Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 20:48:29 (7659)

2000-05-12 20:48:29# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[20:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þegar ég bað um orðið áðan um fundarstjórn forseta beindi ég ákveðinni fyrirspurn til hæstv. forseta. Hæstv. forseti sá þá ekki ástæðu til að svara því sem ég beindi til hans. Ég vil ítreka þá ósk til hæstv. forseta að við það verði staðið sem um var talað í dag, að samkeppnislögin og tannsmiðirnir kæmu á dagskrá núna eftir kvöldmatarhlé. Af því að starfandi forseti þá svaraði mér áðan og sagði að það hefði ekki verið tímasett heldur væri miðað við það þegar viðskrh. kæmi hingað til höfuðborgarinnar að norðan, þá veit ég að hæstv. ráðherra er staddur heima hjá sér. Það þarf bara að lyfta upp símtólinu og tala við ráðherra og athuga hvort hún geti ekki mætt í húsið.

Ég vil minna á, herra forseti, að það er ekki ósk þingmanna stjórnarandstöðunnar að hæstv. viðskrh. verði viðstaddur þessa umræðu um samkeppnislögin heldur er það hennar eigin ósk að vera viðstödd þá umræðu. Ég vil því eindregið mælast til þess, herra forseti, þar sem hæstv. ráðherra er nú komin hingað til höfuðborgarinnar og varla annað stætt en að hún komi hingað niður í þinghús til að vera viðstödd umræðuna, að því máli sem við ræðum nú, þessu umdeilda máli verði frestað en að við getum tekið til við samkeppnislögin og þau stjórnarfrv. sem liggur á að afgreiða. Ég lít svo á að um það hafi verið rætt í dag að þannig yrði haldið á dagskrá fundarins.

(Forseti (HBl): Ég vil ítreka það sem ég áður sagði að nú er verið að ræða um 10. dagskrármálið, lögleiðingu ólympískra hnefaleika. Það mál fellur ekki undir viðskrh. og það liggur ekki fyrir hvenær umræðum um það dagskrármál lýkur. Því hefur heldur ekki verið lýst yfir að umræðum um það ljúki eða þær hætti um leið og hæstv. ráðherra kemur í húsið.)

Herra forseti. Mér finnst þetta alveg með endemum. Ég hef litið svo á, herra forseti, a.m.k. hingað til að forseti þingsins væri jafnt forseti stjórnar og stjórnarandstöðu. Hér er eindregin ósk frá stjórnarandstöðu um að ákveðin mál séu tekin á dagskrá, stjórnarfrumvörp, sem ég leit svo á miðað við þær umræður sem fram fóru í dag og þau orðaskipti sem urðu úr stól forseta og úr ræðustól, að þau yrðu tekin svo fljótt sem verða mætti eftir kvöldmatarhlé og því var fyrst og fremst borið við að viðveru viðskrh. vantaði.

Nú sé ég ekki að neitt sé því til fyrirstöðu að hæstv. viðskrh. komi til þings. Þess vegna skil ég ekki það sem fram kemur frá forseta þingsins að hann ætli að hunsa eindregnar óskir okkar stjórnarandstæðinga um að þessu máli verði frestað og án nokkurra sýnilegra raka, herra forseti. Forseti ætlar greinilega að halda til streitu þessu mjög svo umdeilda máli þar sem margir eru á mælendaskrá og ekki er sýnt að það klárist á næstu klukkustundum. Mér finnst þetta afar óskynsamlegt af hálfu forseta fyrir utan það að hæstv. forseti ætlar að hunsa eðlilegar og sanngjarnar óskir okkar stjórnarandstæðinga.

Ég ítreka það, herra forseti, að ég hef litið svo á að hæstv. forseti væri líka minn forseti alveg eins og forseti stjórnarliðanna sem beita sér nú hart fyrir þessu umdeilda þingmannafrv. um að lögleiða hér ólympíska hnefaleika. Ég bið þess lengstra orða og fer eindregið fram á það við hæstv. forseta að hann verði við bón okkar í stjórnarandstöðunni.