Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 21:15:53 (7663)

2000-05-12 21:15:53# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[21:15]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég er andvígur því að lögleiða hnefaleika á Íslandi. Ég hef hlustað á margar ágætar ræður hér í dag. Þar á meðal fluttu mál sitt tveir fulltrúar heilbrigðisstéttanna, hv. þm. Þuríður Backman, hjúkrunarfræðingur sem á langa starfsreynslu að baki á heilbrigðissviðinu og hv. þm. Katrín Fjeldsted, læknir. Þótt það sé rétt sem fram kom í ræðu síðasta ræðumanns, að fáir hafi verið hér í salnum, þá vil ég láta koma fram að ég sat á skrifstofu minni og hlýddi á hvert einasta orð. Þar flutti t.d. hv. þm. Katrín Fjeldsted fróðlega ræðu og setti fram sannfærandi rök gegn því að lögleiða hnefaleika á Íslandi.

Ég hef einnig lesið greinar sem margir hafa vitnað í eftir Martein Björgvinsson. Hann segir í grein sem birtist ekki alls fyrir löngu í Morgunblaðinu, með áskorun til þingmanna, að ein stærstu mistökin í lífi hans hafi verið að hefja hnefaleika, en það mun hann hafa gert 15 ára að aldri. Hann staðhæfir að fyrir vikið hafi hann orðið öryrki. Síðan leiðir hann rök að því hvers vegna við eigum að banna hnefaleika.

Ég vil hlusta á varnaðarorð þessa manns og röksemdir lækna og hjúkrunarfræðinga sem hafa kynnt sér þessi mál erlendis, sem vitna í erlend fræðirit og hafa rannsakað þessi mál. Ég tek alvarlega varnaðarorð sem sett hafa verið fram í því samhengi.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Gunnar Birgisson nefndi, að menn geta slasast í öllum íþróttum. Menn geta slasast í knattspyrnu og það er rétt að þegar menn hreyfa sig þá geta þeir orðið fyrir slysi. Í fjallgöngum og jafnvel á göngu geta menn slasað sig. Þeir geta dottið af hestbaki, geta hrasað og slasað sig illa, það er alveg rétt. En mér finnst engu að síður munur á því að detta af hestbaki eða hrasa um stein og hljóta höfuðhögg. Mér finnst munur á því og hinu að taka þátt í íþrótt sem hefur að markmiði að berja andstæðinginn í höfuðið og annars staðar á líkamann. Mér finnst grundvallarmunur á þessu tvennu. Mér finnst þetta einnig snúast um siðfræði íþróttanna, ef svo mætti segja. Mér finnst hnefaleikar ekki vera siðleg íþrótt, það er mín skoðun. Mér finnst þetta vera ofbeldisíþrótt og er andvígur henni af þeim sökum. Ekki finnst mér bætandi á slíkt í okkar samfélagi nú um stundir þar sem ofbeldi er í hávegum haft. Það er ein helsta skemmtun þjóðarinnar og þjóðanna að horfa á ofbeldi í sjónvarpi og í kvikmyndahúsum. Nú er ætlast til að Alþingi Íslendinga lögleiði íþrótt sem byggir á slíku.

Mér fannst líka sannfærandi rök sem komu frá hv. þm. Þuríði Backman varðandi ávanalyfin. Að vissu leyti er það sambærilegt þegar menn fullyrða, eins og hér var gert fyrr við umræðuna, að þar sem hnefaleikar væru stundaðir væri rétt að finna þeim lagalega stoð til að ná utan um þessa íþróttagrein. Þetta er að vissu leyti sambærilegt við það hv. þm. Þuríður Backman benti á, umræðuna um hassið á sínum tíma. Sumir hafa sagt: Hassið er reykt, sköpuðum því lagalega stoð til að ná utan um þessa neyslu. Þegar menn spyrja, eins og hv. þm. Gunnar Birgisson og fleiri talsmenn þessa frv., hvort ekki eigi að banna allar íþróttagreinar sem menn geta slasað sig í, þá finnst mér þetta ámóta og spurningin um hassið, tóbakið og áfengið. Hvers vegna ekki að banna þá öll ávanalyf ef við ætlum að banna hass og heróín?

Hér erum við að fjalla um hvort setja eigi lög, frv. snýst um það, að bæta hnefaleikum sem, að mínum dómi er ofbeldisíþrótt, við í flóru íþróttanna. Ég er andvígur því.