Samkeppnislög

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 23:25:51 (7675)

2000-05-12 23:25:51# 125. lþ. 117.13 fundur 488. mál: #A samkeppnislög# (samstarf fyrirtækja, markaðsráðandi staða, samruni o.fl.) frv. 107/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[23:25]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka formanni efh.- og viðskn. fyrir svörin. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að við náum ekkert lengra í þessu máli en hér er komið. Stjórnarflokkarnir hafa náð þeirri lendingu sem við erum að fjalla um. Engu að síður finnst mér sem fulltrúi í efh.- og viðskn. --- ég var að vísu fjarstödd þegar verið var að afgreiða þetta mál --- að það hefði verið afar mikilvægt ef fulltrúar Samkeppnisstofnunar hefðu komið á fundinn og sagt álit sitt á þeirri brtt. sem ég tel afar stóra sem hér er verið að gera til þrengingar á samrunaákvæðinu. En það var ekki gert og ég tel það enga tryggingu fyrir því að Samkeppnisstofnun hafi skoðað þetta mál eða áhrif þess þó að fulltrúi viðskrn. eigi sæti í stjórn samkeppnisráðs.

Mín spá er sú að koma muni til þess að á þessi ákvæði reyni og það hefði gert Samkeppnisstofnun miklu auðveldara fyrir að vinna að því að koma í veg fyrir fákeppni en verið hefur ef ekki hefðu verið settar þær skorður sem hér er verið að gera með þeim brtt. sem meiri hlutinn beitir sér fyrir.