknum sem hafa verið kynntar að áhugamannabox getur valdið heilsutjóni en það er ekki síður uppeldi mitt sem mótar skoðun mína til málsins. Mér var kennt að maður lemur ekki annan mann. Maður gerir það ekki. Ég viðurkenni að þetta viðhorf og það að vera mjög andvíg öllu ofbeldi, barsmíðum, spörkum og því að ganga í skrokk á mönnum mótar afstöðu mína til málsins og ég er ekkert feimin við að segja það. Maður lemur ekki annan mann og það hefur áhrif á mig. Mér finnst ekki rétt að við séum að taka upp íþrótt sem við höfum borið gæfu til þess að banna hér á landi, íþrótt sem byggir á því að maður lemji annan mann og það í höfuðið. Það telur mest af öllu.

[20:30]

Ég vil benda á að þessi íþróttagrein eins og svo margt í umhverfi okkar hefur áhrif á skoðanamyndun barna og unglinga. Þeir sem stunda þessa íþrótt sem við fáum að sjá á sumum sjónvarpsstöðvum eru fyrirmyndir margra unglinga. Þeir eru ímynd og þessi ímynd hefur áhrif á viðhorf barna og unglinga til þess að lemja. Þó að þeir séu ekki komnir í þjálfun í boxinu, ekki með hjálma og hanska, þá smitar þessi töffaraskapur í íþróttinni. Ég er bara ekki hrifin af íþróttinni og þeirri ímynd.

Það er verið að líkja þessari íþrótt við karate og aðrar viðlíka íþróttir. Karate er sjálfsvarnaríþrótt sem bannar högg á höfuð. Fyrir slík högg eru menn dæmdir úr leik eða fá ekki stig. Ég hefði frekar viljað heyra málflutning sálfræðingsins sem kom og gerði grein fyrir skoðun sinni hjá menntmn. Hún lýsti því að fyrir suma væri gott að læra sjálfsvarnaríþrótt, t.d. þá sem minna mega sín, að læra að verjast fremur en læra box til að berjast. Menn líta mismunandi á málið og ég er á móti því að keppt sé í boxi. En ég tek undir það viðhorf Katrínar Fjeldsted að það að þjálfa þessar hreyfingar án þess að lemja aðra, box þar sem lamið er í tuðru, er mjög góð íþrótt. Hún eykur þol, snerpu og lipurð en ég vil láta þar við sitja. Ég vil ekki að gengið verði lengra. Þess vegna er ég á móti þessu frv.

Eru það rök í málinu að leyfa árásaríþrótt í skjóli jafnræðisreglunnar? Hvar eru þá mörkin? Er það af því að allir aðrir leyfa þessa íþrótt? Er rétt að leyfa hana hér miðað við aðrar íþróttir á Íslandi? Á jafnræðisreglan að gilda varðandi slys? Ef maður slasast í fótbolta, má maður þá líka slasast í boxi? Er það allt í lagi? Á jafnræðisreglan líka að gilda um annað sem bannað er? Verður að leyfa þessa íþrótt til jafns við aðrar íþróttir? Er ekki hægt að gera upp á milli þeirra? Sagt er að slíkt væri forræðishyggja. Á að leyfa box vegna þess að íþróttin er þegar stunduð á Íslandi og af tvennu illu sé betra að leyfa hana og halda utan um greinina frekar en að láta hana þróast í leyni eða horfa fram hjá því að hún sé stunduð? Menn telja að þar með sé ekki hægt að hafa eftirlit með henni og því sé betra að leyfa hana.

Ef við ætlum að nota þessi rök, þá vil ég t.d. benda á hass. Það er reykt hér í leynum. Það er erfitt að halda utan um það því að það er bannað. Væri þá betra að leyfa bara hassið, halda utan um það? Þessi rök finnst mér ekki halda ef maður skoðar það sem er bannað. Mér fyndist þá nær að þar sem þetta er bannað þá sé því banni fylgt eftir. Eins og ég sagði áðan er erfitt að byggja eingöngu á niðurstöðum rannsókna þar sem um langtímarannsóknir er að ræða sem ekki eru í hundraða- eða þúsundatali eins og með marga sjúkdóma og skaða sem rannsakaðir hafa verið um allan heim í mörg ár. Fleiri niðurstöður og skýrari eiga eftir að koma fram í framtíðinni og það er ekki að ástæðulausu sem sem stjórn Ólympíuleikanna hefur áhuga á að leggja hnefaleika niður sem ólympíska keppnisíþrótt.

Skoðun mín mótast líka af því sem er að gerast í samfélaginu í dag. Það er mjög óheillavænleg þróun í samskiptum fólks, milli fullorðinna, unglinga og barna þar sem hnefarétturinn er látinn gilda. Það er ekki hikað við að lemja í höfuð og neðan mittis og sparka í liggjandi menn. Þó að þar sé ekki farið að reglum íþróttarinnar, sannarlega ekki, þá gæti ég trúað því að þeir sem njóta þess að sparka og lemja hefðu áhuga á að æfa þessa íþrótt svo að hægt sé að beita þeirri þekkingu utan hringsins, utan æfingasalarins og láta höggin dynja af meiri færni á samborgurum sínum.

Því miður heyrum við allt of oft fréttir í fjölmiðlum af árásum, jafnvel af árásum barna og unglinga hvert á annað. Við vitum að það er ekki nema toppurinn af ísjakanum sem fer í fjömiðlana. Þetta er þróun sem við eigum að gera allt til þess að vinna gegn. Auðvitað hefur það ekki úrslita\-áhrif hvort ólympískir hnefaleikar verða leyfðir eða bannaðir áfram hér á landi en allt telur. Ég vil ekki draga úr þeim ótta að áhugahnefaleikar séu og verði eingöngu undanfari atvinnuhnefaleika. Þetta er bannað í dag og eigi nú að fara hálfa leið þá mun þrýst á að stíga skrefið til fulls.

Hér hefur verið talað um forsjárhyggju, að það að banna ólympíska hnefaleika eða áhugamannahnefaleika sé aðeins forsjárhyggja. Ef það að banna áhugahnefaleika á þeirri forsendu að það sé slysavaldur telst til forsjárhyggju þá má auðvitað líta á allar forvarnir sem forsjárhyggju. Ég lít á þetta bann sem forvarnastarf. Viljum við fella allar forvarnir undir forsjárhyggju? Viljum við það? Ég segi nei.

Herra forseti. Héraðslæknir Norðurlands, Ólafur Hergill Oddsson, sendi okkur hv. þm. nokkur orð á blaði. Ég hvet alla þingmenn til að lesa það plagg mjög vandlega. Hann bendir á ýmis atriði eins og t.d. að alþjóðaólympíunefndin íhugi tillögur um að leggja niður áhugamannahnefaleika sem ólympíska íþrótt og fyrrverandi landlæknir Bandaríkjanna, hinn virti dr. Everett Koop, og bandarísku læknasamtökin hafi stutt tillögur þar að lútandi. Hann bendir einnig á að börn geri sér litla grein fyrir hættunni á langvinnum heilakvillum sem koma fram mörgum áratugum eftir þátttöku í hnefaleikum. Þetta þekkjum við. Það eru ekki bara hnefaleikar heldur allt, að lifa hinu æsandi lífi, fá spennu í tilveruna hvort sem það heitir að reykja, drekka eða gera eitthvað annað. Hvað varðar þessa unglinga um framtíðina? Tvítugt eða þrítugt fólk er að þeirra mati eldgamalt og skiptir ekki máli hver áhrifin verða. Þeir sem eru eldri en um þrítugt eru svo gamlir að það tekur því ekki að hafa áhyggjur.

Héraðslæknirinn bendir líka á að dr. Kemp hafi skoðað og gagnrýnt margar vísindarannsóknir á áhrifum áhugamannahnefaleika. Hann dregur saman hvers vegna niðurstöðurnar eru ekki samhljóða. Hann álítur að skýringin sé sú að aðferðafræði margra rannsóknanna sé gölluð. Á það vilja þeir ekki hlusta sem eru meðmæltir frv. og áhugamenn um box en ég vil ljúka ræðu minni á lokaorðum Ólafs Hergils Oddssonar, með leyfi forseta:

,,Niðurstöður vísindarannsókna á skaðanum af áhugamannahnefaleikum eru ekki samhljóða. Flestir vísindamenn segja að rannsaka þurfi þessi mál betur áður en endanlegar ályktanir eru dregnar. Á meðan þessi óvissa ríkir er nauðsynlegt að íslenskir íþróttamenn fái að njóta vafans.``

Ég tek undir þessi orð hans og hvet þá sem áhuga hafa á að leyfa þessa íþrótt á Íslandi til að hinkra við og sjá hvað nefndin gerir, sjá hvort þessi íþrótt verður áfram ólympísk.