Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 21:22:06 (7664)

2000-05-12 21:22:06# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[21:22]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu hvort lögleiða skuli ólympíska hnefaleika. Ég vil vitna til ágætra ræðna hv. þm. Katrínar Fjeldsted og Þuríðar Backman varðandi heilbrigðisþætti málsins og þá áhættu hnefaleikar hafa fyrir heilsuna.

Ég vil hins vegar, herra forseti, draga fram aðra þætti sem kannski hefur ekki verið fjallað eins mikið um. Ég vil í upphafi víkja að því sem kemur fram og er undirstrikað í nál. frá minni hluta menntmn. þar sem segir:

,,Það vegur líka þungt í afstöðu minni hlutans gegn lögleiðingu hnefaleika að hér er um árásaríþrótt að ræða. Markmið íþróttarinnar er að meiða andstæðinginn og því ofar sem höggin falla á líkamann því hærri stig gefur höggið, rothögg gefur líka stig í áhugamannahnefaleikum.``

Herra forseti. Vitnað hefur verið til þess að þetta sé forn íþrótt sem hafi verið tíðkuð nánast frá fyrstu tíð. En þá ber líka að hafa í huga að þessi íþrótt, ef íþrótt skal kalla, var hluti af því að innræta einstaklingum bardagaáhuga sem nýtast mundi í hernaði, jafnvel til að verja þjóð sína með valdi eða til að sækja líka að öðrum einstaklingum og þjóðum. Íþróttin var hluti af innrætingu þjóða sem byggja á hernaði. Þjóðir með her geta þá kannski varið ástundun slíkrar íþróttar með yfirlýsingum um að þær séu hernaðarþjóðir, þær séu reiðubúnar að gera árásir á aðrar þjóðir. Svona íþrótt væri hluti af innrætingu hernaðarþjóða og undir því yfirskyni er sjálfsagt hægt að líta á þetta sem íþrótt, með það pólitíska markmið að innræta hernaðar- og árásarhug.

En við Íslendingar, herra forseti, höfum ekki her. Það er enginn vilji hjá okkur til að hafa her. Við erum ekki með herkvaðningu og herskyldu. Við erum andvíg þeim hug sem herkvaðningu fylgir, því að halda her til varnar eða til að sækja á aðrar þjóðir með hernaði. Við erum andvíg því. Þess vegna erum við líka andvíg því að hér séu stunduð, undir því yfirskini að heita íþrótt, innræting í þá veruna.

Við getum ekkert sagt um það þó aðrar þjóðir með hernaðarinnrætingu að pólitísku markmiði líti á það sem nauðsynlegt að stunda hnefaleika. Þær hafa þau rök þó við séum í sjálfu sér andvíg slíku þjóðskipulagi. Það eru hins vegar engin rök fyrir okkur Íslendinga sem ekki höfum her og viljum ekki hvetja til ofbeldis eða hernaðarbrölts.

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að box hvetur til árásar og ofbeldis. Við höfum virkilega þörf á hvata til annars í samfélagi okkar en að ýta undir þær kenndir sem hægt er að fá útrás fyrir með þeim hætti. Við höfum miklu frekar ástæðu til að hvetja til aukins umburðarlyndis, náungakærleika, hvetja til þess að menn beiti ekki ofbeldi í samskiptum heldur vináttu og kærleika. Ég sé ekki að þessi íþrótt sé boðberi fyrir það.

Því, herra forseti, tel ég að með samþykkt þessa frv., ef sú ólukka henti hv. Alþingi, væru það skilaboð Alþingis út í samfélagið um að það legði blessun sína á ofbeldi og árásarhneigð. Það væru óbein skilaboð í þá veruna. Og það er ekki okkar hlutverk.

Herra forseti. Við eigum ekki að lögleiða hnefaleika.