Samkeppnislög

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 23:04:45 (7672)

2000-05-12 23:04:45# 125. lþ. 117.13 fundur 488. mál: #A samkeppnislög# (samstarf fyrirtækja, markaðsráðandi staða, samruni o.fl.) frv. 107/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[23:04]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ef það er eitthvað sem einkennir þróun í íslensku efnahagslífi nú um stundir er það samþjöppun og hringamyndun. Þessi hringamyndun á sér stað í bankakerfinu, í fjármálaheiminum. Þar erum við að verða vitni að samruna stofnana. Hún á sér stað á lyfjamarkaði og hún á sér stað á matvörumarkaði. En samkvæmt fréttum er eitt fyrirtæki þar komið með 60--70% af allri matvöruverslun í landinu, eitt einasta fyrirtæki með 60--70% af matvörumarkaðnum. Hvaða áhrif hefur sú hringamyndun, sú einokun sem er að verða, á vöruverð í landinu? Hvaða áhrif hefur hún? (LB: Þú getur rétt ímyndað þér.) Við getum rétt ímyndað okkur, segir hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Staðreyndin er sú að vöruverð á matvörumarkaði, matvara, hefur ekki lækkað sem skyldi vegna þessa. Síðan er það að gerast að þessar stóru keðjur kaupa upp alla samkeppni sem ógnar þeim, gleypa alla keppinauta og við þessu og þessari þróun eru menn að bregðast með breytingu á samkeppnislögunum. Í efh.- og viðskn. náðist bærileg sátt framan af en þegar hillti undir lokin á vinnunni fóru að heyrast undarlegustu raddir þar inni. Annars vegar frá samtökum sem þessir stóru verslunaraðilar áttu aðild að og hins vegar frá smávörukaupmönnum sem voru hlynntir því að skorður yrðu settar við hringamyndun. En hinir aðilarnir, fulltrúar stórfyrirtækjanna, höfðu uppi miklar efasemdir um að það væri rétt og börðust af alefli gegn þeirri lagasetningu sem við erum með á borðum okkar nú. Sérstaklega gagnrýndu þeir 10. gr. frv. og fengu því að lokum áorkað að ríkisstjórnin varð við kröfum þeirra að hluta til að draga úr þeim hömlum sem frv. gerði upphaflega ráð fyrir.

Í 10. gr. frv. segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Telji samkeppnisráð að samruni hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða, eins eða fleiri fyrirtækja, verði til eða slík staða styrkist getur ráðið ógilt samruna sem þegar hefur átt sér stað. Samkeppnisráð getur einnig sett slíkum samruna skilyrði sem verður að uppfylla innan tilskilins tíma. Við mat á lögmæti samruna skal samkeppnisráð taka tillit til þess að hvaða marki alþjóðleg samkeppni hefur áhrif á samkeppnisstöðu hins sameinaða fyrirtækis. Enn fremur skal við mat á lögmæti samruna taka tillit til þess hvort markaður er opinn eða aðgangur að honum er hindraður.``

Síðan heldur áfram án þess að ég ætli að vitna meira í greinina að sinni. En hér er um að ræða heimildarákvæði sem samkeppnisráð getur beitt.

Síðan heldur áfram, með leyfi forseta, ég ætla reyndar að vitna aðeins lengra í greinina:

,,Ákveði samkeppnisyfirvöld að taka samruna til athugunar skulu þau tilkynna viðkomandi fyrirtækjum um það innan þrjátíu daga ef þau telja ástæðu til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samrunans. Frestur þessi byrjar að líða þegar samkeppnisyfirvöldum berast eftirfarandi gögn frá viðkomandi fyrirtækjum:``

Og síðan er það talið upp.

Samkvæmt brtt. er lagt til eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Ákvæði 1. mgr. tekur einungis til samruna þar sem sameiginleg heildarvelta viðkomandi fyrirtækja er 1 milljarður kr. eða meira. Telja skal með veltu móður- og dótturfélaga, fyrirtækja innan sömu fyrirtækjasamstæðu og fyrirtækja sem aðilar samrunans hafa bein eða óbein yfirráð yfir. Þá skulu a.m.k. tvö af þeim fyrirtækjum sem aðild eiga að samrunanum hafa a.m.k. 50 millj. kr. ársveltu hvert um sig til að 1. mgr. taki til hans.``

Síðan er fjallað um tilkynningarskyldu.

Hér er með öðrum orðum verið að þrengja heimildar\-ákvæði Samkeppnisstofnunar. Þetta er gert að kröfu Sjálfstfl. og kröfu samtaka stórfyrirtækja á markaði sem vilja ekki að samkeppnisráð sé með einhverja truflandi hendi á markaðnum, það er orðið við kröfum frá þeim. Mér er fyllilega ljóst að Sjálfstfl. og stórfyrirtækin vildu ganga lengra. Þau vildu hafa þessi mörk allt önnur og gera þetta ákvæði nánast marklaust eða afar haldlítið. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli þó hafa staðið gegn þeim kröfum, ég ítreka það sjónarmið mitt að ég vildi að greinin hefði staðið óbreytt eins og hún var upphaflega í frv.

Þegar á heildina er litið tel ég að þetta frv. sé engu að síður mjög til bóta þótt ég gagnrýni þær breytingar sem verið er að gera á frv.

Aðeins eitt að lokum. Ég legg til að þegar þingið kemur saman í haust að tökum við til skoðunar þau lög, hvort það eru samkeppnislög eða lög sem hafa áhrif á hugsanleg útboð innan velferðarþjónustunnar. Þegar elliheimilið að Sóltúni 2 var boðið út var vísað í samkeppnisreglur á markaði. Ég geri mér ekki fyllilega grein fyrir því hvaða lög það eru sem þar um ræðir en ég tel að við þurfum að taka það til skoðunar. En á samkeppnismarkaði þar sem við ætlum að beita lögmálum markaðarins, í matvörudreifingunni, í lyfjadreifingunni, í fjármálaheiminum, þurfum við að búa við góða og trausta löggjöf sem tryggir samkeppni.

Ég vil nota tækifærið til þess að lýsa vanþóknun minni á því að frv. sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lagði fram á þinginu um dreifða aðild í fjármálastofnunum, fékkst ekki afgreitt út úr efh.- og viðskn. þótt á þinginu hefðu verið höfð uppi stór orð m.a. af hálfu hæstv. forsrh. um að það frv. ætti að taka til alvarlegrar skoðunar. Það var ekki mikil innstæða á bak við þá yfirlýsingu þegar á hólminn kom. Ég gagnrýni að meiri hluti efh.- og viðskn. skuli hafa komið í veg fyrir að þingið fengi að segja álit sitt á því máli. Ég gagnrýni það harðlega.