Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 22:43:03 (7667)

2000-05-12 22:43:03# 125. lþ. 117.10 fundur 292. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[22:43]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. þar sem lagt er til að ólympískir hnefaleikar verði lögleiddir og að Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setji reglur um íþróttina. Sú sem hér stendur er aðili að meirihlutaáliti menntmn., þ.e. áliti þar sem lagt er til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Eftir þær ræður sem hér hafa verið haldnar þá held ég, herra forseti, að það sé ástæða til þess að ég geri grein fyrir afstöðu minni. Þegar þetta frv. kom fram fannst mér erfitt að finna flöt á því að vera á móti íþrótt sem af Alþjóðaólympíunefndinni er viðurkennd íþróttagrein og sem keppt er í á Ólympíuleikunum. Ég sá ekki alveg á hvaða forsendum menn settu sig upp gegn því að íþrótt sem hefur slíka alþjóðlega viðurkenningu væri bönnuð. Þeir sem hafa síðan skipað sér í raðir andstæðinga hafa fundið rök sín í því að íþróttin sé hættuleg, hún geti skaðað iðkendur. Ef ég mæti íþróttir eftir því hvort iðkendur geta skaðast og ef Alþingi tæki reglulega afstöðu til íþróttagreina á þeim forsendum, þeirra íþróttagreina sem Alþjóðaólympíusambandið viðurkennir, þá fyndist mér eðlilegt að það mat væri lagt hér á.

Mér finnst reyndar fullkomlega eðlilegt að menn velti því fyrir sér, nú þegar til stendur að aflétta þessu banni á hnefaleikum, hvaða skaða hnefaleikar geta valdið. En, herra forseti, ég get ekki látið það vera útgangspunktinn í skoðun minni á þessari íþróttagrein frekar en öðrum. Það eru býsna margar íþróttagreinar þar sem iðkendur geta skaðast og ég held að engu okkar dytti til hugar að setja Alþingi í þær stellingar að Alþingi fari að vega og meta, banna eða leyfa, íþróttir eftir mati á slíku. Það er alveg ljóst að menn skaðast reglulega við iðkun frjálsra íþrótta, við knattspyrnu, á skíðum, jafnvel í sundi, við vélsleðaakstur, í hestamennsku, í handbolta, við skotveiðar, hjólreiðar, mótorsport, fallhlífarstökk, svifdrekaflug o.s.frv.

[22:45]

Herra forseti. Ég held að ekkert okkar sé tilbúið til þess að setja Alþingi í þær stellingar að það fari að meta hvort við leyfum eða bönnum þessar íþróttagreinar. Ég held við séum sammála um að þær íþróttagreinar sem hafa hlotið alþjóðlega viðurkenningu eigi að leyfa áfram og það sé eðlilegt að Íþrótta- og Ólympíusambandið taki afstöðu til þess hvort og hvernig greinar sem þessar eru iðkaðar og hvort í þeim er keppt á Íslandi.

Eins og ég sagði, herra forseti, er verið að leggja til að ólympískir hnefaleikar verði lögleiddir og að Íþrótta- og Ólympíusamband Ísland setji reglur um íþróttina.

Sannarlega hafa komið hér fram skiptar skoðanir og í þeim umsögnum sem hv. menntmn. bárust voru líka skiptar skoðanir. En þar komu þó fram rök sem mæltu með samþykkt frv. Það er kannski eðlilegt að hér sé farið yfir þau og ég vænti þess að einhverjir hafi farið yfir þau nú þegar. Ég ætla ekki að gera það núna en mundi gera það ef ég teldi ástæðu til og teldi að það vantaði inn í umræðuna ef hún verður lengri og ítarlegri.

Herra forseti. Mér finnst það ekki vera hlutverk Alþingis að banna íþrótt eða öllu heldur í þessu tilfelli að leyfa ekki íþrótt sem er viðurkennd af Alþjóðaólympíunefndinni, íþrótt sem er viðurkennd og keppt er í á Ólympíuleikum. Þess vegna ákvað ég að styðja að þetta mál færi út úr nefndinni og kæmi til afgreiðslu í hv. Alþingi. Hitt er svo annað mál, herra forseti, að ég er ekki alveg farin að sjá hvort málið hefur meiri hluta hér. Á það verður að reyna og það fer ugglaust eftir því mati sem menn leggja á íþróttagreinar, hvort mönnum finnst rétt að útgangspunkturinn sé möguleg slysahætta eða hvort menn eru sammála því að eðlilegt sé að líta til þess hvaða greinar hafa alþjóðlega viðurkenningu sem keppnisgreinar og hvort okkur finnst eðlilegt að það sé fyrst og fremst Íþrótta- og Ólympíusambandið sem fari með ákvörðunarvald hvað varðar iðkun íþrótta á Íslandi.